17.04.1986
Sameinað þing: 77. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 4026 í B-deild Alþingistíðinda. (3715)

Almennar stjórnmálaumræður

Birgir Ísl. Gunnarsson:

Herra forseti. Góðir áheyrendur.

Á Íslandi eru skriðuföll algeng og við þekkjum að auðveldara er að hleypa skriðum af stað en stöðva þær. Fyrri ríkisstjórn hleypti fjórum stórskriðum af stað og það hefur verið hlutverk núverandi ríkisstj. að stöðva þær. Við skulum aðeins líta á þessar stórskriður.

1. Verðbólgan var komin á ógnarhraða. Hún mældist 130 stig á síðustu mánuðum fyrri ríkisstjórnar. Ekkert atvinnulíf fær til lengdar staðist slíka verðbólgu. Stöðvun fyrirtækja og atvinnuleysi blasti því við. Það var því brýnt forgangsverkefni að stöðva verðbólguna og koma á eðlilegu jafnvægi í íslensku atvinnulífi.

2. Þessi ríkisstjórn hleypti af stað skriðu erlendra skulda. Skuldasöfnunin undir forustu fjmrh. Alþb. keyrði fram úr öllu hófi og lán voru í stórum stíl tekin til daglegrar neyslu. Á þessum árum jukust erlendar skuldir miðað við gengi í dag um rúmlega 28 milljarða króna. Sú stjórn skildi eftir sig arf, skuldabagga upp á meira en 100 000 kr. fyrir hvert mannsbarn í landinu. Auðvitað hlýtur það að skerða lífskjör þegar lán þessi greiðast til baka. Allir vita að menn geta ekki notað sömu peningana til að greiða upp skuldir sínar og jafnframt keypt sitthvað sem hugurinn girnist.

3. Á þessu tímabili hófst mikill fólksflótti frá landsbyggðinni til höfuðborgarsvæðisins. Þessu olli m.a. þröngsýn og afturhaldssöm stefna í atvinnumálum þar sem reynt var að reyra allt í fjötra ríkisforsjár og miðstýringar, auk þess sem Alþb. kom í veg fyrir það í heil fimm ár að viðræður færu fram við erlenda aðila um samstarf á sviði orkufreks iðnaðar með þeim afleiðing um að orkuframkvæmdir og nýjar verksmiðjubyggingar stöðvuðust.

4. Kaupmáttur byrjaði að hríðfalla. Ég hef hér fyrir framan mig línurit úr síðasta fréttabréfi kjararannsóknarnefndar sem gefið er út undir ritstjórn Ásmundar Stefánssonar, forseta Alþýðusambands Íslands. Nú væri gott að hafa sjónvarp og bregða þessu línuriti á skjáinn svo að áheyrendur sæju þetta svart á hvítu.

Línuritið sýnir kaupmátt greidds tímakaups miðað við vísitölu framfærslukostnaðar árin 1982-1985. Á þessu línuriti má sjá að kaupmáttur tímakaupsins byrjaði að hríðfalla á þriðja ársfjórðungi 1982 og fallið er mest á tímabilinu frá þeim tíma og þar til fyrri ríkisstjórn fór frá. Og þetta skriðufall kaupmáttarins stöðvast ekki fyrr en í árslok 1983.

Við öll þessi stóru vandamál átti núv. ríkisstj. að glíma þegar hún tók við. Samstarfsmönnum Alþb. í fyrri ríkisstjórn ber saman um að ástæða þess hvernig fór hafi verið sú að Alþb., sem gegndi lykilhlutverki í ríkisstjórninni, gat ekki eða vildi ekki gera neinar þær ráðstafanir sem gera þurfti. Í þeim flokki eru menn góðir að tala eins og við munum vafalaust heyra hér í kvöld, en þeir eru lélegri þegar til framkvæmdanna kemur.

Núverandi ríkisstjórn hefur um margt tekist vel í glímunni við þessi miklu vandamál. Verðbólgan hefur verið færð niður á það stig sem er meðal helstu viðskiptaþjóða okkar. Aukning erlendra skulda hefur stöðvast þótt ekki hafi enn tekist að grynnka á skuldunum, enda hefði slíkt haft í för með sér óbærilega lífskjaraskerðingu. Kaupmátturinn er að byrja að mjakast upp á við og margvíslegar fyrirætlanir í atvinnulífi landsmanna eru líklegar til að koma á eðlilegu jafnvægi að nýju í byggð landsins.

Í því sambandi vil ég nefna mikla aukningu í fiskeldi, loðdýrarækt og líkleg ný stórverkefni á sviði orkufreks iðnaðar í samvinnu við erlenda aðila sem virðast reiðubúnir til að taka á sig meiri hluta áhættunnar við reksturinn.

Ég nefni einnig í þessu sambandi mikinn og vaxandi skilning á markaðsmálum meðal Íslendinga þar sem menn sækja fram á erlendum mörkuðum til að selja margvíslegar vörur, bæði fiskafurðir og iðnaðarvarning. Þessu starfi þarf að fylgja eftir með aukinni kynningu á Íslandi erlendis, þar sem Ísland sé kynnt sem tæknivætt nútímaþjóðfélag, þar sem framleiddar séu nútímavörur fyrir heimsmarkaðinn og að hér sé vettvangur fyrir samstarf við erlenda aðila um uppbyggingu nýrra hátækniiðngreina. Því aðeins bætum við Íslendingar lífskjör okkar til frambúðar að við aukum framleiðslu okkar og komum henni í gott verð á erlendum mörkuðum.

Utanríkismál hafa mikið verið á dagskrá síðustu daga. Því veldur auðvitað fyrst og fremst árás Bandaríkjamanna á Líbýu og hér á Alþingi tengdist umræða um það mál ítarlegri skýrslu utanrrh. um hina ýmsu þætti utanríkismála. Íslenska ríkisstjórnin hefur harmað þessa árás þar sem hún gæti leitt til frekari átaka og haft í för með sér ófyrirsjáanlegar afleiðingar. Öll hljótum við að vona að til frekari átaka komi ekki þótt það hryðjuverkaríki, sem fyrir árásinni varð, sé auðvitað óútreiknanlegt. Fréttir í kvöld gefa vonir um að ekki verði framhald á hernaðaraðgerðum.

Þessir atburðir hafa hins vegar orðið til þess að andstæðingar varnarsamstarfs okkar við vestrænar þjóðir hafa enn á ný reynt að egna til andstöðu við þátttöku okkar í Atlantshafsbandalaginu og veru varnarliðs á Íslandi. Hér á Alþingi eru þessar skoðanir settar fram af Alþb. og hinum óbrigðula fylgihnetti þess, Kvennalistanum.

Í heiminum í dag geisar mikið áróðursstríð. Þetta áróðursstríð tengist öllum þáttum alþjóðamála eins og friðarumræðunni, afvopnunarmálum, hryðjuverkastarfsemi, svo að eitthvað sé nefnt. Það er því auðvelt að tapa áttum í því moldviðri og því er ekki síður þyrlað upp á Íslandi en annars staðar. Í allri þessari umræðu reyna vinstri sinnaðir stjórnmálamenn að koma því inn hjá fólki að öll svonefnd hernaðarbandalög séu eins og í raun sé enginn munur á varnarbandalagi vestrænna þjóða, Atlantshafsbandalaginu, og bandalagi kommúnistaríkjanna í austri, Varsjárbandalaginu. Í þeim áróðri ganga menn fram hjá þeirri sögulegu staðreynd að ríki Vestur-Evrópu og Bandaríkin tóku saman höndum í Atlantshafsbandalaginu til að verja sig þegar hvert ríkið á fætur öðru hvarf inn fyrir járntjaldið á árunum eftir stríðið. Þá spurðu menn: Hvaða ríki verður næst? Og til að þurfa ekki lengur að svara þeirri spurningu þá bundust þessi ríki samtökum um að verja sig, einn fyrir alla og allir fyrir einn.

Sovétríkin beita stöðugum pólitískum og hernaðarlegum þrýstingi hvar sem glufa myndast, bæði í Evrópu og annars staðar í heiminum. Við megum heldur ekki gleyma því að lýðræði er á undanhaldi í heiminum. Lítill hluti mannkyns býr við lýðræðislegt þjóðskipulag en lýðræðið viljum við vernda eins og lífsandann. Að lýðræðinu er nú mjög sótt. Sú sókn er frá ýmsum einræðisöflum víða um heim. Þessi sókn að lýðræðinu birtist m.a. í vaxandi hryðjuverkum sem teygja sig til okkar heimshluta, eins og morðið á Olof Palme minnti okkur óþyrmilega á. Lýðræðisandúðin er einnig til innan lýðræðisríkjanna sjálfra í hópum öfgasinna til hægri og vinstri. Þetta stöðuga áróðursstríð og þessi mikli þrýstingur hefur glapið mörgum sýn. Slagorðið „betra rauður en dauður“ hafa friðarhreyfingar úti í Evrópu tekið upp í baráttu fyrir einhliða afvopnun Vesturlanda. Það hefur líka hljómað hér á landi. Í því felst siðferðileg uppgjöf fyrir ofbeldis- og einræðisöflum. Í því felst einnig að menn vilja engu fórna og engu hætta til að vernda lýðræðið, það þjóðskipulag sem okkur flestum finnst ómissandi. Þess vegna hljótum við Íslendingar að taka áfram þátt í varnarsamstarfi vestrænna þjóða eins og mikill meiri hluti þjóðarinnar hefur viljað hingað til.

Ég ætla ekki hér að ræða um samvinnu eða tengsl íslenskra stjórnmálaflokka við erlend samtök. Það vekur hins vegar óneitanlega athygli og jafnframt áhyggjur að fulltrúi Alþb. í Norðurlandaráði hefur skipað sér til samstarfs með kommúnistaflokkum á Norðurlöndum og jafnvel gerst framsögumaður í málum af þeirra hálfu. Á meðal þeirra flokka eru kommúnistaflokkar Finnlands og Svíþjóðar, sem ekkert fara dult með náin tengsl sín við Moskvu og lúta því valdi eins og tíðkast hjá kommúnistaflokkum. Það er þetta sama Moskvuvald sem styður hryðjuverkastarfsemi Sýrlands og Líbýu svo eitthvað sé nefnt. Alþb. verður auðvitað að svara fyrir þessi nánu tengsl.

Herra forseti, góðir áheyrendur. Nú er stutt í sveitarstjórnarkosningar og nýjar sveitarstjórnir munu vinna á grundvelli nýrra laga um sveitarstjórnarmál sem hér voru samþykkt í gær. Alþingi lýkur störfum eftir fáa daga til að gefa sveitarstjórnarmönnum eftir hið pólitíska svið þann rúma mánuð sem þá verður eftir til kosninga.

Að venju mun kosningabaráttan hér í Reykjavík vekja mesta athygli. Í Reykjavík stendur baráttan milli trausts, samhents og ábyrgs meiri hluta undir forystu Davíðs Oddssonar borgarstjóra annars vegar og hins vegar ósamstæðs og margklofins minni hluta. Reykvíkingar muna vel óstjórnartímabilið 1978-1982 þegar ósamhentur vinstri meiri hluti reyndi að stjórna hér í borg við lítinn orðstír. Það tímabil stendur Reykvíkingum öllum í fersku minni og þeir munu þess vegna ekki láta slík ævintýri henda aftur. Ég hvet Reykvíkinga til að kynna sér nú næstu vikur störf borgarstjórnarinnar á þessu kjörtímabili. Hlutlægt mat borgarbúa á störfum meiri hluta sjálfstæðismanna í borgarstjórn er Sjálfstfl. í hag. Kosningar vinnast þó aldrei án fyrirhafnar og því þurfa sjálfstæðismenn að vera vel á verði til að tryggja sigur í borgarstjórnarkosningunum.

Ég þakka þeim sem hlýddu. Góða nótt.