17.04.1986
Sameinað þing: 77. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 4033 í B-deild Alþingistíðinda. (3718)

Almennar stjórnmálaumræður

Svavar Gestsson:

Góðir Íslendingar. Einu sinni var stjórnmálaflokkur sem vildi herinn úr landinu. Nú veitir hann forstöðu ríkisstjórn sem styður í öllum meginatriðum utanríkisstefnu Reagan-stjórnarinnar. Einu sinni var sami stjórnmálaflokkur talinn sérstakur málsvari bænda og búaliðs, dreifbýlis í þessu landi. Nú hefur hann forustu fyrir aðgerðum í ríkisstjórn sem hafa komið svo illa við landbúnaðinn og framleiðsluatvinnuvegina að auðn blasir við stórum hluta landsbyggðarinnar og fjöldi bænda sér fram á gjaldþrot. Einu sinni var sami stjórnmálaflokkur sem hafði stuðning um 30% þjóðarinnar í almennum kosningum hvað eftir annað og sami flokkur var næststærsti flokkur höfuðstaðarins fyrir aðeins 16 árum. Nú eru áhöld um það hvoru megin þessi sami flokkur verður við 10% mörkin í næstu alþingiskosningum og ljóst að hann yrði minnsti flokkur Reykjavíkur í næstu kosningum ef Flokkur mannsins byði ekki fram. Einu sinni hafði þessi stjórnmálaflokkur kjörorðin „allt er betra en íhaldið“ og vann síðar stórfelldan kosningasigur á grundvelli þessa kjörorðs árið 1979. Nú hefur flokkurinn annað kjörorð „allt er best hjá íhaldinu“.

Nú heyri ég hér í salnum að einhver áttar sig á að ég er að tala um Framsfl. og einhvers staðar heyrist tuldrað: Já, en Framsfl. er ekki einn í núv. ríkisstj. og það er rétt. En í rauninni er Framsfl. í núv. ríkisstj. ekkert frábrugðinn íhaldinu og ég man ekki eftir neinu máli þar sem hann hefur skorið sig frá íhaldinu með afgerandi hætti. Hann hefur hlýtt eins og húsbóndinn skipar hverju sinni. Munurinn kemur að vísu örsjaldan í ljós, en sá munur minnir á muninn á hjáleigunni og höfuðbólinu. Framkoma Framsfl. eftir kosningarnar 1983 eru einhver stærstu kosningasvik sögunnar og það er ljóst að það er aðeins eitt sem Framsfl. skilur, tap, stórfellt tap í kosningunum og það strax í sveitarstjórnarkosningunum í vor.

Fyrir kosningarnar 1983 lýsti Sjálfstfl. því yfir að við tæki gullöld og gleðitíð ef hann aðeins kæmist til valda. Hver er niðurstaðan? Hafa erlendar skuldir minnkað? Nei, þær hafa aukist svo nemur milljörðum króna í tíð þessarar ríkisstjórnar. Hefur viðskiptahallinn minnkað? Nei, hann nemur 15 milljörðum króna í tíð þessarar ríkisstjórnar. Hefur hagur framleiðsluatvinnuveganna batnað? Nei, þar blasir við stórfelldur hallarekstur þegar líður á árið þrátt fyrir stöðuga árgæsku og hækkandi verð á erlendum mörkuðum. Hafa vextirnir lækkað? Nei, vextir eru þeir hæstu í heimi. Hefur hagur ríkissjóðs batnað? Nei, ríkissjóður er rekinn með meiri halla en nokkru sinni fyrr, þar hefur Þorsteinn Pálsson slegið fyrri met íhaldsins í fjmrn., þeirra Alberts Guðmundssonar og Matthíasar Á. Mathiesens.

En hið alvarlegasta er þó það hvernig stjórnarstefnan, frjálshyggjan hefur leikið heimilin í landinu. Þúsundir heimila eru komnar á vonarvöl. Nú er ekki deilt um það að það er stórfelld fátækt á Íslandi á nýjan leik. Deilurnar snúast um það hversu víðtæk hún er. Sérfræðingur Þjóðhagsstofnunar telur 20 þúsund fjölskyldur af 70 þúsund hafa tekjur undir fátæktarmörkum. Sérfræðingur kjararannsóknarnefndar tetur mörkin vera 17% af félagsmönnum verkalýðsfélaganna. Hvor talan sem rétt er, þá er hér komið upp nýtt ástand á Íslandi, ástand sem við þekkjum ekki frá stjórnmálaumræðu síðustu ára. Fólk á mínum aldri hefur alist upp við batnandi lífskjör undanfarna áratugi. Við höfum rætt um það á þeim tíma hvernig eigi að bæta félagslega þjónustu, bæta heilbrigðiskerfið, skólakerfið, menntakerfið, dagvistun barna. Nú er fátæktin orðin dagskrárefnið, rétt eins og fyrir stríð í kreppunni miklu. Virðingarleysið fyrir sammannlegum verðmætum er í hámarki. Rætt er um að stjórnarstefnan hafi í för með sér mannfórnir. Þetta er Ísland árið 1986.

En eru ástæðurnar kannske þær að þjóðarbúið sé efnahagslega komið á vonarvöl? Nei, það er ekki skýringin. Síðasta ár var metár í afla Íslendinga. Við höfum aldrei dregið meiri fisk að landi og verðmæti aflans er í hámarki. Verðlag á erlendum mörkuðum hefur aldrei verið hærra. Olía og bensín er nú á lægra verði á alþjóðamörkuðum en verið hefur í meira en hálfan annan áratug. Allt ætti að vera með blóma. Vegna ytri aðstæðna hafa þjóðartekjur á mann og þjóðarframleiðsla farið vaxandi allt frá árinu 1983. Nú er því ekki til að dreifa, sem var á árinu 1982, að þjóðarbúið hafi orðið fyrir stórfelldu áfalli. Þvert á móti, þjóðartekjur hafa aukist um 10 milljarða króna frá árinu 1983 á föstu verðlagi síðasta árs. Og samt er fátæktin þessi. Samt dugir ekki margfaldur vinnuþrældómur fjölskyldnanna til þess að framfleyta þeim með eðlilegum hætti. Samt blasir óvissan við börnum og unglingum sem nú eru að vaxa úr grasi. Og hvað veldur þessu? Svarið er: Stjórnarstefnan og sú misskipting auðæfanna sem af henni hlýst.

Við eigum svo mikil verðmæti á Íslandi að allir ættu að geta búið við sæmileg lífskjör. En á sama tíma og hundruð fjölskyldna sjá íbúðirnar sínar í tilkynningum um nauðungaruppboð, á sama tíma og fátæktin heldur innreið sína á ný, á sama tíma og örvæntingin læsist um íslensk heimili þúsundum saman, þá vitum við að fámennur, forríkur minni hluti býr við betri kjör en nokkru sinni fyrr. Eftirspurn þeirra eftir rándýrum nýjum bílum er nú slík að bílaumboðin anna ekki eftirspurn. Það sem byggt hefur verið í Reykjavík á undanförnum árum eru aðallega rándýr einbýlishús. Verslunarhús sem kosta hundruð milljóna króna rísa hvert af öðru. Okurlánastarfsemi skilar okrurum hundruðum milljóna. Þeir fáu sem nást fara svo úr landi án þess að þurfa að hlíta dómi og lögum og leika sér í útlöndum í vellystingum praktuglega meðan láglaunafólkið er hundelt með reikningana sína. Og þetta gerist auðvitað á sama tíma og Sjálfstfl. ræður öllu og hefur Framsfl. í tjóðurbandi í landsstjórninni, og á þeim tíma sem Sjálfstfl. er algjörlega einvaldur í Reykjavík og í mörgum byggðarlögum öðrum, sérstaklega hér á Suðvesturlandi.

Sjálfstæðisflokkurinn er flokkur auðmanna. Hann er hið pólitíska skjól fyrir fjármálabrask og spillingu - og Framsfl. á sínar kaffibaunir líka. Sjálfstfl. hefur hagsmunagæslu fyrir þessa aðila á hendi og hann starfar í samræmi við það. Það er þess vegna dapurlegt upp á að horfa ef launamenn styðja íhaldið. Með því eru þeir að kjósa á móti sjálfum sér og sínum hagsmunum. En eru þeir ekki allir eins? Því er stundum haldið fram, en hugleiðum þessar spurningar:

1. Af hverju hefur kaupmáttur launa á undanförnum áratugum alltaf verið hæstur þegar Alþb. hefur verið aðili að ríkisstjórnum?

2. Af hverju er uppbygging á félagslegri þjónustu, skólamálum og heilbrigðismálum öflugust þegar Alþb. er í ríkisstjórn?

3. Af hverju er byggðaþróun jákvæð þegar Alþb. er aðili að ríkisstjórnum?

Það er vegna þess, góðir hlustendur, að Alþb. hefur stefnu sem byggist á hagsmunum meiri hluta þjóðarinnar, hinna vinnandi manna í landinu. Alþb. skorar nú á þennan meiri hluta að höggva á viðjar vanans, snúa baki við íhaldinu og veita stjórnarflokkunum ærlega ráðningu. Það er tækifæri til þess í næstu kosningum eftir aðeins sex vikur.

Alþb. hefur á þessum vetri sýnt fram á að það er unnt að lifa á Íslandi og það er unnt að bæta lífskjörin. Það á að gera í fyrsta lagi með því að skipta jafnar. Auðvitað geta ekki allir fengið allt. Þeir lægstu eiga að hækka verulega en lífskjör þeirra auðugu verður að skerða frá því sem nú er um að ræða. Samkomulagið í Bolungarvík er skynsamleg tilraun til þess að brjótast fram á nýjum brautum og ákveða að enginn skuli hafa minna fyrir sig að leggja en 30 þús. kr. á mánuði.

Í annan stað verður að takast að skera niður milliliðakostnaðinn og yfirbygginguna í þjóðfélaginu. Landsbankinn græddi á síðasta ári um einn milljarð króna, Seðlabankinn á síðustu tveimur árum um hálfan milljarð króna - eftir að hafa reist hús sem kostar 547,8 millj. kr. á núvirði, samkvæmt upplýsingum sem ég fékk frá Seðlabankanum í dag. Þetta milliliðabákn þarf að skera miskunnarlaust niður og yfirbygginguna þungu sem er að sliga þjóðarbúið. Skattsvikin verður að uppræta með þeirri stefnu sem Alþb. samþykkti á landsfundi sínum: Með margföldun skattsekta, einfaldara skattakerfi og hertu skatteftirliti. Opinber nefnd hefur nú komist að sömu niðurstöðu og telur að skattsvikin nemi 6000-7000 millj. kr., en tap ríkis og sveitarfélaga þess vegna nemi 2,5-3 milljörðum kr. Það er ein meginforsenda þess að unnt verði að bæta lífskjörin að skattakerfið verði betra en verið hefur.

Í þriðja lagi hefur Alþb. bent á leiðir til nýrrar sóknar í atvinnulífinu. Með aukinni áherslu á nýsköpun, tækniþróun og rannsóknarstarfsemi getum við hér á næstu árum skapað forsendur fyrir lífskjör sem eru sambærileg við það sem gerist í grannlöndum okkar, bæði í kaupi og félagslegri þjónustu. Þá munu Íslendingar ekki lengur þurfa að flýja til granniandanna til þess að bjarga sér undan gjaldþrotastefnu ríkisstjórnar, eins og þeirri sem nú birtist launafólki og framleiðsluatvinnuvegum.

Góðir hlustendur. Í kjarasamningunum í vetur gerðust þau tíðindi að aðilar vinnumarkaðarins sameinuðust um að stilla ríkisstjórninni upp við vegg. Stærsti árangur samninganna eru húsnæðismálin. Þar hafði Sjálfstfl. lofað 80% lánum en svikið og aldrei hefur verið erfiðara fyrir fólk að festa kaup á húsnæði en undanfarin ár. Mátti heita að Sjálfstfl. hefði beinlínis drepið svokallaða sjálfseignarstefnu í húsnæðismálum. Verkalýðshreyfingin knúði fram lagfæringar, nýtt húsnæðislánakerfi, þar sem er byggt á hugmyndum sem hafa þróast á undanförnum árum. Húsnæðissamkomulagið er hápunktur kjarasamninganna og ber að jafna því til stærstu ávinninga verkalýðshreyfingarinnar á liðnum áratugum.

En þrátt fyrir samkomulagið sem gert hefur verið í húsnæðismálum er vissulega hvergi nærri nóg að gert. Efla verður félagslegt íbúðabyggingakerfi, stuðla að viðgangi húsnæðissamvinnufélaga og síðast en ekki síst er óhjákvæmilegt að grípa til sérstakra aðgerða vegna þeirra sem hafa orðið harðast fyrir misgengi launa og lána á undanförnum árum eftir að kaupgjaldsvísitalan var bönnuð með lögum.

Auk þess að knýja fram nýja stefnu í húsnæðismálum tókst verkalýðshreyfingunni að hrekja ríkisstjórnina á flótta í verðlagsmálum. Þar hefur til þessa verið fylgt stefnu hins hömlulausa álagningarokurs. Nú hefur verðlagseftirlit verið eflt verulega fyrir frumkvæði verkalýðssamtakanna. Í samningunum var líka tekið á félagslegum réttindum fiskvinnslufólks og foreldra í veikindum barna. Þar með verða að veruleika þingmál sem þeir Guðmundur J. Guðmundsson, Karvel Pálmason og Ragnar Arnalds hafa átt fyrir þinginu að undanförnu en stjórnarliðið hefur fellt. Þar með kemur í ljós að hið stéttarlega vald verkalýðsins getur beygt meiri hluta Alþingis þó hann sé almennt fjandsamlegur verkafólki.

Þá er í kjarasamningunum gert ráð fyrir mun minni verðbólgu en áður hefur verið um langt skeið, en minnkandi verðbólga byggist fyrst og fremst á því að útflutningsafurðir okkar hækka stöðugt í verði og olíuverð fer lækkandi, og loks á því að kaupmáttur launa er enn mjög lágur þó hann geti aukist um 6-7% á samningstímabilinu.

Kaupmáttur launa hér á landi er óþolandi lágur og vinnuþrældómurinn er yfirþyrmandi. Lífskjörin verður að bæta og Alþb. er ekki til viðtals um þjóðarsátt um fátækt á 20 þúsund heimilum í landinu. Það er hlutverk Alþb. að berjast gegn fjármálavaldinu hvar sem það birtist. Eini raunverulegi andstæðingur íhaldsins í þjóðmálum er Alþb.

Þess hefur orðið vart eftir kjarasamningana að margir hafa orðið fyrir vonbrigðum með þá og það er ekki að undra því margt hefði þurft að takast betur. Hitt er ljóst að kjarasamningar hafa aldrei skilað varanlegum þjóðfélagslegum breytingum undir hægri stjórn og að þjóðfélaginu verður aldrei breytt til frambúðar nema með pólitískum breytingum. Kjarasamningar eru áfangi og þar tekst oft vel til en stundum miður. En einungis með víðtækum pólitískum breytingum getum við skapað varanlegt velferðarríki hins vinnandi manns á Íslandi.

Og fram undan er tækifæri: Kosningarnar 31 maí. Þá verður tekist á um stjórn byggðarlaganna. Berið þið saman, góðir hlustendur, stjórn byggðarlaganna þar sem Alþb. er aðili að meiri hluta og þar sem Alþb. er utan meirihlutaaðildar. Svo vill til að nærri hlið við hlið eru álíka stórir bæir, Kópavogur og Hafnarfjörður. Þar er fróðlegt að bera saman félagslega þjónustu. Sá samanburður er Kópavogi tvímælalaust í vil. Athugið Neskaupstað sérstaklega. Þar er nægilegt framboð á dagvistarrými fyrir börn og hefur verið allt frá árinu 1966. Berið saman stjórnarhættina í Reykjavík og annars staðar. Berið saman framkvæmdir í þágu aldraðra nú og áður í Reykjavík. Berið saman veisluhöldin fyrir flokksgæðinga íhaldsins - sem fá gefnar 60 millj. kr. fyrir landsvæði sem þarf í fyrsta lagi að nota seint á næstu öld - berið þetta saman við framlög félagsmálastofnunar handa fátæku fólki í Reykjavík. Um þetta verður að fjalla í kosningabaráttunni.

En hitt er ekki minna um vert, góðir tilheyrendur, að við setjum kosningarnar í landsmálapólitískt samhengi: Af hverju er minna fé til framkvæmda í félagsmálum, menningarmálum, samgöngumálum og heilbrigðismálum en áður? Það er vegna þess að ríkisstjórnin hefur skorið niður um meira en helming framlög til sameiginlegra verkefna ríkis og sveitarfélaga. Ríkisstjórnin, hvað er hún? Hún er Framsfl. og Sjálfstfl. Þeir sem styðja þessa flokka eru að leggja blessun sína yfir niðurskurð félagslegra framlaga til sveitarfélaganna. Frambjóðendur þessara flokka eru frambjóðendur niðurskurðarstefnunnar. Hvar sem þeir eru í framboði þá eru þeir að skrifa upp á þessa stefnu. Á mannamótum munu þeir reyna allt hvað þeir geta til að sverja flokka sína af sér á landsmálagrundvelli. En orð þeirra eru innihaldslaus og marklaus. Og þegar þeir tala um nauðsyn sjálfstæðis sveitarfélaganna gegn hinu ægilega ríkisvaldi eru orð þeirra einnig marklaus því flokkar þeirra hafa skrifað upp á skerðingu á eina verðtryggða tekjustofni sveitarfélaganna, Jöfnunarsjóði sveitarfélaga, en Alexander Stefánsson hefur haft forustu um þá skerðingu sem nemur fleiri hundruð milljónum króna.

Kosningarnar til sveitarstjórna 1982 voru upphafið að sigri frjálshyggjunnar og þeirrar stefnu sem hefur haft í för með sér upplausn og örvæntingu á þúsundum heimila, landflótta og byggðaröskun, og minnkandi félagslegar framkvæmdir. Kosningarnar 1986 þurfa að marka önnur þáttaskil, þau að félagsleg sjónarmið sæki á á nýjan leik og að frá og með kosningunum 1986 hefjist nýtt sóknarskeið á Íslandi, framfarir og uppbygging, bjartsýni og baráttugleði í stað niðurdrepandi vonleysis undanfarinna þriggja ára.

Í kosningunum 1982 tapaði Alþb. nokkru fylgi en er samt næststærsti flokkurinn í kaupstöðum landsins með verulegt forskot á þá sem næstir komu. Alþb. er þannig eini raunverulegi andstæðingur íhaldsins en þarf að eflast að miklum mun. Í kosningunum 1982 skiptu íhaldsandstæðingar sér á fleiri flokka en áður. Sundrungin þá er ein ástæða kjaraskerðingarinnar sem hefur dunið yfir að undanförnu.

Ég hvet Alþýðubandalagsmenn um allt land til þess að fylkja liði á komandi vikum. Íhaldið hefur yfir stórfelldum fjármunum að ráða og ekkert getur unnið það forskot upp annað en stöðug vinna stuðningsmanna Alþb. Nú er skammur tími til stefnu og hverja stund þarf að nota til markvissra starfa.

Góðir hlustendur. Síðustu daga höfum við verið minnt óþyrmilega á það að Ísland er hluti heimsátakanna, þegar Bandaríkjastjórn hóf árásir á Líbýu og Bandaríkjaforseti tók ábyrgð á hryðjuverkum gegn saklausu fólki. Þegar slíkt gerist erum við minnt á að hér á landi er bandarískur her, sami herinn og gerði árásina á Líbýu. Hefðu stjórnvöld í Bretlandi neitað um aðstöðu fyrir morðárásina á Líbýu er næsti NATO-flugvöllur Bandaríkjamanna hér á Íslandi. Sem aðilar að NATO erum við kölluð til ábyrgðar á árásinni vegna þess að hér er bandarískt herlið. Viðbrögð íslenskra stjórnvalda voru aumingjaleg og viðbrögð stærsta blaðs landsins hneyksli, en Morgunblaðið hefur í raun réttlætt árásina sem hafði í för með sér morð á konum og börnum - saklausu fólki.

Það ber að beita sér af alefli gegn hryðjuverkum og hryðjuverkamönnum, en það verður ekki gert með öðrum hryðjuverkum. Ætlum við að bera ábyrgð á því að þessar deilur magnist stig af stigi rétt eins og í Víetnam á sínum tíma? Ætlar íslenska ríkisstjórnin að bera ábyrgð á þeirri stórfelldu hættu sem blasir við öllu mannkyni þessa dagana? Ef íslenska ríkisstjórnin vill við þessar aðstæður tryggja öryggi Íslands og grannþjóða okkar ber henni að fordæma árásir Bandaríkjamanna á Líbýu.

Alþb. hefur haft sérstöðu í utanríkismálum; hefur viljað stuðla að friði og afvopnun; hefur viljað halda Íslandi utan hernaðarátaka; hefur viljað herinn burt og Ísland úr NATO. Friðarstefna Alþb. í utanríkismálum verður aldrei brýnni en þegar vá ber að dyrum eins og nú, og sú stefna á vissulega stuðning víða í þjóðfélaginu.

Að lokum þetta, góðir tilheyrendur. Fyrir nokkrum dögum birtist í sjónvarpinu stutt viðtal við Kjartan Ragnarsson leikstjóra og leikritahöfund. Kjartan er tvímælalaust einn fremsti listamaður Íslendinga um þessar mundir og í viðtalinu lýsti hann því hvernig menn hefðu tekið framtíðinni opnum örmum með bjartsýni og framfarahug er kreppunni lauk. Nú, sagði hann, nú er fólk hrætt við framtíðina, og fortíðarhyggjan einkennir samfélagið. Þessi skil sýnir Kjartan ákaflega vel í leikverki sínu Land míns föður, og margt er til í orðum Kjartans: En ber okkur ekki engu að síður að reyna að efla trú fólksins á framtíðina, á lífið? Auðvitað. Og besta leiðin til þess er alhliða ný sókn í efnahags- og atvinnumálum okkar, sókn til betri lífskjara, auðugra menningarlífs, styttri vinnutíma, betri félagslegrar þjónustu, en umfram allt sókn til lífsins með friðarstefnu í utanríkismálum.

Okkar skylda er að færa hinni ungu kynslóð nýtt Ísland, bjartsýni og lífsgleði. Ísland sem þorir á alþjóðavettvangi að berjast fyrir friði og sjálfstæði smáþjóðanna gegn hryðjuverkum, hver sem ber ábyrgð á þeim, berjast fyrir jöfnuði, jafnrétti og lýðræði inn á við. Ísland er gott land og fagurt. Fólkið er vel menntað og duglegt. Hér eru öll skilyrði til betra lífs, til þess að skapa trú á framtíðina og lífið. Gefum voninni líf. Gleðilegt sumar!