06.11.1985
Efri deild: 12. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 434 í B-deild Alþingistíðinda. (372)

84. mál, skráning skipa

Samgrh. (Matthías Bjarnason):

Virðulegi forseti. Á síðasta Alþingi flutti ég frv. til laga um breytingu á lögum um skráningu skipa nr. 53 frá 12. maí 1970. Þetta frv. varð þá ekki útrætt og er nú endurflutt, en auk þess var tíminn notaður í sumar til að fara yfir lögin í heild sinni í samráði við siglingamálastjóra. Þessi yfirferð hafði í för með sér að hér eru gerðar tillögur um nokkrar veigaminni breytingar og lagfæringar á þessum lögum, eins og kemur fram í athugasemdum við einstakar greinar frv.

Meginbreytingin er eftir sem áður í 1. gr. þar sem lagt er til að heimiluð verði undanþága frá kröfunni um íslenskt eignarhald til að unnt sé að skrá skip hér á landi.

Á undanförnum árum hefur það færst mjög í vöxt að skipastóll skipafélaganna hafi verið endurnýjaður með leigu á skipum, aðallega þurrleigu og kaupleigu, en með þurrleigusamningi er átt við leigu á skipi þar sem leigutaki leigir skip til ákveðins tíma, mannar skipið, greiðir allan rekstrarkostnað og ber ábyrgð á öllu viðhaldi, tryggingum og rekstri skipsins. Skipin eru oftast leigð með kauprétti, en fjárhagsleg skuldbinding leigutaka takmarkast af leigugreiðslu á leigutímabilinu.

Skv. 1. gr. gildandi laga um skráningu skipa er nú óheimilt að skrá skip hér á landi nema það sé í eigu íslenskra aðila eða íslensks fyrirtækis þar sem a.m.k. 3/5 hlutafjár séu í eigu íslenskra aðila. Í samræmi við þetta er skip í eigu erlendra aðila, en í leigu íslenskra aðila þess vegna skráð erlendis, en slíkri skráningu erlendis fylgir umtalsverður kostnaður auk annars óhagræðis sem af henni stafar. Íslensk skrásetning skipa í eigu erlendra aðila, en sem rekin eru af íslenskum aðilum, hefur m.a. eftirtalda kosti:

1. Aðrar reglur gilda erlendis um skráningu skipa og getur óhagræði af því hlotist, eins og ég áður sagði.

2. Gera má ráð fyrir auknum atvinnumöguleikum íslenskra sjómanna.

3. Endurnýjun skipastóls verður auðveldari.

4. Minni kostnaður.

Með því að takmarka íslenska skráningu erlendra skipa við undanþágur sem ráðherra veitir og með þeim skilyrðum sem hér er lagt til ættu hagsmunir Íslendinga að vera tryggðir gagnvart þeim erlendu aðilum sem hugsanlega vildu hefja hér kaupskipaúfgerð, en rétt er að vekja sérstaka athygli á því að þessi brtt. nær einungis til kaupskipa en ekki fiskiskipa.

Ég vil taka það fram hér að við samningu þessa frv. var höfð hliðsjón af ákvæðum loftferðalaga og skráningu lofttara. Skv. þeim er unnt að skrá hér á landi flugvélar, sem ekki eru í eigu íslensks aðila, með sérstöku leyfi samgrh.

Eins og ég sagði í upphafi máls míns eru aðrar breytingar á lögunum um skráningu skipa, sem lagðar eru til í þessu frv., minni háttar og fyrir þeim er gerð fullnægjandi grein í athugasemdum við einstakar greinar þess.

Virðulegi forseti. Ég legg til að að lokinni þessari umræðu verði frv. vísað til 2. umr. og hv. samgn.