17.04.1986
Sameinað þing: 77. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 4055 í B-deild Alþingistíðinda. (3725)

Almennar stjórnmálaumræður

Fjmrh. (Þorsteinn Pálsson):

Herra forseti. Íslendingar. Núverandi ríkisstjórn var mynduð til þess að breyta og taka þátt í breytingum með fólkinu í landinu og það hafa sannarlega orðið umskipti í íslensku þjóðfélagi. Við búum við aðrar og betri aðstæður en áður var. Þeim árangri hefur að vísu ekki verið náð þrautalaust en því verður ekki á móti mælt að núv. ríkisstj. tók við efnahagslegri ringulreið á vormánuðum 1983. Verðbólga hafði þá á undangengnum misserum farið stöðugt vaxandi og var orðin 130% og stefndi hærra. Verðbótaskerðing á laun var viðvarandi og hafði verið framkvæmd 14 sinnum í tíð þeirrar ríkisstjórnar sem þá skildi við. Misgengi á milli launa og lánskjara fór stöðugt vaxandi. Hagvöxtur var um það bil að stöðvast og engir tilburðir voru til þess að auka framleiðslu og verðmætasköpun í þjóðfélaginu og alvarlegur og víðtækur atvinnubrestur blasti við. Gengi íslensku krónunnar féll á hverjum einasta degi. Peningalegur sparnaður minnkaði og erlendar skuldir jukust þannig að stórhætta var á ferðum.

Allt þetta er nú liðin tíð. Fólkið í landinu vildi festu og öryggi í stjórnarháttum, það vildi breytingar. Það var tilbúið til þess að færa tímabundnar fórnir til þess að ná árangri. Staðreyndirnar tala nú skýrustu máli um að það var til mikils að vinna.

En í hverju eru þá umskiptin fólgin?

Í fyrsta lagi er á það að líta að við eygjum nú í fyrsta skipti möguleika á því að verðbólga geti komist á svipað stig og í nágranna- og viðskiptalöndum. Við höfum upplifað nú á þessu ári að framfærsluvísitala hefur beinlínis lækkað og lánskjaravísitalan hefur að auki lækkað. Það voru mikil tíðindi sem lengi hafði verið beðið eftir. Þrátt fyrir tímabundið áfall eftir verðbólgusamningana haustið 1984 er nú ljóst að með markvissum efnahagslegum aðgerðum og víðtækri samstöðu verkalýðshreyfingar, atvinnurekenda og stjórnvalda höfum við sannað fyrir okkur sjálfum, Íslendingar, og öðrum þjóðum að við getum náð verðbólgunni niður og gert okkur vonir um að búa við efnahagslegt jafnvægi rétt eins og aðrar þjóðir.

Aðilar vinnumarkaðarins geta eftir að þessum árangri er náð gert kjarasamninga sem miða að því að viðhalda og auka kaupmátt án verðbólguskrúfu gamla vísitölukerfisins í samræmi við meiri framleiðslu og aukna verðmætasköpun. Hér hafa mest umskipti orðið.

Auðvitað setjum við markið hærra, stefnum á betri lífskjör, en hér gildir að missa ekki fótanna loksins þegar fast land er undir fótum. Bætt lífskjör verða nú að fylgja þeim auknu verðmætum sem við sköpum sjálf með vinnu okkar og þeim ávöxtum sem fjármagnið gefur af sér.

Lítum svo til þess sem var meðan Alþb. lék höfuðhlutverkið í fyrri ríkisstjórn. Þá var kaup hækkað í kjarasamningum en það var jafnharðan skert 14 sinnum með lögbundnum kjaraskerðingum. Samtals lækkaði sú lánlausa ríkisstjórn kaupmátt kauptaxta um 20% á 10 síðustu mánuðum sínum sem hún sat við völd. Á sama tíma og hún skerti kaupmáttinn þannig æddi verðbólgan upp í 130%. Þeir náðu ekki einu sinni, þeir góðu herrar, verðbólgunni niður með þessari kjaraskerðingu. Á fimm ára ferli í ríkisstjórn reyndi Alþb. árangurslaust að ná samstöðu milli stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins en verkalýðshreyfingin treysti þeim ekki. Hvernig ætla svo talsmenn Alþb. að telja fólkinu í landinu trú um að þeir mundu stjórna á annan veg nú en þeir gerðu fyrir þremur árum? Hvers vegna voru þau meðul sem þeir nú þykjast ráða yfir ekki notuð meðan þeir sjálfir sátu í ráðherrastólum?

Nú hefur það hins vegar gerst að kauptaxtar munu hækka um 13-14% á þessu ári en áætlað er að hækkun framfærsluvísitölu verði innan við 10% . Kaupmátturinn er þannig að aukast. Tekjur fólksins munu jafnvel hækka meira vegna þess að gróska er í atvinnulífinu, ný störf eru að verða til, framleiðni er að aukast og verðmætasköpunin að vaxa. Kaupmáttur lífeyrisþega er 7% hærri en þegar Svavar Gestsson gekk út úr heilbr.og trmrn. á vordögum 1983. Kaupmáttur lífeyrisþega er 7% hærri en þegar þessi talsmaður og forustumaður Alþb. yfirgaf stjórnarráðið fyrir þremur árum.

Fólkið í landinu vill kjarabætur sem endast. Það hefur hafnað stefnu gömlu flokkseigendadeildarinnar í Alþb. sem felst í því að lifa hátt og lifa um efni fram um stuttan tíma en fá svo stórfellda kjaraskerðingu á eftir. Hafi Alþb. verið treyst til ábyrgðar í ríkisstjórn hefur það ávallt hlaupist frá vandanum þegar í slíkt óefni hefur verið komið.

Í þriðja lagi ber að hafa það í huga að í tíð fyrri stjórnar hækkaði lánskjaravísitalan um rúm 17% umfram það sem launavísitalan hækkaði. Á þessu sviði hafa orðið algjör umskipti. Um síðustu mánaðamót stóð svo á að lánskjaravísitalan og launavísitalan höfðu hækkað nokkurn veginn jafnt frá upphafi starfstíma þessarar ríkisstjórnar. Þetta eru umskipti í þágu launafólksins, ekki síst unga fólksins sem á það verk fyrir höndum að koma sér þaki yfir höfuðið.

Í fjórða lagi getum við horft fram á veginn með nokkurri bjartsýni. Með breyttri efnahagsstefnu og bættum ytri skilyrðum þjóðarbúsins er framleiðslan að aukast og þjóðartekjurnar að vaxa og hallinn á viðskiptum við aðrar þjóðir, sem við höfum haft miklar áhyggjur af á undanförnum árum, verður minni en áður var ætlað eða um 2,3% af framleiðslunni. En á hinn bóginn er ætlað að launþegar beri meira úr býtum. Þó að kaupmáttur útflutningstekna aukist um 2% gerum við ráð fyrir því að kaupmáttur atvinnutekna aukist um 4%. Við höfum með öðrum orðum notað efnahagsbatann til þess að bæta lífskjörin, til þess að lækka verðbólguna og til þess að minnka viðskiptahallann við útlönd.

Í fimmta lagi hefur það gerst að peningalegur sparnaður er að vaxa. Það eru einhver mikilsverðustu umskiptin sem átt hafa sér stað því að engin þjóð vinnur sig út úr erfiðleikum öðruvísi en að spara.

Á félagsmálasviðinu hafa einnig orðið umskipti. Ég ætla að nefna eitt atriði. Jafnt og þétt hefur verið unnið að því að byggja upp traust og öflugt húsnæðislánakerfi. Framlög ríkisins til Byggingarsjóðs hafa verið stóraukin. Í tíð Svavars Gestssonar sem félmrh. námu fjárveitingar til Byggingarsjóðs aðeins 17% af heildarlánveitingum en eru nú komnar í u.þ.b. 60%. Þegar Svavar Gestsson var félmrh. voru engar tilraunir gerðar til að koma til móts við það fólk er varð svo hart úti sem raun ber vitni vegna misgengis launa og lánskjara. Í tíð núverandi ríkisstj. hafa hins vegar verið gerðar margháttaðar ráðstafanir bæði með skuldbreytingu og samþykkt sérstakra laga um greiðslujöfnun en nauðsynlegt var að hafa þau lög afturvirk til þess að rétta því fólki hjálparhönd sem hafði orðið fyrir barðinu á efnahagsog félagsmálastefnu fyrri ríkisstjórnar.

Eigi að síður glímir það fólk enn við mikinn vanda. Og nú hefur tekist víðtækt samkomulag við aðila vinnumarkaðarins um enn frekari uppbyggingu húsnæðislánakerfisins. Það hefur alla tíð verið ljóst að endanlegum markmiðum í þeim efnum yrði ekki náð nema með samvinnu opinbera húsnæðislánakerfisins og lífeyrissjóðanna í landinu. Um þetta atriði náðu aðilar vinnumarkaðarins samkomulagi í síðustu kjarasamningum og ríkisstj. hefur þegar lagt fram frv. til þess að koma fram þeim breytingum sem samstaða varð um milli hennar og aðila vinnumarkaðarins á dögunum. Þetta er aðeins eitt dæmi af mörgum þar sem mjög myndarlega hefur verið tekið á hinum félagslegu verkefnum, samhliða því sem unnið hefur verið að því að uppræta efnahagslegar meinsemdir í þjóðfélaginu og skapa skilyrði fyrir uppbyggingu og velferð.

Veruleg umskipti hafa einnig orðið í skattamálum. Í tíð núverandi ríkisstj. hafa beinir skattar verið lækkaðir um 1,4 milljarða króna sem er u.þ.b. helmingurinn af nettótekjuskatti einstaklinga. Skattbyrði einstaklinga til ríkisins vegna beinna skatta hefur lækkað um því sem næst fjórðung frá árinu 1982. Ýmsir óbeinir skattar og tollar hafa stórlækkað, launaskattur verið afnuminn í fiskvinnslu og iðnaði, verðjöfnunargjald á raforku afnumið. Samtals hafa skatttekjur ríkissjóðs verið minnkaðar um rúmlega 3200 millj. kr. á tíma þessarar ríkisstj.

Fram hjá því verður hins vegar ekki litið að þessar umfangsmiklu skattalækkanir og aukin framlög t.a.m. til húsnæðismála hafa valdið hallarekstri á ríkissjóði. Það verður mikið verkefni á næsta ári að brúa það bil. Þessi ríkisstj. hefur talið rétt að auka sértekjur ríkisins á ýmsum sviðum með það í huga að þeir sem njóta þjónustu eigi að standa undir kostnaði við hana eða hluta hennar. Þeir sem ekki eiga bíl eiga t.d. ekki að greiða kostnað við bifreiðaeftirlit. Þeir sem lítið ferðast til útlanda eiga ekki að greiða sama skerf í afborgunum af lánum af nýrri flugstöð og hinir sem mikið ferðast til útlanda.

Herra forseti. Á bak við þau umskipti sem hafa orðið í íslenskri pólitík er stefna í efnahagsmálum. Við sjálfstæðismenn viljum halda áfram að byggja upp á þessum grunni sem nú hefur verið lagður. Við höfum stigið fyrsta skref til betri framtíðar og vitum og finnum að við eigum samleið með fólkinu í landinu á þeirri vegferð.