17.04.1986
Sameinað þing: 77. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 4058 í B-deild Alþingistíðinda. (3726)

Almennar stjórnmálaumræður

Stefán Benediktsson:

Herra forseti. Góðir landsmenn, þeir sem enn eru að hlusta.

Ég vil byrja mál mitt á að harma það að fólkið í landinu fær aldrei að heyra í fulltrúum sínum á þingi með öðrum hætti en þessum. Tvisvar til þrisvar á ári fær fólk þetta leikhús yfir sig. Menn koma hér í ræðustól og þenja sig framan í hljóðnema og auðan sal. Þessir atburðir eru leikhús vegna þess að þeir eru ekki veruleiki þingstarfa.

Hvers vegna má almenningur ekki fylgjast með raunverulegum þingfundum? Hvers vegna má almenningur ekki fylgjast með þingmönnum þegar þeir verja málstað sinn í umræðum hér á þingi? Við hvað eru menn hræddir? Svo hræddir að það má ekki hafa sérstaka útvarpsrás opna á þingfundartíma sem menn geta hlustað á sem vilja. Í staðinn er skynsemi fólks misboðið með því að hlusta á þessar uppákomur, þegar fulltrúar stjórnar og stjórnarandstöðu tala hér hvor fram hjá öðrum. Stjórnarfulltrúar guma og gorta af afrekum sínum, skamma fyrri ríkisstjórnir og slappa stjórnarandstöðu en stjórnarandstaðan formælir ríkisstjórninni og skammar hana fyrir getuleysi og segist geta allt betur.

Það sem er að þessum umræðum er að þær eru náttúrulausar. Þær eru náttúrulausar vegna þess að menn skiptast hér ekki á skoðunum, vega og meta skoðanir hvers annars, heldur gefa hástemmdar yfirlýsingar í þeirri von að einhver sé að hlusta á þá. Ég held ekki að það sé rétt að sýna fólki aldrei annað en þessa náttúrulausu mynd af Alþingi.

Þingmenn eru að fara í 24 vikna sumarleyfi eða rúmlega fimm mánuði. Auðvitað munu þeir ekki sitja auðum höndum en fólk veit að á meðan verða ekki sett nein lög, hvorki góð né vond, og fólki svíður. Því svíður þegar það horfir í launaumslagið sitt því það veit að hluti af þeim peningum sem vantar í launaumslagið fer í að borga þingmönnum laun. Laun fyrir að sitja eða sitja ekki á þingi, laun fyrir að sitja í stjórnum banka eða fyrirtækja og laun fyrir að sitja í alls kyns nefndum og ráðum sem ekki eru í neinum tengslum við þess daglega líf.

Hvað sögðu þeir í bankaráði Útvegsbankans? Bankaráðið, það gerir ekkert, það ræður engu. Og fyrir það þiggja þeir laun samt.

Hvers vegna svíður fólki þessi vitneskja? Jú, vegna þess að það veit að þessir þm. bera ábyrgð á afkomu þess. Það eru þm. sem bera ábyrgð á því að krónurnar í launaumslaginu hrökkva svona skammt. Og fólkið veit að þm. hafa ekki sett nein lög á þessu þingi frekar en öðrum sem stuðla að því að laun þess nægi fyrir mannsæmandi lífi. Samt vill fólk hafa mannsæmandi laun og fólk vill að þm. setji þannig lög að það geti haft mannsæmandi laun. Fólkið veit að við erum sjötta tekjuhæsta þjóð veraldar. Fólk veit að verðmæti framleiðslu hvers Íslendings er hærra en hjá Dana, Finna eða Svía og samt sem áður eru launin lægri og verðlag neysluvarnings þrisvar sinnum hærra. Fólk veit að þm. geta breytt þessu. Þm. geta sett lög sem tryggja réttláta skattheimtu og koma í veg fyrir skattsvik. Fólk veit að þm. þurfa ekki að setja lög um offjárfestingar í virkjunum og verksmiðjum og byggingum sem eru baggi á þjóðinni. Fólkið veit að þm. geta sett lög sem koma í veg fyrir sjálfvirkt arðrán fyrirtækja eins og SÍS, Mjólkursamsölunnar og Seðlabankans. Fólk veit að við þurfum ekki 700 milljóna Seðlabankahús. Fólkið veit þetta og fólkið vill annað.

Hvers konar lýðræði er það þegar þm. gera ekki það sem fólkið vill heldur eitthvað allt annað? Er það lýðræði þegar þjóðkjörnir fulltrúar fara ekki að vilja kjósenda sinna? Hvers konar stjórnkerfi búum við við að kjörnir fulltrúar skuli komast upp með það ár eftir ár að fara ekki að vilja meiri hluta kjósenda?

Þingmenn geta hundsað vilja meiri hluta kjósenda í stjórnkerfi þar sem mannréttindi eru vanvirt með því að menn hafa ekki allir sama atkvæðisrétt. Stjórnvöld geta hundsað vilja kjósenda þegar þau eru ekki kosin af þjóðinni heldur af fámennum hópi flokkseigenda. Stjórnvöld geta hundsað vilja fólks þegar öllu athafnalífi er stjórnað af fámennum hópi ráðherra og flokkseigenda. Fólki eru allar bjargir bannaðar þegar verkalýðsforustan síðan sest í hóp þessara manna og semur um kjör launþega með lögum eins og gerðist í síðustu samningum.

Góðir landsmenn. Gömlu flokkarnir munu ekki setja lög um jafnan kosningarrétt því að það eykur völd kjósenda og dregur úr valdi flokkanna. Gömlu flokkarnir munu ekki setja lög um að forsrh. verði kjörinn beint því það eykur völd kjósenda og dregur úr valdi flokkanna. Gömlu flokkarnir munu ekki setja lög um að skera niður miðstýringu ríkisvaldsins og flytja framkvæmdavald út til landshlutanna því að það dregur úr tökum flokkanna á miðstýringunni. Gömlu flokkarnir munu ekki setja lög sem heimila fólki að semja beint við fyrirtæki sín á vinnustað því að það drægi úr pólitísku valdi þeirra á verkalýðshreyfingunni. Gömlu flokkarnir munu heldur aldrei þora að leyfa ykkur, góðir áheyrendur, að fylgjast með venjulegum störfum hér á Alþingi, hvorki í útvarpi né sjónvarpi, því þá yrðu þeir að svara kjósendum fyrir gerðir sínar í hverju máli og því þora þeir ekki.

Hvers vegna þora þeir því ekki? Jú, vegna þess að þá sæju kjósendur hvað þm. gömlu flokkanna eru ófrjálsir og rígbundnir í hagsmunavörslu fyrir flokkseigendurna. Hvers vegna heldur fólk að þm. hafi samþykkt lögin um kjarasamningana? Haldið þið að þeir hafi ekki gert sér grein fyrir því að þeir voru að dæma hóp fólks til að lifa á launum sem nægja ekki til framfærslu eða að dæma fólk til að vinna tvöfaldan vinnudag? Haldið þið að þeir hafi ekki vitað að einhleyp stúlka með eitt barn sem borgar 15 þús. kr. í húsaleigu og hita lifir ekki á þeim 7 þús. kr. á mánuði sem hún á eftir? Það eru 233 kr. á dag. Og þó hún fái hækkað meðlag og barnabætur hefur hún aldrei meira en 450 kr. á dag að moða úr. Haldið þið ekki að þeir hafi vitað þetta? Það skal reyndar sagt þessum þm. til afsökunar að það stendur ekki í dönsku stjórnarskránni okkar að allir skuli jafnir fyrir lögum af því að hún var samin af kóngi á síðustu öld.

Góðir landsmenn. Stjórnarskrá okkar var samin á síðustu öld. Gömlu stjórnmálaflokkarnir okkar eru stofnaðir í byrjun þessarar aldar. Stjórnkerfi okkar varð til í lok fyrri heimsstyrjaldar. Vinnulöggjöf okkar varð til í kreppunni fyrir síðari heimsstyrjöld. Það eru 14 ár þangað til 21. öldin byrjar.

Ég tel að þeir stjórnmálamenn sem halda að þessi tæki dugi til þess að stjórna á næstu öld eigi ekki rétt á að sitja á þessu þingi. Ég tel að stjórnarskrá sem samin var af fulltrúa lénsskipulags á síðustu öld sé ekki heppilegt stjórntæki á 21. öldinni. Ég tel að stjórnkerfi sem mótaðist af miðstýringarþörf við frumstæðar aðstæður fyrri heimsstyrjaldar sé ekki heppilegt stjórntæki á 21. öldinni. Ég tel að flokkakerfi hægri og vinstri sem varð til á uppgangstímum marxismans eftir fyrri heimsstyrjöld sé ekki flokkakerfi 21. aldarinnar. Ég tel líka að vinnulöggjöf kreppuáranna þurfi að breyta til að hún dugi næstu öld.

Ég veit að þessum hlutum verður ekki breytt með starfi innan gömlu flokkanna. Þess vegna berst Bandalag jafnaðarmanna gegn flokkakerfinu og fyrir þeim breytingum sem verður að gera til þess að Íslendingar geti notið þeirra verðmæta sem þeir skapa.

Góðir landsmenn. Ég hef lokið máli mínu.