18.04.1986
Efri deild: 79. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 4068 í B-deild Alþingistíðinda. (3730)

202. mál, verðbréfamiðlun

Frsm. (Eyjólfur Konráð Jónsson):

Hæstv. forseti. Mál þetta er komið til okkar aftur frá Nd. sem gerði á því mjög smávægilega breytingu. Maður gat eins búist við því, eins og ég sagði í framsögu fyrir nál. fyrir nokkrum dögum, að kannske yrðu víðtækari breytingar gerðar í hv. Nd., en svo hefur ekki orðið. Þar er aðeins um eina lítilfjörlega breytingu að ræða sem nefndin í þessari hv. deild er sammála. Það er við 4. gr. þar sem talað er um leyfi til þeirrar starfsemi sem um er fjallað. Upp eru talin skilyrði og í d-lið sagði í frv. eins og það fór frá Ed.: „Hefur lokið viðurkenndu prófi í hagfræði, lögfræði eða viðskiptafræði.“ Nú hefur löggiltum endurskoðendum verið bætt við og liðurinn hljóðar þá svo: Hefur lokið viðurkenndu prófi í hagfræði, lögfræði, viðskiptafræði eða er löggiltur endurskoðandi.

Við mælum með að frv. verði samþykkt endanlega með þeirri breytingu sem gerð var í Nd.