18.04.1986
Efri deild: 79. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 4069 í B-deild Alþingistíðinda. (3734)

232. mál, talnagetraunir

Frsm. minni hl. (Eiður Guðnason):

Virðulegi forseti. Þetta mál hefur átt sér töluverðan aðdraganda og umræður í þessari hv. deild. Ég hef við þessa umræðu flutt á sérstöku þskj. nokkrar brtt. við frv. Það er sömuleiðis ástæða til við þessa umræðu að víkja svolítið að frv. til l. um breyt. á l. um Happdrætti Háskóla Íslands, sem hér er einnig til meðferðar í þessari deild, vegna þess að svo mjög tengjast þessi mál saman.

Ég gerði grein fyrir því við 2. umr. málsins að um þetta væri mikill ágreiningur. Minni hl. hafði margar athugasemdir við þetta að gera. Þetta mál er rekið áfram í gegnum Alþingi af einhverjum annarlegum krafti og satt best að segja er erfitt að skilja þann ofurþunga sem ákveðnir aðilar innan þingsins leggja á samþykkt þessa máls. Á því hafa ekki komið fram neinar eðlilegar skýringar.

Í nál. tókum við mjög skilmerkilega fram að við, sem skipum minni hl., þ.e. auk mín hv. 8. þm. Reykv. Stefán Benediktsson og hv. 11. þm. Reykv. Sigríður Dúna Kristmundsdóttir teldum fullkomlega óeðlilegt að veita með þessum hætti ákveðnum félagasamtökum þetta leyfi allar götur til ársins 2005. Einkum væri þetta óeðlilegt vegna þess að ríkisvaldið væri hér að taka ein samtök öryrkja fram yfir önnur. Ég held að það sé alveg nauðsynlegt að þær mótbárur og þau rök sem ég tel að fyrir liggi í þessu máli komi mjög skýrt fram í Alþingistíðindum þegar þetta mál verður seinna skoðað. Af því tilefni vil ég, með leyfi forseta, lesa blað frá samtökunum Þroskahjálp sem lagt var fram í nefndinni. Ég tel nauðsynlegt og óhjákvæmilegt, þegar fjallað er um þessar svokölluðu talnagetraunir, að afstaða Þroskahjálpar liggi fyrir í þingtíðindum. Þar segir, með leyfi forseta:

„Minnisatriði vegna frv. til laga um talnagetraunir: Í landinu eru tvenn landssamtök sem vinna að hagsmunamálum fatlaðra, landssamtökin Þroskahjálp og Öryrkjabandalag Íslands. Hvorugt er aðili að hinu. Þessi samtök eru á ýmsan hátt ólík hvað varðar aðildarfélög, gerð og starfsemi. Öryrkjabandalag Íslands var stofnað 1961. Aðildarfélög þess eru nú 14 og það m.a. félög fatlaðra sjálfra en einnig styrktarfélög sem vinna í þágu þeirra.

Landssamtökin Þroskahjálp voru stofnuð 1976. Aðildarfélögin eru nú 26 um land allt og félagar þeirra um 6000 talsins. Fyrst og fremst er þar um að ræða foreldra og styrktarfélög vangefinna og annarra sem fatlaðir eru en einnig nokkur fagfélög fólks sem hefur sérhæft sig í kennslu og þjálfun fatlaðra.

Nú liggur fyrir Alþingi frv. sem felur í sér að lögfestur verði einkaréttur Öryrkjabandalags Íslands til að afla fjár til starfsemi sinnar með rekstri talnagetrauna í samvinnu við Íþróttasamband Íslands og Ungmennafélag Íslands. Það er fagnaðarefni ef tekst að afla aukins fjár til uppbyggingar íbúðarhúsnæðis fyrir fatlaða því þar kreppir skórinn hvar mest í málefnum þeirra.

Í ljósi þess að verið er að lögvernda einkarétt á fjáröflunarleið til ákveðins málaflokks vill Þroskahjálp hins vegar leggja á það ríka áherslu að því fjármagni sem þannig verður aflað í nafni fatlaðra verði varið í þágu allra fatlaðra, ekki einungis hluta þeirra, þ.e. þeirra sem eiga aðgang að húsnæði Öryrkjabandalags Íslands.

Eðlileg viðmiðun í þessu sambandi eru lög um málefni fatlaðra nr. 41 frá 1983, sem sett voru til að tryggja rétt allra fatlaðra og samræma heildarstjórn á málefnum þeirra, bæði hvað varðar framkvæmdir og rekstur. Því hlýtur það að vera skýlaus krafa Þroskahjálpar að tryggt sé í væntanlegum lögum og reglugerð um talnagetraunir að því fjármagni, sem þannig verður aflað, verði varið í samræmi við markmið laganna og þar sitji allir fatlaðir við sama borð.

Ekki skulu settar hér fram ákveðnar tillögur um hvernig málum skuli háttað, hvað varðar þann hluta af ágóða af væntanlegum getraunum sem áformað er að varið skuli í þágu fatlaðra, en nefna má tvo valkosti.

1. Ágóðinn renni í sérstakan sjóð sem ætlað sé að standa straum af stofnkostnaði við íbúðarhúsnæði fyrir fatlaða. Í stjórn sjóðsins eigi sæti fulltrúar frá hagsmunasamtökum fatlaðra og opinberum aðilum.

2. Ágóðinn renni í Framkvæmdasjóð fatlaðra sem stofnaður var skv. 31. gr. laga nr. 41/1983, um málefni fatlaðra, og það hlutverk að fjármagna framkvæmdir í þágu þeirra. Sem kunnugt er fer stjórnarnefnd um málefni fatlaðra með stjórn sjóðsins en í henni eiga sæti aðilar frá þremur ráðuneytum sem málefni fatlaðra heyra undir, Sambandi ísl. sveitarfélaga og hagsmunasamtökum fatlaðra, Landssamtökunum Þroskahjálp og Öryrkjabandalagi Íslands.“

Hér lýkur þessum lestri úr bréfi Þorskahjálpar þannig að þm. öllum megi það ljóst vera að þeir eru að gera upp á milli þessara tveggja öryrkjasamtaka varðandi þá fjáröflun sem hér um ræðir. Ég á eftir að sjá það að menn samþykki það. Þeir gera það kannske orðalaust en varla verður það kinnroðalaust ef grannt er skoðað. Ég vil biðja menn um að hugleiða þetta og hafa til hliðsjónar þegar þeir greiða hér atkvæði á eftir.

Ég hef á þskj. 837 leyft mér að flytja þrjár brtt. við þetta frv. til l. um talnagetraunir ásamt hv. þm. Stefáni Benediktssyni og Sigríði Dúnu Kristmundsdóttur.

1. brtt. er sú að heimildin, sem veitt yrði til ársins 2005, gildi ekki í svo langan tíma heldur einungis fram til ársloka 1992 sem er þó mjög hæfilegur tími þannig að ráðrúm gefist til að endurskoða þetta allt að þeim árum liðnum fram til 1992. Þessi brtt. skýrir sig sjálf.

Í öðru lagi flyt ég þá brtt. að á eftir 1. mgr. 2. gr. þessa frv. komi ný mgr. sem orðist svo með leyfi forseta: „Reikningar félagsins skulu endurskoðaðir af ríkisendurskoðuninni.“ Þetta ákvæði er í lögum um getraunir sem knattspyrnugetraunirnar, sem íþróttahreyfingin starfrækir, starfar eftir. Það eru hins vegar engin ákvæði um endurskoðun í þessu frv. til l. um talnagetraunir sem alþm. er ætlað að afgreiða hér, engin ákvæði.

Síðan er þriðja brtt. mín, þ.e. að 4. gr. orðist svo: „Helmingi af söluverði miða skal varið til vinninga. Vinningar getrauna eru undanþegnir hvers konar opinberum gjöldum öðrum en eignarskatti á því ári sem þeir falla til útborgunar.“

Þarna eru tvær breytingar, þ.e. að helmingi af söluverði miða skuli varið til vinninga. Það eru engin ákvæði um það í þessu frv. Þessi breyting á að tryggja það að helmingi af söluverði miðanna skuli varið til vinninga. Um það eru ákvæði í getraunalögum. Um það voru ákvæði í þessu frv. eins og það var samið upphaflega. Einhverra hluta vegna voru þau tekin út og væri fróðlegt að heyra hvað hæstv. dómsmrh. segir um það hvers vegna þetta ákvæði var tekið út úr frv. Sú skýring sem gefin er í grg. eða reynt er að gefa er engan veginn haldbær. Það er ekki skýring á þessu máli að mínu mati.

Í öðru lagi held ég að hljóti að verða að breyta hér í 4. gr. „Vinningar getrauna eru undanþegnir“, eins og það er orðað í frv., „hvers konar opinberum gjöldum öðrum en eignarskatti á því ári sem þeir falla.“ Hvað þýðir þetta orðalag: „á því ári sem þeir falla“? Það getur ekki verið ætlunin að greiddur sé eignarskattur af vinningum fyrr en þeir koma til útborgunar. A.m.k. er það í öðrum happdrættislögum orðað með þeim hætti, ég hygg öllum öðrum happdrættislögum, sem ég legg til í brtt. minni hinni þriðju, að vinningar getrauna séu undanþegnir hvers konar opinberum gjöldum öðrum en eignarskatti á því ári sem þeir falla til útborgunar. Auðvitað hlýtur orðalagið í lögunum að verða að vera ótvírætt. Hver á þá að greiða eignarskatt af vinningum sem falla? Vinningar falla þegar vinningar eru dregnir út. Og nú getur það verið eins og gerist stöku sinnum í þessum happdrættum - það er hugsanlegt, sjálfsagt, þó ég þekki ekki þetta fyrirkomulag alveg - að vinningur komi á óseldan miða. Þess munu vera dæmi eftir því sem blöð hafa sagt frá að undanförnu og það er alveg augljóst og skýrt að þessu orðalagi verður að breyta áður en þingið afgreiðir þetta frv. Það gefur alveg auga leið. Þetta er þriðja brtt. En ef svo ólíklega skyldi fara að þessar brtt. mínar yrðu allar felldar í þessari hv. deild hef ég leyft mér að flytja skriflega brtt. sem ég vil biðja forsefa að bera upp. Að þessum till. mínum hugsanlega föllnum komi svofellt ákvæði til bráðabirgða, með leyfi forseta:

„Þrátt fyrir ákvæði 1. gr. skal dómsmrh. láta fara fram endurskoðun laganna er talnagetraunir hafa starfað í fjögur ár. Ef sú endurskoðun leiðir til þess að leyfistími verði styttur og/eða fleiri aðilum veitt aðild að talnagetraunum skulu rekstraraðilar sæta því bótalaust.“ Ég óska sem sagt eftir að þessi skriflega tillaga verði borin upp að hinum tillögunum föllnum vegna þess að efnislega getur hún ekki komið til atkvæða fyrr en afstaða hefur verið tekin til þeirra tillagna.

Ég þykist hafa með þessu bréfi frá Þroskahjálp leitt rök að því hvernig Alþingi ætlar að mismuna samtökum fatlaðra með ótvíræðum hætti, og afar óviðurkvæmilegum hætti leyfi ég mér að segja, í þessu máli um talnagetraunir. Ég tel að kannske megi leiða nokkur rök að því að menn hafi verið blekktir til fylgis við þetta frv. Það hafi ekki allar staðreyndir málsins legið fyrir. Auk þess bendi ég á að frv., eins og það liggur fyrir, er mjög gallað, meingallað, og alls ekki í samræmi við önnur lög í lagasafni okkar um happdrætti. Það er misræmi þar á milli að því er varðar ýmis atriði og skal ég í örstuttu máli víkja að nokkrum þeirra. Það eru t.d. lög um Happdrætti dvalarheimilis aldraðra sjómanna. Kannske fáum við hv. þm. áður en langt um líður, þó líklega ekki á þessu þingi, að sjá lög um það happdrætti þar sem óskað verður eftir svona einhverri svipaðri heimild og á að fara að veita Happdrætti Háskólans. Það er t.d. í lögum um Happdrætti Háskólans að þar skal vinningsfjárhæð nema a.m.k. 70% af iðgjöldum samanlögðum. Og í lögum um vöruhappdrætti fyrir Samband ísl. berklasjúklinga segir: „Vinningar skulu vera að verðmæti samtals a.m.k. 50% af iðgjöldum samantöldum í öllum 12 flokkum.“ Í lögum um getraunir segir: „Helmingi af heildarsöluverði raða eða miða skal varið til vinninga.“ Og þar segir líka: „Vinningar getrauna eru undanþegnir hvers konar opinberum gjöldum öðrum en eignarskatti á því ári sem þeir falla til útborgunar“, nákvæmlega eins og ég hef lagt til í minni brtt. hinni þriðju.

Ég held að hér sé á ferðinni mál sem þarf að athuga langtum betur en gert hefur verið og þykist hafa fært að því rök. Það má líka minna á í þessu sambandi að á borðum okkar er frv. sem hefur verið afgreitt úr nefnd núna, frv. til l. um breytingu á lögum um Happdrætti Háskóla Íslands og ég tel nauðsynlegt að það komi fram við þessa umræðu, því að svo mjög tengjast þessi mál, að ég skrifaði undir nál. í því máli með fyrirvara. Sá fyrirvari er einfaldlega fólginn í því að ég tel að það mál sé mjög illa undirbúið, þessi heimildargrein um það mál sé skrifuð í flýti. Hún er skrifuð til þess að koma þessu máli fram meðan er verið að afgreiða þessar svokölluðu talnagetraunir sem er verið að þröngva í gegnum þingið núna. Ég hef miklar efasemdir um að það sé rétt að samþykkja þetta jafnopið og laust og það er í þessu stjfrv. En hins vegar ef ekki verður fallist á neinar af þeim brtt. mínum til eftirlits og aukins aðhalds um þessar talnagetraunir er auðvitað eins gott að sleppa þessu bara öllu lausu og vera ekkert að myndast við að hafa neitt eftirlit eða neina löggjöf um þetta vegna þess að það þjónar greinilega engum tilgangi ef svona á að vinna. Ég lýsi furðu minni á þessum einkennilegu vinnubrögðum. Menn eru minnugir þess hvernig einn þm. utan flokka, hv. þm. Ellert B. Schram, stöðvaði þetta mál hér á Alþingi í fyrra með vinnubrögðum sem ég tel ekki vera til fyrirmyndar. Honum er málið auðvitað skylt þar sem hann gegnir miklum trúnaðarstörfum í íþróttahreyfingunni. Hann tók sér það vald að stöðva þetta mál í fyrra og atvik æxluðust þannig að hann gat gert það og málið var stöðvað.

Ég hefði hins vegar talið skynsamlegast að þetta mál yrði kallað til baka og það yrði reynt að finna á þessu skynsamlega lausn í stað þess að þröngva þessu í gegn. Fjölmargir þm. í báðum deildum hafa viðurkennt það, svona í einkasamtölum og án þess að farið sé nokkuð lengra út í það, að eðlilegt væri að kanna þetta mál betur en málið sé bara komið svo langt að það sé helst enginn vegur að gera neitt í því og þess vegna ætli menn að afgreiða það. Það er sannarlega illt til afspurnar og ekki til þess fallið að auka virðingu Alþingis í hugum borgaranna þegar svo er staðið að verkum sem hér er gert, að mál eru afgreidd sem mönnum er ljóst að eru meingölluð og eru í eðli sínu ranglát gagnvart hópi þeirra sem ætlað er að hjálpa, eins og ég þegar hef vikið að varðandi samtökin Þroskahjálp og afstöðu þessara aðila til þeirra. Það kom fram að Þroskahjálp hafði óskað eftir því við Öryrkjabandalagið að fá að fylgjast með þessu máli. Þeirri ósk Þroskahjálpar hafði ekki verið sinnt. Það kom fram við athugun þessa máls í nefndinni og frá því var skýrt hér við 2. umr.

Engu að síður eru ákveðnir aðilar innan þingsins sem reka þetta mál af slíku ofurkappi að það má ekki doka við og freista þess að láta nú skynsemina ráða í þessu máli, freista þess að ná víðtæku samkomulagi um málið, freista þess að skapa frið um þetta mál og freista þess að gera það að verkum að fleiri öryrkjar fái notið góðs af þessari fjáröflunarleið sem ég er sannfærður um að á eftir að verða mjög mikilvirk og á jafnframt að sjálfsögðu eftir að verða á kostnað ýmissa annarra happdrætta í landinu og ýmissar annarrar fjáröflunarstarfsemi líknarfélaga. Ég er alveg sannfærður um það. Ég tel að hér sé verið að fara inn á mjög hættulegar brautir og að Alþingi hafi engan rétt til að mismuna samtökum fatlaðra og öryrkja með þeim hætti sem hér á að gera. Mér hefðu fundist það skynsamleg vinnubrögð að fresta þessu máli nú og taka málið til nýrrar athugunar, leggja það fyrir nýtt þing að hausti og vera þá búin að skapa frið um málið og víðtækari samstöðu. En ég óttast að þeir hv. þm., sem telja sérstaka nauðsyn á því að keyra þetta mál áfram með þeim hætti sem gert er, muni ekki hlusta á þessi rök og það er ákaflega miður fyrir þetta mál.

Það er líka rétt að það komi fram, virðulegi forseti, í þessari umræðu, vegna þess að hæstv. dómsmrh. og ýmsir fleiri hafa mjög vitnað til þess að íþróttahreyfingin hafi þessa heimild til að reka talnagetraunir í lögunum frá 1972 um getraunir, nr. 59 frá 1972, hver er sú skýring sem ég hef frá einum af embættismönnum dómsmrn. á því hvers vegna, þegar íþróttahreyfingin fékk leyfi fyrir hinni hefðbundnu getraunastarfsemi, var sett ákvæðið um talnagetraunir inn í 2. gr. Það var til að tryggja að enginn aðili færi fram með slíkar getraunir í samkeppni við leikjagetraunir íþróttahreyfingarinnar. Það var ekki vegna þess að íþróttahreyfingin ætlaði sér að reka slíkar getraunir eins og hún nú vill gera. Þetta var til þess að tryggja að aðrir færu ekki af stað með þetta. Fyrir þessu hef ég orð embættismanns í dómsmrn. Enn ber allt að sama brunni með þann rétt sem hin ágætu íþróttasamtök telja sig eiga í þessu máli. Hann er hæpinn að ekki sé meira sagt.

Nú þykist ég, virðulegi forseti, hafa gert nokkra grein fyrir þeim rökum sem ég tel hníga að því að við látum þetta mál bíða, að það verði reynt að skapa frið um þetta mál, það verði tryggt að allir öryrkjar, allir fatlaðir á Íslandi fái notið þess hagnaðar sem hér er um að ræða en þeim verði ekki mismunað eins og þetta frv. gerir ráð fyrir. Ég þykist líka hafa leitt rök að því hverjir gallar eru á frv. og hvers vegna væri sjálfsagt nauðsynlegt að nefndin athugaði þessar tillögur mínar við þessa umræðu. Ég þykist hafa leitt að þessu nægilega sterk rök til þess að allir skynsamir menn skilji hvert er verið að fara. Hins vegar þykir mér miður að játa það ef svo reynist að þm. hafa ákveðið að hlusta ekki á rök í þessu máli og greiða atkvæði með hinu gallaða frv. vegna einhverra annarlegra sjónarmiða sem ég fæ ekki skilið enn.

Nú er það svo að ég mun hafa sagt við virðulegan forseta að ég mundi tala í hálfa klukkustund í þessu máli og við það mun ég standa og mun ljúka máli mínu. Það þýðir hins vegar ekki að ég hafi ekki ýmislegt fleira um þetta mál að segja. En það er lagt mikið kapp á að þetta mál fái afgreiðslu hér og því mun ég ekki hafa þessi orð mín öllu fleiri og að sjálfsögðu standa við það sem ég sagði við forseta um að ég mundi ekki tala lengur en í hálfa klukkustund. En ég ítreka þá skoðun mína að síðustu að hér er hið háa Alþingi að mínu mati að gera sig sekt um mistök. Það er að gera sig sekt um vinnubrögð sem eru fyrir neðan virðingu Alþingis. Ég hef freistað þess að fá fram örlitlar lagfæringar á þessu máli með þeim brtt. sem ég hef flutt á þskj. 837 og ég vona svo sannarlega að hv. þm. gefi sér tíma til að gaumgæfa þær við þessa umræðu málsins og íhuga hvort þeir treystast ekki til að greiða þeim atkvæði þannig að það megi sniða af a.m.k. nokkra af þeim mörgu agnúum sem eru á þessu máli. En það breytir auðvitað ekki því að áfram, ef þetta frv. um talnagetraunir verður að lögum, mun Alþingi mismuna öryrkjum og fötluðum á Íslandi með þessari lagasmíð sem, ef samþykkt verður eins og fyrir liggur nú, er okkur til vansa.