06.11.1985
Efri deild: 12. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 437 í B-deild Alþingistíðinda. (375)

108. mál, Jarðboranir hf.

Skúli Alexandersson:

Virðulegi forseti. Frv. þessu var dreift hér síðari hluta dags í gær og ekki hefur unnist mikill tími til að skoða það og gera sér grein fyrir því hvers konar viðskipti eru að eiga sér stað. Ég gerði reyndar ráð fyrir því að þetta frv. mundi koma til þeirrar nefndar sem ég á sæti í, þ.e. iðnn., en svo verður ekki. Þó svo sé ekki verður þetta frv. vitaskuld skoðað vel í nefnd og farið yfir þann þátt sem ég hef hér nefnt, þ.e. þær fjárskuldbindingar og fjármagnstilfærslur sem frv. gerir ráð fyrir.

Frv. þetta er til viðbótar við fyrri frv., sem hér hafa verið til umræðu, um að gera ríkisfyrirtæki að hlutafélögum. Ýmiss konar rök hafa verið færð fyrir þeirri stefnu ríkisstj. að breyta ríkisfyrirtækjum í hlutafélög. Nú koma hér ein rökin enn, þ.e. að æskilegt sé að gera þetta fyrirtæki að hlutafélagi þar sem Reykjavíkurborg gerist hluthafi ásamt ríkinu. Áður hafa rökin verið m.a. þau að nauðsynlegt væri að breyta ríkisfyrirtækjum í hlutafélög til að gefa starfsmönnum tækifæri til að hafa áhrif á reksturinn. Á það er ekki minnst í frv. sem hér er lagt til að starfsmenn eigi neinn sjálfsagðan rétt á að koma þar til stjórnarstarfa eða þátttöku. Það er eins og oftar gripið til breytilegra raka til að réttlæta mál.

Ég lít svo á í fljótu bragði að eðlilegt sé að Reykjavíkurborg hafi aukna stjórnunarmöguleika í sambandi við Jarðboranir ríkisins og að sameining þessara fyrirtækja sé ósköp eðlileg, en fyrir því hvort endilega hefði þurft að stofna hlutafélag í kringum þetta sé ég ekki bein rök. Þarna hefði alveg eins getað verið áframhaldandi sameignarfélag Reykjavíkurborgar og ríkisins eins og er með Gufuborun Reykjavíkurborgar og ríkisins, enda kemur í ljós þegar samningurinn sem fylgir þessu lagafrv. er skoðaður frekar að ekki hefur verið búinn til neinn sérstakur rammi utan um samstarfið eða hlutafélagsuppbygginguna. Það eina sem í samningnum er er um það hvernig stjórnarkjör skuli eiga sér stað. Þar er ekki neitt um hvernig skuli tilnefna fulltrúa á aðalfund, heldur eingöngu um hvernig skuli tilnefna fulltrúa í stjórn. Um það er nokkur klásúla. Þetta sýnir aðeins að hlutafélagsyfirbragðið skiptir þarna óskaplega litlu máli.

Frv. ber einnig með sér að það er ekki frv. dagsins í dag, heldur miklu frekar gærdagsins eða fyrra þings. Ýmsar dagsetningar í frv. eru þannig að þær eru allar aftur fyrir sig. Hið nýja hlutafélag skal taka til starfa 1. júní 1985, ekki einhverja næstu daga eftir að frv. hefur verið samþykkt. Það tel ég að séu alger nýmæli í lagabókstaf eða jafnvel í frv. að ákveðið sé að hlutafélög, sem verið er að samþykkja lög um, skuli taka gildi aftur fyrir sig.

Ég sé ekki ástæðu til að orðlengja frekar um frv., en vildi aðeins benda á þessa sérstöku þætti, þ.e. þá tilhneigingu að gera öll fyrirtæki að hlutafélögum ríkisins og svo það að frv. er að því leyti einkennilega upp byggt að þegar er búið að ákveða hvað gera skal og dagsetningar þar að lútandi flestar liðnar. Einnig vildi ég benda á að í sérstakri bókun, sem gerð er 8. okt., er 4. liður sem hljóðar þannig, með leyfi forseta:

„Starfa skal sérstök samráðsnefnd, skipuð tveimur fulltrúum frá félaginu og tveimur fulltrúum tilnefndum frá Sambandi íslenskra hitaveitna. Verkefni nefndarinnar er að vera vettvangur samráðs milli Jarðborana hf. og hitaveitna í landinu um fjárhagsleg og tæknileg málefni svo og um almenn samskipti við hitaveitur í landinu.“

Ég tel að þetta sé góð tilætlun og hefði miklu frekar átt heima inni í lögunum sjálfum en í sérstakri bókun sem fylgir lagasamþykktinni.