18.04.1986
Efri deild: 79. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 4087 í B-deild Alþingistíðinda. (3750)

396. mál, framleiðsla og sala á búvörum

Landbrh. (Jón Helgason):

Hæstv. forseti. Í mínum huga hefur verið ætlunin að nota þessa heimild til að jafna verð milli innlendrar og erlendrar framleiðslu. Ég vil líka undirstrika að ég tel að það gjald sem komi á eigi að ganga til að greiða innlenda framleiðslu niður í einhverju formi til þess að neytendur njóti þess sem þarna er lagt á þannig að þetta verði ekki að almennum tekjustofni fyrir ríkissjóð. (Gripið fram í.) Ja, það er misjafnt hvað langt fram á sumar uppskera endist. Ekki er hægt að árstíðabinda það. Ég hef ekki alveg nýjar upplýsingar um hvað kartöflur endast núna, en mér er tjáð að það muni verða a.m.k. langt fram í júnímánuð. Ef til vill verður mjög lítið bil á milli og því þurfi mjög lítið að flytja inn. Þegar öll innlend framleiðsla er búin teldi ég þó að þetta ætti ekki að vera.