18.04.1986
Efri deild: 79. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 4087 í B-deild Alþingistíðinda. (3751)

396. mál, framleiðsla og sala á búvörum

Frsm. minni hl. (Kolbrún Jónsdóttir):

Virðulegi forseti. Ef ég skil orð hæstv. ráðh. rétt er aðeins ætlað að innheimta þetta gjald á þeim tíma þegar bæði er innlend og erlend framleiðsla í landinu. Þetta er sú spurning sem ég lagði fyrir nokkra þm. í gær og hæstv. ráðherra einnig, ekki landbrh. reyndar. Það voru önnur svör sem ég fékk þar. En þetta er nú komið á hreint. Aðeins er um að ræða toll á kartöflur þegar er bæði innlend og erlend framleiðsla í landinu. (EgJ: Hvar stendur það nú?) Það kemur fram hjá hv. 11. landsk. þm. að ekki er sama túlkun hjá öllum á þessum væntanlegu lögum. En þrátt fyrir að þennan tolI sé aðeins ætlað að leggja á þegar innlend og erlend framleiðsla er á sama tíma til í landinu tel ég það mjög hættulegt fyrir kartöflubændur vegna þess að þó að innlend framleiðsla sé til, þó það sé fyrir norðan, eigum við ekki til nógu góðar geymslur og geymsluþol kartaflna er ekki með mjög góðum hætti þar sem ekki eru kælikerfi í geymslum. Því getum við ekki réttlætt að flytja inn kartöflur erlendis frá á stærsta markaðinn, en láta kartöflubændur víðs vegar um land sitja uppi með sína framleiðslu. Það er minn skilningur að þó að ráðuneytið hafi stjórnkerfi til að stýra innflutningi með leyfisveitingum eigi ráðherranum ekki að vera heimilt að leyfa innflutning fyrr en innlenda framleiðslan er á þrotum. Við getum aldrei borðað upp innlenda framleiðslu einhvern ákveðinn dag og flutt svo inn daginn eftir erlenda vöru því að markaðurinn tekur þó nokkuð til þess að eiga á lager. Ég held því að þessi heimild, þrátt fyrir að hana eigi aðeins að nýta á þessum tíma, lengi þann tíma sem inniendir framleiðendur eru að losna við sína vöru.

Ég hélt að hv. 11. landsk. þm. hugsaði meira um hag kartöflubænda en svo að hann mundi samþykkja að hann sæti kannske uppi með kartöflur þangað til allir á Hornafirði og Austurlandi væru búnir að klára sína framleiðslu og hann mætti ekki flytja hana hingað suður. En málið er ekki þannig. Það er leyfilegt að flytja kartöflur milli landshluta. Það þyrfti þá að koma nýtt ákvæði sem mundi setja skorður við því eins og áður var meðan Grænmetisverslun landbúnaðarins var eingöngu með söluna. Þá var landinu skipt niður í svæði. Norðurland hafði sitt svæði, Austurland sitt og Suðurland stóra markaðinn. Ég get ekki fallist á þær röksemdir að það sé ekki hægt að flytja kartöflur norðan úr landi, það sé ódýrara að flytja þær erlendis frá, ef menn fyrir norðan hafa næga uppskeru fyrir sig og sína. Þetta get ég alls ekki fallist á.

Enn fremur vil ég líka benda á að eftir að Grænmetisverslun landbúnaðarins var lögð af í sinni fyrri mynd hafa gæði kartaflna batnað mjög mikið. Sú samkeppni sem átt hefur sér stað undanfarið hefur sýnt og sannað að það er full þörf á að hafa samkeppni um sölu á þessari vörutegund. En því miður er Ágæti, sem heitir svo, fyrirtæki Grænmetisins sáluga ef svo má segja, að taka yfir pökkunarverksmiðju í Þykkvabænum sem bændur sáu um áður. Ég harma að bændur í Þykkvabænum skyldu ekki hafa fengið þá aðstoð sem þeir þurftu til að geta sjálfir staðið undir þessari pökkunarverksmiðju og staðið þá í samkeppni við Ágæti.

En ég er ekki að beina þessu beint til hæstv. ráðh. Ég held að ekki sé við hann að sakast í þeim efnum. En kerfið er það þungt í vöfum að þessi verksmiðja hefur ekki hlotið þann stuðning, þó það sé ekki um margar milljónir að ræða þar, að bændur geti starfrækt hana heldur er nú Ágæti að taka þessa pökkunarverksmiðju yfir. Ég held að það sé einmitt mjög gott að þar sem um 40% af kartöfluframleiðslunni fara fram sé vörunni pakkað í neytendaumbúðir. Það skapar líka atvinnu fyrir fólk sem býr þar á staðnum. Ég er hér um bil viss um að á næsta hausti verði þessi starfsemi flutt til Reykjavíkur. Þetta kerfi, sem er búið að vera í eitt ár, er því aftur að fara inn í lokaða miðstýringu. Það er aftur að síga inn í Grænmetið þó það heiti Ágæti.

Varðandi unnar kartöflur kom hv. 1. þm. Reykv. inn á þá tolla sem eru á innfluttum frönskum kartöflum. Auk þess sleppa verksmiðjurnar hér innanlands við 24% vörugjald. Ofan á það er varið töluverðu fé úr ríkissjóði til að styrkja verksmiðjurnar. Það kom upp í landbn. að það vantaði 18 millj. til að styrkja þessa framleiðslu. Það er verið að styrkja þær tvær verksmiðjur sem til eru í landinu. En við megum aldrei ganga svo langt að við vitum aldrei hvað borgar sig og hvað borgar sig ekki. Ef ekki borgar sig að vinna þessa vöru innanlands verðum við að horfast í augu við það. Það er svo sérkennilegt við kartöflurækt að ef það er gott árferði er ekkert að því að henda kartöflum. Kartöflubændur græða bara meira eftir því sem sprettan er betri án þess að hafa meiri kostnað. Við verðum bara að sætta okkur við að verða að henda þeirri framleiðslu sem umfram er. Þær verksmiðjur sem vinna kartöflur vinna auk þess kartöflur undir 28 mm eða kartöflur sem fóru í beljur áður. Þeir geta bara þakkað fyrir að fá eitthvað fyrir þessa vöru. Það er ekki hægt að greiða sífellt niður og greiða með og geta aldrei gert sér grein fyrir hvað borgar sig og hvað ekki og reyna alltaf að koma í veg fyrir samkeppni. Auðvitað geta kartöflubændur lækkað sína vöru ef uppskeran er mikil vegna þess að þeir nota ekki meiri áburð, þeir nota ekki fleiri vélar eða neitt. Ég á bara varla orð yfir frv. Hvers konar vitleysa er hér að fara í gegn? Þetta er rökleysa.