18.04.1986
Efri deild: 79. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 4089 í B-deild Alþingistíðinda. (3752)

396. mál, framleiðsla og sala á búvörum

Ragnar Arnalds:

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. landbrh. fyrir svar hans við spurningu minni áðan. Það var kannske svolítið djúpt á svarinu, en það kom og það var skýrt að mínu viti. Hann sagði í lokasetningunni að það væri skilningur hans að eftir að allar birgðir af íslenskum kartöflum hér innanlands væru uppurnar, hefðu verið seldar, mundi gjaldið á innfluttu kartöflurnar verða fellt niður. Ég fagna þessari yfirlýsingu því að ég veit að launamenn og aðilar nýgerðra kjarasamninga munu fagna því að neytendur geta þá undir þeim kringumstæðum notið hins lága vöruverðs á erlendum kartöflum, enda er þá ekki lengur verið að verja íslenska framleiðslu.