18.04.1986
Efri deild: 79. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 4089 í B-deild Alþingistíðinda. (3753)

396. mál, framleiðsla og sala á búvörum

Jón Magnússon:

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að tefja tímann á því að fara að ræða um það sem hæstv. landbrh. hafði út á mína ræðu að setja áðan og það sem hann kom með til varnar frv. sínu, en það eru nokkur atriði sem væri mjög mikilvægt að ráðherra upplýsti.

1. Hvers vegna er nauðsyn að taka til þessi sérákvæði um tollvernd fyrir kartöflur og vörur unnar úr þeim umfram aðrar búvörur? Ég mundi vilja að ráðherra gerði rækilega grein fyrir því hvaða ástæður valda því að það þurfi að gilda þessar sérreglur um kartöflur.

2. Ekki síst að gefnu tilefni vegna fsp. hv. 3. þm. Norðurl. v., þar sem hann velti upp þeirri spurningu hvort tollurinn yrði eftir sem áður í gildi þegar innlend framleiðsla væri ekki til sölu, ég skildi spurninguna sem slíka, þá langar mig til að spyrja hæstv. ráðh. varðandi þá innflutningstolla og álögur sem gilda á innflutt grænmeti eða garðávexti: Hvenær hafa þeir verið lækkaðir eða felldir niður þegar framboð hefur ekki verið á innlendri framleiðslu á markaðnum?

Ég ætla ekki að svara fyrir hæstv. ráðh., en benda á að ég hef ekki orðið var við að um væri að ræða neina verðlækkun á grænmeti eða garðávöxtum er íslenskri framleiðslu sleppir og byrjað er að flytja inn sannanlega ódýrari vöru hvað innkaupsverð snertir vegna þess að tollálögurnar hafa þá tekið við. Þetta hefur gilt t.d. varðandi tómata og margt fleira. Enda væri nokkuð furðulegt að tala um tekjur sem ættu að renna í ríkissjóð ef hér væri eingöngu um verðmiðlunarfrv. að ræða, eins og hæstv. ráðh. vill láta í veðri vaka hér í þessari hv. þingdeild.

Til viðbótar þeim efnisatriðum sem ég gat um áðan vil ég leyfa mér að nefna að í mörg, mörg ár ríkti mikið ófremdarástand varðandi sölumál á kartöflum. Grænmetisverslun landbúnaðarins hafði einokunaraðstöðu varðandi sölu á markaðnum hér og sölustarfsemi hennar var með þeim endemum að á ákveðnu tímabili og rétt áður en sú stofnun var að velli lögð þurftu heilbrigðisnefndir og heilbrigðisráð að ganga í málin og spítalar á Reykjavíkursvæðinu að neita að taka við þeim óþverra sem Grænmetisverslun landbúnaðarins ættaði að neyða ofan í neytendur. Í framhaldi af því, þar sem talsmenn Grænmetisverslunarinnar létu ekki skipast, þurftu neytendur á þessu svæði að taka til sinna ráða, og reyndar líka annars staðar, m.a. norður á Akureyri og víðar, og knýja á um að það yrði hætt að selja óþverra sem var ekki samkvæmt mati yfirmatsmanns garðávaxta hæfur til manneldis. Neytendur í Reykjavík brugðust mjög vel við og sendu ráðherra áskorun og nokkru síðar var hætt að selja þennan óþverra, en það var árviss viðburður áður fyrr að á löngu tímabili ár hvert voru ekki til hér á neytendamarkaði ætar kartöflur. Það hefur ekki verið síðan deilan út af finnsku kartöflunum var til lykta leidd, gæti að sjálfsögðu komið aftur ef það ágæta Ágæti fær svipaða einokunarstöðu og Grænmetisverslun landbúnaðarins hafði áður.

En þannig var staðan og þessi lélegu vörugæði á kartöflum hafa leitt til þess að fólk er í stórum stíl hætt að neyta þessarar vöru. Ég reikna með því að hæstv. landbrh. geti upplýst þingheim um að neysla kartaflna hefur farið minnkandi ár frá ári. Vegna hvers? Einfaldlega vegna þess að sölukerfið var ófullnægjandi og í öðru lagi vegna þess að það voru ekki á markaðinum langtímum saman ætar kartöflur. Þegar verið er að tala um offramleiðslu núna er þar að hluta til um að kenna arfi frá þeim tíma að það var árviss viðburður að fólki var boðið upp á óæti í staðinn fyrir ágæti.

Að sjálfsögðu verður að telja eðlilegt að vinna gegn þessari þróun vegna þess að ég lít svo á að þarna sé um hollustuvöru að ræða og mjög mikilvæga neysluvöru. Út af fyrir sig er það mesta hagsmunamál framleiðenda þessarar vöru að neysla á henni aukist, langsamlega mesta hagsmunamálið. En það verður ekki gert með því að setja á þá verndartolla sem hér ræðir um og þá skattlagningu og það verður ekki gert með því að stefnt sé að því að sölukerfið fari í svipaðan farveg og meðan Grænmetisverslun landbúnaðarins sáluga, fáum harmdauði, var við lýði. En höfuðspurningin er þessi: Hvaða ástæður eru til þess að setja sérreglur um kartöflur?