18.04.1986
Efri deild: 79. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 4091 í B-deild Alþingistíðinda. (3754)

396. mál, framleiðsla og sala á búvörum

Stefán Benediktsson:

Frú forseti. Það gengur furðu næst að við skulum þurfa að standa í Ed. Alþingis á árinu 1986 og rífast um jafnmikil miðaldaviðhorf og fram koma í því frv. sem hér liggur fyrir hv. deild. Það er rétt eins og menn hafi ekki lesið mannkynssöguna sína og lesið um baráttu kúgaðra Íslendinga fyrir því að fá að éta eitthvað annað en maðkað mjöl. Það náðist fyrir tveimur árum ákveðinn árangur í þessum málum þegar einokun Grænmetisverslunar var aflétt að nokkru og ég held að það þurfi enga félagsfræðideild í Háskóla Íslands til að gera könnun á því og komast að þeirri niðurstöðu að þær breytingar, sem þá voru gerðar á löggjöf sem varðaði innflutning á grænmeti, hafa gerbreytt vali og möguleikum íslenskra neytenda hvað grænmeti snertir og þá sérstaklega kartöflur. Þú gengur núna inn í búð í marsmánuði og hefur fyrir þér úrval af ágætiskartöflum, íslenskum aðallega, og tilfellið er að samkvæmt því sem manni er sagt velja neytendur, þ.e. hinir venjulegu neytendur sem kaupa til daglegra þarfa sinna í verslunum, frekar og fyrst og fremst íslenska vöru en erlenda þegar beggja er völ. Það er aftur á móti víst staðreynd líka að þeir sem kaupa inn í miklu magni, þá er þar aðallega um veitingahús, spítala og stofnanir að ræða, fyrirtæki sem ekki hafa sjálf eins gott tækifæri til að kanna gæði þeirrar vöru sem þau eru að kaupa í miklu magni en verða að uppfylla ákveðin skilyrð: og kröfur af hálfu eftirlits og opinberra aðila, kaupa frekar innflutta vöru en innlenda einfaldlega vegna þess að þeir ganga að því sem gefnu að þar séu gæðin yfirleitt meiri. Það er líka staðreynd að eftir að einokun Grænmetisverslunarinnar var aflétt hafa gæði innfluttu vörunnar batnað stórlega.

Þetta frv., sem hér um ræðir, væri þá t.d. að stórauka alla vega þennan kostnaðarlið hjá veitingahúsum, spítölum og opinberum stofnunum. Þannig eru menn að bregða fæti fyrir sjálfa sig að nokkru leyti í þessum málum.

Það sem virðist vera stjórnvöldum hér á landi einna mestur þyrnir í augum, framsóknarmönnum allra landa, er það að hinar erlendu vörur eru greiddar niður verulega af þarlendum stjórnvöldum og það verður greinilega með öllum ráðum að koma í veg fyrir það að íslenskir neytendur fái notið þess að menn úti í löndum taka þá afstöðu til landbúnaðarframleiðslu að greiða hana niður.

Í nýlega út gefnum tölfræðiritum kemur fram að vísitala neysluvöruverðs á Íslandi er þrisvar sinnum hærri en á öðrum Norðurlöndum, þrisvar sinnum hærri. Þá má spyrja hvort við þær aðstæður sem við búum við hér á landi - að vera háð innflutningi á grænmeti eins og allir vita, að laun hér á landi eru lægri en í nágrannalöndum okkar, að neysluvöruverð á Íslandi er þrisvar sinnum hærra en á öðrum Norðurlöndum - hvort ástæða sé þá til að vera að bæta enn um betur til að tryggja það að íslenskir neytendur geti alls ekki átt kost á því að kaupa eitthvað af þeirri neysluvöru sem þeir nauðsynlega þurfa á aðeins hagstæðara verði en hér á að búa til með þeim kúnstuga hætti sem þetta frv. gerir ráð fyrir.

Hv. 1. þm. Reykv. benti á það hérna áðan, vegna þess að þetta frv. tekur náttúrlega ekki bara til frumframleiðslunnar, þ.e. kartaflnanna sjálfra heldur líka varnings unnum úr þeim, að við getum ekkert barið hausnum við steininn og neitað því að Íslendingar hafa tekið upp siði eða ósiði annarra þjóða og borða t.d. það sem kallast franskar kartöflur, þá kemur í ljós í þeirri verðkönnun, sem hann vitnaði til í 4. tbl. verðkönnunar Verðlagsstofnunar frá 1986, að ódýrasta íslenska framleiðslan sem völ er á kostar 140,52 kr. hvert 11/2 kg á meðan af ódýrustu innfluttu framleiðslunni kostar 50 kr. 21/2 kg skammtur. Og það sem á nú að tryggja með þessari lagasetningu er það að fólk sem fer út í búð og ætlar að kaupa þessa vöru, hversu nauðsynleg eða ónauðsynleg sem fólki þykir hún nú, - en það er bara ekkert hægt, eins og ég sagði áðan, að berja hausnum við steininn, fólk vill kaupa og neyta þessa varnings við vissar aðstæður alla vega - að nú á fólk ekki að geta átt þess kost að kaupa þessa vöru á ekki bara 1/3 af því verði sem ódýrasta íslenska varan kostar, heldur 1/4 af því verði sem íslenska framleiðslan kostar.

Nú eiga menn að búa við það að verða að borga það sama nánast fyrir innflutninginn eins og fyrir íslensku framleiðsluna. Þetta þýðir það að þeir hinir sömu menn, sem settu núna nýlega lög á það fólk hér á landi sem býr við lág laun, eru að takmarka og skera niður möguleika þessa fólks til að búa við sömu eða sambærileg kjör og aðrir með því einfaldlega að banna þeim neyslu á ákveðnum vörum. Ég segi þetta vegna þess að lögin, sem sett voru í kjölfar samninganna hér um daginn, snúa fyrst og fremst að því fólki sem ekki hefur menntun eða stöðu til þess að sækja það sem á þessa samninga vantar í greipar vinnuveitenda sinna. Það á fyrst og fremst við um það fólk sem engan málsvara á lengur því að verkalýðsforustan er búin að gefa þetta fólk upp á bátinn og verkalýðsforingjar hafa m.a.s. lýst því yfir í fjölmiðlum að þetta fólk skuli sækja sínar launabætur til almannatrygginga.

Ef við snúum okkur þá aftur að hinni hliðinni sem ég byrjaði á, þ.e. þeim miðaldahugsunarhætti sem í lagasetningu sem þessari felst, þá er sagt hér á bls. 2 í grg. með frv., með leyfi frú forseta:

„Í tillgr. er lagt til að landbrh. verði veitt heimild til að leggja sérstakt jöfnunargjald á innfluttar búvörur sem lið í stjórn búvöruframleiðslunnar . . .“ - Og undir þetta eigum við hér í hv. þingdeild að taka.

Finnst mönnum virkilega að svo vel hafi tekist til að stjórna búvöruframleiðslu á Íslandi að það réttlæti nauðsyn þess að við ljáum stuðning okkar enn einni tilraun á því sviði? Það vita allir sem vilja vita, það vita allir sem lesa blöðin ekki á hvolfi að stjórn búvöruframleiðslu á Íslandi hefur gjörsamlega mistekist. Hún hefur mistekist svo gjörsamlega að nú setja menn orðið lög árlega til þess að reyna með einhverju móti að ná tökum á þeirri hvelju sem þessi svokallaða stjórn landbúnaðarframleiðslunnar er á. Fyrst og fremst vegna þess að menn vilja ekki sleppa úr höndunum því forna stjórntæki sem framleiðsluráðslögin eru. Og menn vilja ekki sleppa sjónum af þeim heimsstyrjaldarhugsunarhætti sem réði þeirri upphaflegu samningsgerð sem samstarf ríkis og bænda er sprottið upp úr á árunum eftir fyrri heimsstyrjöld. Menn berja enn þá hausnum við steininn og neita að viðurkenna það að endanlega hlýtur þessi framleiðslugrein eins og allar aðrar að verða að lúta hinum einföldu lögmálum samkeppninnar í viðskiptum, að það verður aldrei hægt að stjórna henni þannig að hagsmunir neytenda og framleiðenda fari saman. En þeir hagsmunir mætast nákvæmlega í þeirri einu og eilífu staðreynd að báðir aðilar hljóta að sækjast eftir að varan sem þeir framleiða og varan sem þeir kaupa sé af sem allra mestum gæðum.