18.04.1986
Efri deild: 79. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 4098 í B-deild Alþingistíðinda. (3760)

422. mál, starfsmenn þjóðkirkju Íslands

Karl Steinar Guðnason:

Herra forseti. Ég sé í grg. þessa frv. að það er alllangt síðan það hefur náð afgreiðslu frá biskupi eða þeim aðilum þar, sem um þetta hafa fjallað, og furðar mig á því að málið skuli svona seint fram komið.

En tilefni þess að ég tek hér til máls er að ég heyrði það í útvarpsfréttum í hádeginu að maður að nafni Cesil Haraldsson, sem er menntaður í guðfræði í Svíþjóð, hafi sótt um embætti hér á Íslandi og sá úrskurður verið felldur að hann sé ekki embættisgengur eða kjörgengur vegna þess að hann hafi ekki próf héðan frá Háskóla Íslands. Ég lýsi furðu minni á að svo skuli vera því það vill nú svo til að hann hefur lært guðfræði um sama guð og við trúum á hér og sömu guðfræði, og er með ólíkindum hversu gömul lög eru látin gilda um þetta. Ég spyr hæstv. kirkjumrh. hvort ekki sé möguleiki á því að taka út 2. málsl. 2. gr. og fá hann samþykktan hér í þinginu núna fyrir þingslit til þess að umgetinn einstaklingur verði ekki fyrir því ranglæti sem augljóst er að hann verður fyrir ef hann er dæmdur frá kjörgengi í krafti gamalla laga sem allir eru sammála um að séu úrelt. Það mun hafa komið fyrir áður, að einstaklingur hafi ekki verið kjörgengur vegna þessa ákvæðis. Það var reyndar skömmu eftir að fyrri lög voru sett 1911 og þá voru sett sérlög um það.

Nú liggur fyrir að þjóðkirkjan og svo til sjálfsagt allir aðilar eru því sammála að það nái engu tali að þessi vinnubrögð séu viðhöfð. Því spyr ég hæstv. kirkjumrh. hvort möguleiki sé á að taka þessa sérstöku grein út úr og samþykkja hana svo að þessi einstaklingur geti notið fyllsta réttlætis. Ég skora á hæstv. ráðh. að beita sér fyrir því.