18.04.1986
Efri deild: 79. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 4098 í B-deild Alþingistíðinda. (3763)

238. mál, Siglingamálastofnun ríkisins

Frsm. (Egill Jónsson):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir nál. samgn. Ed. Alþingis um frv. til l. um Siglingamálastofnun ríkisins. Eins og fram kemur í nál. og raunar líka á þskj. 918, þar sem gefur að líta brtt. frá samgn., þá leggur samgn. Ed. til að tvær breytingar verði gerðar á frv. eins og það kom til þessarar deildar úr Nd.

Annars vegar er breyting varðandi fyrirkomulag á ráðningu starfsfólks þar sem lagt er til að ráðherra, að fengnum tillögum siglingamálastjóra, ráði starfsfólkið. Þetta ákvæði er fært til samræmis við það sem er í lögum um Veðurstofu Íslands og Landmælingar Íslands en þau lög voru afgreidd hér á síðasta Alþingi. Það þykir eðlilegt að þessi háttur sé hafður á þar sem hér er um hliðstæðar stofnanir að ræða, a.m.k. stofnanir sem heyra allar undir sama ráðuneyti.

Hin breytingin er við 6. gr. frv. þar sem lagt er til að ekki sé lögbundið hvar siglingamálaráð hefur aðsetur, eins og er í lagafrv. eins og það kom til nefndarinnar.

Þetta eru þær breytingar sem við gerum á frv., herra forseti, og það þarf ekki að því að spyrja að öll nefndin var á einu máli um að færa frv. í þennan búning.