18.04.1986
Efri deild: 79. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 4109 í B-deild Alþingistíðinda. (3777)

413. mál, þjóðarátak til byggingar þjóðarbókhlöðu

Menntmrh. (Sverrir Hermannsson):

Herra forseti. Aðeins örfá orð án þess að ég ætli að fara að ræða efnisatriði málsins ítarlega - það eru slíkar annir að manni gefst ekki kostur á að vera nægjanlega á vakt þegar mál sem maður stendur fyrir eru á dagskrá - en vildi aðeins geta þess um þetta, sem menn hafa fundið að og ég heyrði, um hinar sérstöku viðurkenningar fyrir þátttöku í þjóðargjöfinni þá vill svo til að þetta er hugsað alveg öfugt við það sem menn skilja, að því sem mér virðist, að þetta séu einhver heiðursskjöl til handa efnamönnum. Það var ekki á þann veg hugsað, heldur að reyna að sjá svo um að enginn, sem vildi taka þátt í þessari þjóðargjöf, yrði afskiptur. Takmörk hljóta að vera fyrir því hvað við treystum okkur til þess að leggja á tekjusnautt og eignasnautt fólk. En til þess að gefa því, ef það vildi samt sem áður leggja eitthvað af mörkum til þessa þjóðarátaks, færi á að leggja sitt af mörkum þá var þessi heiðursskjalaviðurkenning, eða hvað maður á að kalla það, upphugsuð, og að hún yrði að lágmarki 1000 kr., skjal sem menn gætu keypt. Ekkert annað lá þessu til grundvallar og fjarri öllu lagi að það væri verið að búa til eitthvert skrautskjal til handa efnamönnum eða ættum þeirra að innramma upp á framtíðina.

Ég þakka fyrir þá samstöðu sem um þetta mál hefur náðst og nefndinni, fjh.- og viðskn., fyrir hennar verk og sérstaklega formanni hennar, hv. 3. þm. Norðurl. v. Ég batt fyrst vonir við það að um þetta gæti orðið allsherjar samkomulag milli þingflokka. Það kann vel að vera að tímaskortur hafi hindrað það m.a. Ég hlaut mjög að beita mér gegn því að um frekari frestun á afgreiðslu málsins yrði að tefla því að við þekkjum of vel, sem lengi höfum setið þingbekki, að ekki er nú rýmra um hendur þegar kemur að því að afla fjár til hinnar almennu fjárlagagerðar eins og verða vill.

Ég hef svo ekki fleira um þetta mál að segja nema ég ítreka þakkir mínar fyrir góða afgreiðslu.