06.11.1985
Efri deild: 12. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 439 í B-deild Alþingistíðinda. (378)

108. mál, Jarðboranir hf.

Karl Steinar Guðnason:

Virðulegi forseti. Ég tek undir þá gagnrýni sem hefur komið hér fram varðandi málsmeðferð. Það er mjög óviðkunnanlegt að Alþingi skuli fá þessa gjörð löngu eftir að hún hefur átt sér stað. Það hefði verið eðlilegra að leggja frv. fyrir Alþingi fyrr, þ.e. á síðasta þingi.

Hv. síðasti ræðumaður ræddi um draugagang allmikið og kraftakveðskap, en þrátt fyrir að hann hafi talið að sá draugagangur hafi verið niður kveðinn leyfi ég mér að benda á að nokkuð var um það á sínum tíma að sveitarfélög, sem þurftu á borunum að halda, fengu þær ekki vegna þess að Reykjavíkurborg var forgangsaðili. Þetta skapaði oft vandræðaástand hjá þeim sveitarfélögum sem um var að ræða, kostnað og erfiðleika. Ég sé ekki að með frv. sé þessu á nokkurn hátt breytt. Ég sé ekki annað en Reykjavíkurborg geti ráðið því alveg hvenær hún sinnir hinum einstöku beiðnum sveitarfélaga um boranir. Ég leyfi mér að ætla að það væri eðlilegt að Samband íslenskra sveitarfélaga væri spurt um álit á þessu frv. og hvort þau samtök telji að hagur smærri sveitarfélaga sé tryggður sem skyldi eða er það skilyrði fyrir því að önnur sveitarfélög en eiga aðild að þessu eða vildu eiga aðild að þessu fái notið þessarar þjónustu?

Ég tel eðlilegt, eins og lagt var til, að frv. fari til fjh.og viðskn., en vildi varpa fram þeirri spurningu hvort ekki sé ástæða til þess að sérstaks álits sé leitað hjá Sambandi íslenskra sveitarfélaga. Mér sýnist að málið hafi einungis verið rætt við hitaveitustjórnir og aðra ekki.

Hvað varðar formið á þessu held ég að það skipti litlu máli. Þetta er sáralítil breyting, leiktjöld ef svo mætti segja.