18.04.1986
Neðri deild: 86. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 4114 í B-deild Alþingistíðinda. (3801)

364. mál, Stofnlánadeild landbúnaðarins

Frsm. (Stefán Valgeirsson):

Herra forseti. Ég ræddi um það í minni framsögu fyrir þessu máli hér í hv. deild að það yrði ekki fært á milli annað en það að það mundi passa, þau bréf sem Stofnlánadeildin mundi taka við og skuldir á móti. Það var því ekki ætlunin að halla á Stofnlánadeildina að neinu leyti.

Þetta þótti þeim í hinni deildinni ekki nægjanlegt þó að þessi yfirlýsing lægi hér fyrir og þótt þeir fengju hana staðfesta hjá framkvæmdastjóra Stofnlánadeildarinnar. Það er allt í lagi að okkar mati að setja þetta inn en við töldum það óþarfa. Okkur fannst það vera nóg að hér kæmi fram yfirlýsing um það að séð yrði til þess að Stofnlánadeildin yrði ekki fyrir neinu tjóni við yfirtöku á þessum hlutum sem hér um ræðir.