18.04.1986
Neðri deild: 86. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 4116 í B-deild Alþingistíðinda. (3807)

73. mál, varnir gegn mengun sjávar

Frsm. minni hl. (Kristín Halldórsdóttir):

Herra forseti. Ég mæli fyrir nál. minni hl. samgn. sem er að finna á þskj. 931 og hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Glundroði ríkir í umhverfismálum hér á landi og löngu orðið tímabært að setja lög um heildaryfirstjórn umhverfismála í stað þess að búta þau niður í margar deildir sem eru hver í sínu ráðuneyti.

Réttast væri að fresta öllum þingmálum sem snerta umhverfismál, þar með töldu frv. til l. um selveiðar og því frv. til l. um varnir gegn mengun sjávar sem hér um ræðir, þar til umhverfismálin hafa verið sameinuð undir einn hatt. Ljóst er þó að ekki er nægilegur skilningur og vilji fyrir hendi hjá núverandi stjórnvöldum til þess að slíkt nái fram að ganga.

Meiri hl. nefndarinnar er þeirrar skoðunar að samþykkja beri þetta frv. til l. um varnir gegn mengun sjávar með smávægilegum breytingum. Undirrituð er ekki á sama máli. Þetta frv. er málamiðlun ólíkra sjónarmiða. Með samþykkt þess væri í raun verið að staðfesta og löggilda glundroðann í umhverfismálum. Má nefna sem dæmi að skv. 22. gr. frv. væri samgrh. heimilt, að fenginni umsögn Siglingamálastofnunar ríkisins, að stöðva rekstur sem Hollustuvernd ríkisins hefði gefið út starfsleyfi fyrir skv. lögum um hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit.

Mengun sjávar er ekkert sérfyrirbæri sem nauðsyn ber til að fela Siglingamálastofnun ríkisins fremur en aðra mengun, heldur er hér um að ræða arf frá gamalli tíð þegar enginn hafði með mengunarvarnir að gera. Þá kom það í hlut Siglingamálastofnunar undir yfirstjórn samgrn. að staðfesta alþjóðasamninga um varnir gegn mengun sjávar fyrir Íslands hönd og þannig myndaðist sú hefð sem menn virðast tregir til að breyta þrátt fyrir augljósa ókosti.

Minni hl. vill freista þess að fá samþykktar þær breytingar á frv. að hvers konar mengunarvarnir verði eftirleiðis á einni hendi, þ.e. undir stjórn mengunarvarnadeildar Hollustuverndar ríkisins, og heyri undir heilbrrn., sbr. brtt. á sérstöku þskj. Væri það vissulega spor í átt til þeirrar sameiningar umhverfismála undir einn hatt sem koma skal. Verði þær brtt. ekki samþykktar leggur minni hl. til að frv. verði fellt.“

Undir þetta ritar Kristín Halldórsdóttir fundaskrifari. Herra forseti. Brtt. á þskj. 932, sem hv. þm. Guðrún Agnarsdóttir flytur ásamt mér, þarfnast lítilla skýringa.

Þær lúta að þessu eina atriði sem við höfum í rauninni við frv. að athuga, svo sem fram kemur í nál. því sem ég var að lesa. En þetta eina atriði er grundvallaratriði. Þetta mál er reyndar af svipuðum toga og mörg önnur sem valdið hafa ágreiningi hér í þinginu vegna þess að menn eru ekki sammála um heimilisfang. Hafi einhver málaflokkur einhvern tíma fengið heimilisfang er ekki heiglum hent að slíta hann þaðan burtu því að þá er heimaríkum embættismönnum að mæta hversu augljós sem vitleysan er.

Hér er um glöggt dæmi að ræða. Ísland hefur um áraraðir tekið þátt í nokkru samstarfi um varnir gegn mengun hafsins með aðild að ýmiss konar alþjóðlegu samkomulagi þar að lútandi. Lengi vel var enginn í landinu sem hafði með mengunarvarnir að gera og sú hefð myndaðist að siglingamálastjóri tók á sig nauðsynleg ferðalög til útlanda til að undirrita slíka samninga. Síðan samþykkti Alþingi lög um heimild til handa ríkisstjórninni til að fullgilda samninga fyrir Íslands hönd og Siglingamálastofnun annaðist framkvæmd samninganna.

Þegar lög nr. 50/1981, um hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit, voru samþykkt hefði þetta fyrirkomulag átt að breytast. Samkvæmt þeim lögum var Hollustuvernd ríkisins stofnuð og ein af þremur deildum þeirrar stofnunar er mengunarvarnadeild.

Í gr. 17.4 í þeim lögum segir að mengunarvarnadeild hafi yfirumsjón með því að fylgt sé ákvæðum í reglugerð um mengunarvarnir. Sú reglugerð er að vísu ekki til enn þá en verið er að vinna að henni af fullum krafti, það ég best veit.

Einnig segir í sömu lögum að mengunarvarnadeild skuli annast tillögur að starfsleyfum og úrvinnslu gagna hvað snertir mengunarvarnir, starfsemi geislavarna og skipulagningu og umsjón með framkvæmd mengunarrannsókna í samræmi við lög þessi svo og annarra mengunarrannsókna eftir nánari ákvörðun stjórnar stofnunarinnar.

Síðan þessi lög voru samþykkt hefur mengunarvarnadeild verið að byggja upp starf sitt. Þar starfa nú sérfræðingar á ýmsum sviðum loftmengunar. Um áramótin var ráðinn þangað sérfræðingur á sviði vatnsmengunar og veitir ekki af í vaxandi fiskeldi.

Mengun er flókið fyrirbæri og margslungið og ákaflega erfitt að ætla að sundurgreina hana í hólf. Ef t.d. olíubíll veltur uppi á Hveravöllum og olía kemst í ár og læki rennur hún til sjávar. Loftmengun, t.d.. frá verksmiðjum, fellur í regni, bæði á sjó og land. Og blessaðar fiskeldisstöðvarnar eru mjög mengandi. Bara ein þeirra, Íslandslax við Grindavík, sendir fullbúin frá sér til hafs jafnmikla mengun og allt höfuðborgarsvæðið.

Þannig mætti lengi telja en niðurstaðan hlýtur alltaf að verða sú sama. Það er að öllu leyti langskynsamlegast að hafa allar mengunarvarnir á einni hendi - og þá að sjálfsögðu í mengunarvarnadeild Hollustuverndar ríkisins. Þar á heimilisfangið að vera. Það væri spor í rétta átt til sameiningar umhverfismála undir einn hatt.

Og vel á minnst, hér er rétt að minna á frv. til l. um umhverfismál sem er eitt af vanefndum loforðum hæstv. ríkisstj. Það sakar ekki að spyrja, úr því að hæstv. félmrh. er hér í salnum, hvað líði samningu þess frv. og á það verður minnt aftur þótt síðar verði.

Herra forseti. Þetta frv. var lagt fram nokkuð snemma á þessu þingi og var lengi til umfjöllunar í Ed. og tók þar vissulega ýmsum breytingum til batnaðar. Að frágengnu þessu grundvallaratriði um heimilisfangið og yfirvaldið eru þó enn á því hnökrar sem hefði mátt lagfæra ef nú væri ekki tími hinna óvönduðu vinnubragða. Það er hart að horfa upp á Alþingi verða að hálfgerðri stimpilstofnun fyrir ráðherra og embættismenn. Ég bið nú hv. þingdeild að staldra aðeins við í óðagotinu og kanna hug sinn til þeirra raka sem ég hef hér flutt máli mínu til stuðnings.