06.11.1985
Efri deild: 12. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 443 í B-deild Alþingistíðinda. (381)

108. mál, Jarðboranir hf.

Karl Steinar Guðnason:

Virðulegi forseti. Í svari ráðherra kom fram að þetta fyrirtæki gætu ekki aðrir átt en opinberir aðilar og ég get svo sem fallist á það, en það segir okkur aftur það að veruleg hætta er á því að þau sveitarfélög sem ekki eru aðilar að þessu fyrirtæki beri skarðan hlut frá borði eða þetta eignarform komi niður á þjónustu við þau sveitarfélög. Það er alkunna að verkefni eins og þau sem Jarðboranir sinna, hvert verkefni, tekur langan tíma og kannske ekki hægt að vinna að þeim nema á vissum árstíma. Ég óttast að Reykjavíkurborg hafi allan forgang, aðrir komi þar ekki til greina fyrr en hún hafi sinnt sínum þörfum.

Í öðru lagi vildi ég leiðrétta það, sem fram kom hjá hæstv. ráðh., að öll ríkisfyrirtæki væru til sölu. Ég minni á að Verkalýðs- og sjómannafélag Keflavíkur sendi erindi til fjmrn. á sínum tíma hvar fram kom ósk um að kaupa hlutabréf í Íslenskum aðalverktökum. Mér var sagt að það félli undir utanrrn. og fjmrn. hefði sent utanrrn. þetta erindi. Ekkert svar hefur borist enn sem þýðir að þetta fyrirtæki virðist ekki vera til sölu. Það er mjög athyglisvert og fróðlegt og væri huggulegt að á því fengjust skýringar eða a.m.k. svar við þeim erindum sem send eru í ráðuneytin.