18.04.1986
Neðri deild: 86. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 4128 í B-deild Alþingistíðinda. (3819)

285. mál, lögverndun á starfsheiti kennara og skólastjóra

Birgir Ísl. Gunnarsson:

Herra forseti. Eins og fram kemur í nál. menntmn. á þskj. 879 ritaði ég undir nál. með fyrirvara, en eins og fram kom í framsöguræðu formanns nefndarinnar, hv. 2. þm. Norðurl. e., varð nefndin sammála um að mæla með samþykkt frv. með smábrtt.

Mér þykir hins vegar rétt að gera nokkra grein fyrir því hér í hverju minn fyrirvari er fólginn. Hann lýtur að tveimur meginþáttum.

Í fyrsta lagi hef ég vaxandi vantrú á þeirri öru þróun, sem hér er á landi, þar sem hver stéttin á fætur annarri fær lögbundin sérréttindi til ákveðinna starfa. Ég held að þessi þróun sé að fara út í öfgar. Okkur er t.d. boðað, svo að eitthvað sé nefnt, að það muni væntanlega ekki verða langt í að hér komi inn á hv. Alþingi frv. sem veiti búfræðingum frá búnaðarskólum sérréttindi til að stunda búskap, vera bændur. Þannig virðist vera þróunin í þessa átt og er alveg ljóst að hún stefnir mjög hratt út í algerar öfgar.

Ég vil í þessu sambandi vitna til þáltill. á þskj. 677, sem hv. 2. þm. Reykv. ásamt þm. úr öllum flokkum nema fulltrúum frá Kvennalistanum hefur flutt, þar sem mælt er með því að ríkisstj. verði falið að kanna áhrif lögbundinna forréttinda, m.a. einkaréttar, til tiltekinna starfa eða atvinnurekstrar eins og nánar segir í þeirri till. Allshn. Sþ. hefur haft þessa till. til meðferðar og hefur þegar afgreitt hana þannig að hún kemur væntanlega hér til umræðu og afgreiðslu fyrir þinglok.

Ég tel hins vegar ekki rétt eins og mál standa nú að stöðva þessa þróun í þessu sérstaka máli þegar kennarar eru til umræðu, svo viðkvæm og erfið sem málefni þeirrar stéttar eru nú. Það ræður auðvitað líka nokkru í þeirri afstöðu minni að hæstv. menntmrh. hefur lýst því yfir a.m.k. tvisvar úr þessum ræðustól að hann telji að þetta frv. og efni þess sé hluti af kjarasamningi við kennara þannig að ég vil ekki verða til þess að stöðva mál sem hæstv. ríkisstj. hefur þannig til stofnað.

Hinn þátturinn í mínum fyrirvara lýtur að efni þessa sérstaka frv. og þá einkum að því atriði sem hv. frsm. nefndarinnar gerði nokkuð að umtalsefni, en það er ótti skólastjóra framhaldsskólanna, einkum á sviði verkmennta, um efni þessa frv. Við í nefndinni fengum á okkar fund allmarga skólastjóra og forsvarsmenn framhaldsskóla og þá ekki síst á sviði verkmennta og þeir lýstu mjög áhyggjum sínum yfir því hvernig þetta ákvæði yrði framkvæmt og lýstu því fyrir okkur hvaða erfiðleikum þeir væru í við að útvega kennara á ýmsum sérsviðum í verkmenntun. Þeir sögðu fleiri en einn að þeir þyrftu oft að ganga með grasið í skónum á eftir mönnum, sem væru sérmenntaðir í ákveðnum verkgreinum, til þess að fá þá til að kenna við sína skóla. Þeir óttuðust að ef því fylgdi jafnframt að þeir yrðu að sækja um einhverjar undanþágur til nefndar í Reykjavík hefðu menn hreinlega ekki áhuga á því. Þetta væru menn í öðrum störfum og gerðu það oft í greiðaskyni við sinn gamla skóla eða skólann í sinni heimabyggð að koma til kennslu. Þeir mundu þá ekki standa í því og halda sér við sitt aðalstarf, en ekki koma til slíkrar kennslu. Þetta var áhyggjuefni allmargra skólastjóra.

Að vísu er í þessu frv., eins og fram hefur komið, heimild til undanþágu og undanþágur eiga að metast af sérstakri nefnd sem væntanlega situr þá suður í Reykjavík, en með því að samþykkja þetta ákvæði á þennan hátt er Alþingi að sjálfsögðu að afsala miklu valdi í hendur þessarar undanþágunefndar þannig að Alþingi er þar með að lýsa yfir og óska þess, og ég undirstrika það sérstaklega, að framkvæmd þessa ákvæðis laganna verði með þeim hætti að það valdi ekki erfiðleikum í skólastarfi í verkmenntaskólum og á það við bæði hér í Reykjavík og ekki síst reyndar úti á landi.

Þetta eru þeir fyrirvarar sem ég vildi gera varðandi þetta frv., en eins og málið er hingað komið inn á Alþingi og eins og til þess er stofnað vildi ég ekki leggja stein í götu þess og ritaði undir nál. með þessum fyrirvara.