18.04.1986
Neðri deild: 86. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 4132 í B-deild Alþingistíðinda. (3821)

285. mál, lögverndun á starfsheiti kennara og skólastjóra

Pálmi Jónsson:

Herra forseti. Það frv. sem hér er á dagskrá, 285. mál Alþingis, frv. til laga um lögverndun á starfsheiti og starfsréttindum grunnskólakennara, framhaldsskólakennara og skólastjóra, er nú komið til 2. umr. Mér þykir rétt að taka fram að ég mun hafa haft veikindaforföll þegar málið kom til 1. umr. ella hefði ég þá tekið til máls.

Mér kemur það sannast sagna býsna mikið á óvart að frv. þetta skuli vera komið til 2. umr. með samhljóða ályktun hv. menntmn., þótt einstakir nefndarmenn hafi skrifað undir með fyrirvara, með tilliti til þess að þegar þetta frv. var kynnt í þingflokki Sjálfstfl. urðu um það mjög skiptar skoðanir. Það var eigi að síður samþykkt að það skyldi lagt fram til kynningar og sýnis og að þm. flokksins hefðu óbundnar hendur um afstöðu til þess. Það hefur enda sýnt sig að þrír hv. þm. Sjálfstfl. hafa talað næstir á undan mér, þar á meðal frsm. hv. menntmn., og allir hafa þeir lýst áhyggjum sínum og efasemdum um þetta frv. enda þótt tveir þeirra hafi lýst því að þrátt fyrir efasemdir sínar og áhyggjur vilji þeir ekki bregða fæti fyrir frv. og leggi til að það verði samþykkt.

Ég hef að sjálfsögðu áhyggjur og efasemdir sem eru á svipuðum röksemdum byggðar og hér hafa komið fram, og væri kannske ástæða til að stytta nokkuð mál sitt þess vegna, en ég get ekki látið hjá líða að rekja nokkuð afstöðu mína til þessa máls.

Áður en ég geri það leyfi ég mér að vitna til orða hv. frsm. menntmn. þar sem hann undir lok sinnar ræðu sagðist hafa í hjarta sínu efasemdir um tiltekin atriði málsins, svo sem eins og að undir þessi lög þyrfti að falla ráðning kennara, ekki einungis skipun eða setning heldur einnig ráðning, en hv. frsm. nefndarinnar mun nú hafa mismælt sig þegar hann bætti við að hann treysti sér til að framkvæmdin færi vel úr hendi. Nú má vel vera að framkvæmd færi vel úr hendi ef hún væri í höndum hv. þm. Halldórs Blöndals og kannske höndum hæstv. núv. menntmrh., en það er ákaflega valt að byggja lagasetningu á því að framkvæmd fari vel úr hendi þrátt fyrir margháttaðar efasemdir og ég tala nú ekki um ef það traust er byggt á einhverjum tilteknum persónum í valdastöðum og er þá sleppt því mismæli hv. þm. að hann treysti sér til þess að haga framkvæmd með góðum hætti.

Ég vil að þessum inngangi loknum lýsa þeirri skoðun minni að kennarastarf er eitt af hinum allra mikilvægustu hér á landi og að kennarar þurfa sannarlega að hafa hæfni til sinna starfa, hæfni sem þeir í flestum tilvikum og að miklu leyti sækja í sína menntun, en geta sannarlega einnig í sumum tilvikum sótt í reynslu eða þekkingu sem þeir hafa aflað sér á langri lífsleið.

Ég tel ákjósanlegt og sjálfsagt að menntun kennara sé góð og ég tel sjálfsagt einnig að menntun kennara veiti þeim ákveðin og aukin réttindi, svo sem er í gildandi lögum að menntun kennara veitir þeim forréttindi til starfs. Þetta tel ég sjálfsagt og nauðsynlegt og ítreka að ég tel heppilegt og ákjósanlegt að stuðla að því að menntun kennara sé sem allra best.

En það er ekki þar með sjálfgefið að allir aðrir, sem hafa stundað þetta starf og kynnu að vilja stunda það áfram, séu ónothæfir. Það er ekki þar með sagt að þeir sem ekki hafa tilskilin kennararéttindi samkvæmt þessu frv. séu óalandi og óferjandi til þessa starfs. Reynslan hefur margsinnis sýnt annað. Reynslan hefur sýnt hvað eftir annað að það fólk sem stundað hefur kennslu, þrátt fyrir að það hafi ekki lokið háskólanámi í kennslufræðum, hefur rækt sína vinnu af kostgæfni og skilað sínu starfi með sóma.

Ég hygg að mjög margir hv. alþm. hafi notið kennslu slíkra manna. Og flestir sem komnir eru á fullorðinsaldur og muna vel sína skólatíð, sem að sjálfsögðu er misjafninga löng, bera í huga sér hlýjar tilfinningar og jafnvel ræktarsemi til einhverra af þeim kennurum sem þeir hafa notið leiðsagnar hjá á æskuskeiði. Það er ekki alltaf víst að það séu endilega þeir kennarar sem hafa haft þau réttindi sem þetta frv. krefst sem hafa í minningunni mest gildi í hugum fólks sem komið er á miðjan aldur.

Þetta er kannske útúrdúr, en þetta er dæmi um það, sem hægt er að taka mýmörg, að fjölmargir hafa stundað kennslu með ágætum og skilað góðu starfi, í rauninni gert skólastarf í mörgum tilvikum mögulegt þrátt fyrir að þeir hafi ekki haft háskólapróf í kennslufræðum, svo sem hér eru gerðar kröfur um, eða uppeldisfræðum.

Í frv. þessu eru ýmis nýmæli sem vafalaust hafa verið rakin hér, a.m.k. við 1. umr. málsins. Meðal nýmæla er að nú dugar ekki lengur að einhver tiltekinn maður hafi aflað sér tilskilinnar menntunar. Það dugar ekki lengur að ljúka námi í Kennaraháskóla eða BA-prófi í Háskóla til að fá ótvírætt stöðu sem kennari eða geta kallast kennari heldur þarf ráðherra að veita stimpil.

Þetta er meðal nýmæla í frv. og þó að þetta atriði skipti kannske ekki miklu máli finnst mér að þeir sem hafa aflað sér menntunar og lokið prófum með tilskildum árangri eigi ótvírætt að geta gengið inn í störf þó að á skorti að tiltekinn ráðherra í þeirri grein veiti þeim náðarsamlegast leyfi sitt.

Í frv. er tekið fram um þau skilyrði sem þarf að uppfylla til að mega veita þessi leyfi og þar eru gerðar námskröfur sem út af fyrir sig eru góðra gjalda verðar. Það er líka tekið fram í frv. að kennarar skuli hafa lokið námi í uppeldis- og kennslufræði til kennsluréttinda, er nemur tilteknum einingum, við Háskólann. Í frv. er svo einnig um að ræða undantekningartilvik og ákvæði um að þeir sem ekki hafa þessi starfsréttindi geti sótt sér þau. Við skulum taka sem dæmi grunnskólakennara. Það má gefa grunnskólakennara sem starfað hefur í sex ár heimild til að sækja sér menntun í háskóla í uppeldisog kennslufræðum og hefur hæstv. ráðh. þá væntanlega heimild til að veita honum starfsréttindi, enda falli það þá undir mat sérstakrar nefndar, sem eins og hv. þm. Birgir Ísl. Gunnarsson sagði starfar í Reykjavík, sérstakrar nefndar varðandi grunnskólakennara og annarrar nefndar varðandi framhaldsskólakennara, sem á að slá mati sínu á það nám og þá starfsreynslu sem tiltekinn maður hefur öðlast í þessum tilvikum. Varðandi framhaldsskólakennara er þetta í sambærilegu horfi, en þó kannske enn þá flóknara. Þó eru kröfurnar minni varðandi kennslutíma. Hann þarf að hafa stundað kennslu í fjögur ár til þess að þetta sé mögulegt og sækja sér þá aukið nám sem gerði að verkum að hann gæti haft möguleika til að fá þessi starfsréttindi.

Hér er vitaskuld um mikla flækju að ræða. Það er a.m.k. álitamál hvort líkur séu til að kennarar, sem starfað hafa án þessara tilskildu réttinda á undanförnum árum, kannske í langan tíma, muni kjósa að leggja á sig slíkt nám og eiga það síðan undir mati einhverrar nefndar sérfræðinga á vegum menntmrn. hvort þeirra starf verði einhvers metið eða ekki. Ég þekki ýmsa kennara sem starfað hafa án þess að hafa full kennararéttindi og mér er kunnugt um, því að ýmsir þeirra hafa sagt það við mig, að þeim dettur ekki í hug að fara í slíkt nám, þeir muni einfaldlega sækja eftir öðrum störfum. Í mörgum tilvikum er hér um fólk að ræða sem hefur góða hæfni og yfirleitt yrði sóst eftir til starfa. Það þarf ekki á því að halda að leggja á sig nám á fullorðinsaldri í háskóla til að geta áfram starfað sem kennarar. Það getur í flestum tilvikum valið úr öðrum störfum. Sé það ekki þeirri hæfni búið, sem rís undir þessari fullyrðingu minni, hefur það yfirleitt ekki starfað lengi sem kennarar án starfsréttinda. Þá hafa aðrir menn verið fengnir til.

Ég þekki margt fólk af þessum toga. Það má nefna fólk sem hefur til að mynda stúdentsmenntun. Það er fólk sem hefur menntun sem iðnaðarmenn. Eftir þessu frv. mætti til að mynda ekki iðnaðarmaður starfa að því að segja grunnskólanemanda til í verklegum greinum, til að mynda í smíðum, eða iðnaðarmaður að segja til nemanda í framhaldsskóla, til að mynda í iðnskóla. Slíkir menn væru útilokaðir. Ýmsir þeirra starfa, eins og hér hefur raunar komið fram fyrr í þessum umræðum, að kennslu meira af ræktarsemi við sinn skóla og sína heimabyggð en vegna þess að það sé þeim eitthvert metnaðarmál eða kjaraatriði því að iðnaðarmenn geta yfirleitt aflað sér tekna á annan hátt en með kennslu.

Það er hlálegt að eftir þessu frv. mætti prestur ekki segja grunnskólanemanda til í kristnifræði. Hann hefði ekkert leyfi til þess þó háskólamenntaður sé. Hann hefði ekki tilskilið próf í uppeldis- og kennslufræðum. Jafnvel gætu doktorar í sumum fræðigreinum ekki orðið kennarar í grunnskóla eða framhaldsskóla nema sækja sérstakt námskeið í uppeldis- og kennslufræði.

Einnig má taka sem dæmi að húsmóðir með almenna menntun, húsmóðir sem allir vita að hefur góða reynslu bæði varðandi húsmóðurstörf og uppeldi barna, gæti ekki og mætti ekki segja grunnskólanemanda til í heimilisfræðum. Á marga lund er þetta svo fáránlegt að það tekur varla tali.

Hér sagði hv. 2. þm. Reykv. að tilteknir hv. alþm. í þessum sal hefðu reynst vel sem kennarar og það efa ég ekki og ég þekki til þess. En samkvæmt þessu frv. mætti, ef ég man rétt, kannske einn af núlifandi núverandi og fyrrverandi hæstv. menntmrh. stunda kennslu. Það ætla ég að sé fyrrv. menntmrh. Vilhjálmur Hjálmarsson.

Núv. hæstv. menntmrh. hefði vitaskuld enga heimild til að stunda kennslu til að mynda í íslensku. Við skulum sleppa stafsetningu, en ýmsar aðrar greinar er ég alveg sannfærður um að hann væri fullfær um að kenna, hefði ágæta hæfni til.

Hæstv. núv. heilbrrh. hefði heldur enga heimild til þess að stunda kennslu, fyrrv. hæstv. menntmrh. Ragnhildur Helgadóttir. (Gripið fram í.) Í hvaða grein? Vafalaust mætti velja þar um margar greinar því að sú kona er fjölhæf og hæf til að stunda kennslu án efa í mörgum greinum.

Hæstv. forseti Nd., fyrrv. menntmrh. Ingvar Gíslason, (ÓÞÞ: Nei, bíddu nú við.) sem því miður hefur vikið úr sínum stóli að sinni, (HBl: Gamall kennari við Gagnfræðaskólann á Akureyri.) hefði auðvitað enga heimild til þess t.d. að kenna mönnum fundarsköp hvað þá annað.

Hér var áðan nefndur fyrrv. menntmrh. Ragnar Arnalds. Ég minni á annan fyrrv. menntmrh., Magnús Torfa Ólafsson. Eftir þessu frv. hefði hann ekki heimild til að segja mönnum til í sögu. (HBl: Og ekki Gylfi Þ. í bókhaldi.) Og ekki fyrrv. menntmrh. Gylfi Þ. Gíslason í bókhaldi, eins og skrifari segir, hv. frsm. menntmn.

Ég get tekið fram af þessu tilefni að fáa veit ég fróðari menn en Magnús Torfa Ólafsson og skal þó ekkert segja um þá aðra sem ég hef hér nefnt en það er allt er hið mætasta fólk, fólk sem hefur án efa góða hæfni og þarf ekki um að tala. Þetta vita allir.

Ég held að það sé hið mesta tjón að samþykkja lög sem reyra þessi mál í svo þröngar og fastar skorður sem er ert með þessu frv.

Ég held að margt af því fólki, sem nú starfar án tilskilinna réttinda samkvæmt þessu frv. og hefur sumt gert um langan tíma, mörg ár hafi gjörsamlega borið uppi skólastarf í sínum byggðum. Ég óttast að við samþykkt þessa lagafrv. stöndum við frammi fyrir því að torvelt verði að rækja þetta skólastarf þannig að vel fari úr hendi.

Ég þarf ekki að ítreka að margt af þessu fólki hefur starfað með ágætum. En allt er það undir þá sök selt samkvæmt núgildandi lögum að það hlýtur að víkja og víkur ef þeir sækja sem hafa meiri réttindi. Þetta liggur allt fyrir. Og þetta torveldar ekki að kennarar með full námsréttindi geti gengið inn í starf þar sem henta þykir og þar sem réttindalaust fólk er fyrir. Núgildandi lög torvelda það ekki.

Það sem fæst með þessum lögum, ef samþykkt verða, er á hinn bóginn það að rutt er burtu í einni svipan því fólki sem starfað hefur að kennslu, borið hefur uppi skólastarf víðs vegar um land með ágætum þrátt fyrir að það hafi ekki full kennararéttindi.

Þó að hv. þm. Kristín Halldórsdóttir blaki til höfðinu eru svo mörg dæmi sem sanna að það sem ég hér hef sagt um þetta fólk er rétt að þó einstök tilvik gætu verið á annan veg eru það aðeins undantekningar sem sanna regluna, enda er þá slíkt fólk ævinlega látið víkja. Það hefur ekki sótt sér þau réttindi að það sé ekki auðvelt að láta það víkja og annað hæfara ráðið.

Ég heyrði á máli ræðumanna, hv. þm. Halldórs Blöndals, hv. þm. Birgis Ísl. Gunnarssonar og hv. þm. Friðriks Sophussonar, að hjá þeim var hinn mesti beygur við þetta mál og mér er kunnugt um að kennarar sjálfir hafa skiptar skoðanir um þetta mál. Mér er einnig kunnugt um að ekki einungis á grunnskólastigi, þar sem ég hygg að sé meiri fjöldi réttindalausra kennara að starfi, heldur einnig á framhaldsskólastigi, í ýmsum sérskólum, við skulum segja verkmenntaskólum, starfar töluvert af kennurum sem ekki hafa kennsluréttindi skv. þessu frv. en hafa reynst nýtir í sínu starfi vegna sérfræðiþekkingar sinnar og vegna þess að þeir hafa almenna hæfni til að gegna slíkum störfum þó þeir hafi ekki stimpil sem náðarsamlega er gefinn út af einhverri nefnd í Reykjavík og hæstv. menntmrh.

Mér er einnig kunnugt um það, eins og hér hefur komið fram, að hjá skólamönnum á framhaldsskólastigi, kennurum og skólastjórum, er beygur við þetta mál. Þeir sjá fram á að það eru allar líkur sem benda til þess að skólastarf verði erfiðara, það verði erfiðara að láta í té tilskilda kennslu og a.m.k. tekur tíma að vinna upp og fylla það skarð sem myndast þegar réttindalausum kennurum er rutt á brott í einni svipan með þessari lagasetningu.

Ég held að það hefði verið ástæða til að hafa a.m.k. verulegt svigrúm í þessum efnum þannig að áfram mætti grípa til hinna ágætustu manna til kennslu, manna sem sumir hverjir hafa stundað þetta starf um árabil og manna sem stunda þetta starf af ræktarsemi við sína heimabyggð, af ræktarsemi við sinn skóla og hafa í alla staði reynst vel. Eins og áður er tekið fram er ekkert sem hindrar að réttindafólk ýti þessu fólki til hliðar og það er að mínum dómi eðlilegt og sjálfsagt mál að meiri réttindi í námi geti ýtt til hliðar þeim sem minni réttindi hafa, en til þess þarf ekki þá lagasetningu sem hér er á ferðinni.

Að samanlögðu lít ég svo til að með frv. þessu, ef að lögum verður, sé stigið óheillaspor. Ég hef dregið fram þær meginröksemdir sem þeirri skoðun minni eru til grundvallar, en til viðbótar má auðvitað segja að þessi lagasetning þrengir að sjálfstæði skólayfirvalda á hverjum stað, í hverju byggðarlagi, herðir yfirstjórn á vegum menntmrn. og leggur hluta af þeirri yfirstjórn í vald matsnefnda, einnar fyrir grunnskólastig annarrar fyrir framhaldsskólastig. Ég hefði gjarnan óskað eftir að sjá hæstv. núv. menntmrh. flytja frv. sem hefði í för með sér aukið frjálsræði og sjálfstæði skólastofnana, skólahverfa á hverjum stað í stað þess að ganga í öfuga átt.

Allt það sem ég hér hef sagt haggar ekki því og styður þá skoðun mína að kennarastarfið sé, eins og ég áður hef sagt, eitt hið allra mikilvægasta og það beri að hlúa að því starfi og hlúa að því á alla lund að hið besta fólk geti stundað þessi störf.

Í þessum umræðum hefur komið fram, sem ég hafði einnig hugsað mér að víkja að, að fyrir liggur á þessu hv. Alþingi till. til þál. á þskj. 677 um könnun á áhrifum lögbundinna forréttinda til atvinnurekstrar og vinnu sem flutt er af fimm hv. alþm. úr ýmsum flokkum. Þessi þáltill. er að mínum dómi hið þarfasta mál og í raun og veru löngu tímabær. Ég get getið þess að áður en þessi till. kom fram hafði ég samið texta að þáltill. sama efnis, en lét kyrrt liggja úr því að málið kom fram af hendi annarra hv. alþm. Ég tel sem sé að við höfum verið að ganga vafasama braut á undanförnum árum með sífelldri lagasetningu um lögverndun á starfsréttindum og starfsheitum hinna ýmsu starfshópa í þjóðfélaginu. Með þessum hætti erum við að rígskorða starfsskiptingu fólks á vinnumarkaði, ekki einungis eftir menntun heldur einnig með leyfisveitingum. Það er verið að skipta fólkinu í landinu í starfshópa með lögum og fólk á sér sífellt færri leiðir til að velja um störf. Það skal vera á þeim bás sem því hefur verið markaður. Ég tel að það sé afar mikilvægt að þessi mál séu öll tekin til endurskoðunar. Að sjálfsögðu eru kennararéttindi ekkert einstök í þessu dæmi, það er fjöldi annarra starfsgreina sem hlotið hafa starfsréttindi með lögum sem er mjög vafasamt að hafi verið rétt stefna, en ég met hins vegar kennarastarfið svo mikils og skólastarf almennt í landinu að við megum ekki við því að kasta burtu með einni lagasetningu öllu því ágæta fólki sem að þessu starfar nú án sérstakra réttinda skv. þessu lagafrv.

Ég ítreka að ég dreg í efa að margt af þessu ágæta fólki muni leita eftir því að ná réttindum með aukinni menntun með umsóknum til matsnefnda og síðar til ráðherra. Það muni heldur kjósa að fara í önnur störf.

Ég ber þann ugg í brjósti með sama hætti og aðrir sem hér hafa talað í dag og ég hef heyrt til að þetta sé, eins og þeir orðuðu það, vafasamt mál. Þeir voru með alls konar efasemdir. Ég geng lengra. Ég treysti mér ekki til að greiða atkvæði með þessu frv. eða veita því hlutleysi mitt. Ég er andvígur þessu frv. og mun greiða atkvæði gegn því.