18.04.1986
Neðri deild: 87. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 4155 í B-deild Alþingistíðinda. (3839)

442. mál, Húsnæðisstofnun ríkisins

Kristín Halldórsdóttir:

Herra forseti. Ég ætla ekki að eyða dýrmætum tíma hv. Nd. í málalengingar um aðdraganda þessa máls. Hann er öllum kunnur og allir þingflokkar eru sammála um að hraða för þessa frv. í gegnum þingið. Til þess að svo megi verða munu félmn. beggja þingdeilda vinna saman um helgina og þess vegna hefur Kvennalistinn nú þegar lagt fram brtt. við frv. til þess að nefndarmenn fái þær til umfjöllunar strax. Þær eru unnar í samráði við Kristínu Einarsdóttur sem gerþekkir þessi mál eins og þeir vita sem hafa unnið með henni í húsnæðismálastjórn og milliþinganefnd um húsnæðismál þar sem hún er fulltrúi Kvennalistans.

Þingflokkar stjórnarandstöðunnar lögðu mikla áherslu á stofnun milliþinganefndar þegar vandi húsbyggjenda og húsnæðiskaupenda var til umræðu á s.l. vori. Þeir lögðu einnig, a.m.k. fulltrúi Kvennalistans, mikla áherslu á samráð við milliþinganefndina þegar frv. það var í samningu sem hér er til umræðu. Það samráð hefði sannarlega mátt vera meira og vil ég gagnrýna þann þátt þessa máls sérstaklega því að þótt haldnir hafi verið þrír fundir með milliþinganefndinni, eins og kemur fram í grg. með frv., og jafnvel eitthvað tekið til greina af athugasemdum hennar er það ekki þetta sem átt er við með samráði. Hér er um svo mikilvægt mál að ræða og flókið að mér er óskiljanlegt hvers vegna nefndin, sem samdi frv., nýtti sér ekki betur þá þekkingu og reynslu sem milliþinganefndin hefur aflað sér.

Mun ég nú skýra brtt. Kvennalistans, en raunar höfum við athugasemdir við fleiri atriði en þar koma fram sem e.t.v. hefði verið ástæða til að forma í brtt., en um þær verður væntanlega nánar fjallað í nefndunum. Mun ég reyndar víkja að nokkrum þeirra hér á eftir. En ég tel rétt að lýsa því strax yfir að ég fagna þessu frv. og vona að menn beri gæfu til að fjalla þannig um það á þeim skamma tíma sem menn hafa til þess starfs að takist að gera þetta þannig úr garði að það verði til góðs.

Brtt. sem ég flyt ásamt hv. þm. Guðrúnu Agnarsdóttur eru á þskj. 933 og mun ég nú snúa mér að því að skýra þær.

1. brtt. hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Við 3. gr. Aftan við b-lið nýrrar 13. gr. bætist: Þó skal umsækjandi eiga rétt á hámarksláni hafi hann aðeins nýtt 70% eða minna af lw8ánsrétti sínum við kaup á fyrri íbúð“.

Til skýringar vil ég segja þetta: Það er vissulega góðra gjalda vert að reyna að takmarka útlán við eðlilega þörf og þeir sem eiga íbúð fyrir þegar farið er út í húsnæðiskaup standa betur að vígi en þeir sem eru að kaupa í fyrsta sinn. Hins vegar er ósanngjarnt að þeir sem kaupa litla og væntanlega ódýra íbúð í fyrsta sinn og hafa þar af leiðandi ekki veð fyrir hámarksláni hafi þá skertan rétt í næsta sinn. Þessi takmörkun getur haft þau áhrif að hvetja fólk til að kaupa stærra í fyrsta sinn en það þarf í raun og veru, og e.t.v. stærra en það ræður við, til að missa ekki endanlegan rétt sinn til hámarksláns. Hér er m.ö.o. í rauninni um að ræða hugsanlega hvatningu til fólks um að reisa sér hinn margfræga hurðarás um öxl. En þetta ákvæði getur líka haft þau áhrif, sem ekki eru síður alvarleg, að þeir sem alls ekki hafa efni á að kaupa svo stóra íbúð í fyrsta sinn að hún standi undir veði fyrir hámarksláni festist endanlega í litlu ófullnægjandi íbúðinni því að þeir hafa fyrirgert rétti sínum til hámarksláns og hafa því ekki möguleika til að stækka við sig. Við leggjum mikla áherslu á að þetta atriði verði rætt og skoðað gaumgæfilega í nefndum þingsins og 3. gr. breytt svo sem við leggjum til til að koma í veg fyrir þetta misrétti.

2. brtt. okkar á þskj. 933 er við 4. gr. frv. og hljóðat svo, með leyfi forseta, er reyndar í tveimur liðum:

„a) Orðin „sem nemur 70% af lánum“ í 2. málsgr. og „sem nemur 70% af láni“ í 3. málsgr. nýrrar 14. gr. falli brott.

b) Fyrri málsliður 4. málsgr. orðist svo: Þó má lán, sem veitt er skv. þessari grein að viðbættum áhvílandi lánum, uppfærðum, úr Byggingarsjóði ríkisins, aldrei nema hærri fjárhæð en nýbyggingarlán er á hverjum tíma.“

Markmiðið með þessari tillögu er einfaldlega að lán til kaupa á nýjum og notuðum íbúðum verði jafnhá og er það í fyllsta samræmi við húsnýtingarstefnuna sem hæstv. félmrh. og aðrir stjórnarliðar, sem um húsnæðismál fjalla, hafa haldið mjög á loft. B-liður brtt. er samhljóða núgildandi lögum, en skv. þeim getur G-lán, það er lán vegna kaupa á eldri íbúð að viðbættum áhvílandi lánum úr Byggingarsjóði ríkisins, orðið jafnhátt nýbyggingarláni. Ef 4. gr. þess frv. sem hér er til umfjöllunar yrði óbreytt að lögum væri því um afturför að ræða og áfall fyrir margrómaða húsnýtingarstefnu. Menn skulu íhuga vandlega hvernig þetta yrði í framkvæmd.

Ég vil þá víkja að öðrum atriðum í þessu frv. Ég vil t.d. biðja menn að íhuga vandlega hvað ákvæði 2. gr. þýða fyrir lántakendur. Lánsréttur þeirra er algerlega háður því að viðkomandi lífeyrissjóður hafi keypt skuldabréf í nægilega miklum mæli. Réttur til lána úr byggingarsjóðum ríkisins getur m.ö.o. orðið minni eftir en áður. Þeir eiga auðvitað eftir sem áður hugsanlega möguleika á láni úr lífeyrissjóðum, en slík lán eru yfirleitt ekki á jafngóðum kjörum og lán byggingarsjóðanna þannig að lántakandi getur tapað á því. Hann getur þurft að taka lán á hærri vöxtum. Menn segja að þetta komi ekki til þar sem lífeyrissjóðirnir muni sjá sér hag í því að skipta við byggingarsjóðina vegna vaxtamunar, en þetta þarf að skoða vel með hag allra í huga því að þetta veldur mörgum óvissu og óróleika.

Næst skulum við líta á 5. málsgr. 2. gr. frv. Þar stendur, með leyfi forseta:

„Lánsréttur hjóna og sambýlisfólks miðast við meðaltal lánsréttar þeirra.“

Í athugasemdum á bls. 23 í frv., þar sem fjallað er um þetta, stendur þetta, með leyfi forseta:

„Um hjón og sambýlisfólk er lagt til að miðað sé við meðaltal lánsréttar þeirra. Hér gæti komið upp sú staða, ef einhverjir lífeyrissjóðir kaupa skuldabréf fyrir minna en 55% af ráðstöfunarfé, að annar makinn eigi betri rétt en hjónin saman. Þetta er ágalli, en á hinn bóginn þykir ekki fært að slaka á í þessu efni þar sem þá væri jafnframt dregið mjög úr þeirri hvatningu, sem í þessu felst, að lífeyrissjóðirnir geri allir samninga um þau skuldabréfakaup sem tryggja sjóðfélögum þeirra hámarkslánsrétt.“

Undir þetta viljum við taka og biðjum nefndarmenn, sem um þetta fjalla, að íhuga vandlega hvort ekki sé rétt að gera breytingu á 5. málsgr. 2. gr. sem gæti hljóðað svo: Sæki tveir eða fleiri einstaklingar um lán til sömu íbúðar skal fjárhæð lánsins miðast við lánsrétt þess þeirra sem er hagstæðastur.

Ég treysti því að vel verði fjallað um þetta atriði og rækilega. Þessi breyting, sem ég orðaði hér hugmynd að, væri að mínu mati til bóta og ég veit að hún kom til greina við samningu frv. því að ég er ekki fyrsta manneskjan sem vek athygli á þessu. Ég sé enga ástæðu til að refsa fólki fyrir hjúskap eða sambúð eins og segja má að verið sé að gera ef 4. málsgr. er látin halda sér eins og hún er í frv.

Þá vil ég víkja að 22. gr. frv. sem hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Lög þessi öðlast gildi 1. sept. 1986. Á tímabilinu september til desember 1986 skal lánsréttur einstaklinga ráðast af því hve háu hlutfalli af ráðstöfunarfé sínu á árinu 1986 lífeyrissjóðir þeirra verja til kaupa á skuldabréfum Húsnæðisstofnunar.“

Mér er ekki ljóst hvort menn hafa almennt gert sér grein fyrir þýðingu þessa ákvæðis. Það þýðir í raun að réttur fólks til hámarksláns nýtist fæstum á þessu ári vegna þess að sárafáir lífeyrissjóðir geta uppfyllt skilyrðin um hæsta hlutfall af ráðstöfunarfé sem veitir lífeyrissjóðsþegum rétt til hámarksláns. Ástæðan er sú að lífeyrissjóðirnir eru margir þegar búnir að ráðstafa fé sínu annað en til kaupa á skuldabréfum Húsnæðisstofnunar.

Í umfjöllun um þessi mál síðustu vikurnar hafa verið kveiktar falskar vonir hjá fólki að mínu mati. Menn trúa því almennt að eftir 1. sept. n.k. eigi þeir rétt á hámarksláni að upphæð 2,1 millj. kr. Það er vitanlega ekki tilfellið af þeim orsökum sem ég tilgreindi hér áðan. Margir lífeyrissjóðanna eru þegar búnir að ráðstafa svo miklu af sínu fé að þeir geta ekki náð því hlutfalli í skuldabréfakaupum sem er skilyrði fyrir því að viðkomandi sjóðfélagi fái hámarkslán. Þeir sem fyrir þessu verða geta jafnvel lent í því að lánsréttur þeirra tryggi þeim lægri lánsupphæð á þessu ári eftir samþykkt þessa frv. en núgildandi lög veita. Það er ekki fyrr en eftir næstu áramót sem þessi lög mundu skila tilætluðum árangri. Þetta verða menn að gera sér ljóst. Þetta má ekki fela og vekja með mönnum falskar vonir. Nóg er nú samt í þeim efnum.

Ég vil nú víkja örfáum orðum að fjármögnun þess lánakerfis sem við erum hér að fjalla um. Um þetta atriði er töluverður kafli í athugasemdum með frv. og þar koma fram mörg íhugunarverð atriði. Ég ætla ekki að tefja tímann með því að lesa það allt saman upp, enda hefur hæstv. félmrh. vitnað mjög rækilega í þá grg., en hvet hv. þm. til að kynna sér rækilega það sem þar stendur.

Á bls. 16 vil ég þó taka út úr eitt atriði, það er neðst á blaðsíðunni, töluliður 4, og ég bið forseta leyfis um að mega vitna í þann lið. Þar stendur:

„Þeir útreikningar, sem gerðir hafa verið á vegum nefndarinnar sem vann að máli þessu, benda til að verði mismunurinn á vöxtum af teknum lánum og veittum hjá Byggingarsjóði ríkisins meiri en 2-3% til lengdar muni lánakerfið sligast. Þannig sýna dæmi, sem tekin hafa verið um 5-6% vaxtamun til langs tíma, að slík niðurgreiðsla krefðist sífellt meiri ríkisframlaga og lántöku hjá lífeyrissjóðunum. Þetta gæti aðeins staðið mjög skamma hríð og hlyti að kalla á gagngera endurskoðun þessara mála og breytingu á lögum.“

Herra forseti. Hér er dregið fram algert meginatriði hvað varðar fjármögnun húsnæðislánakerfisins. Vaxtalækkun er forsenda fyrir því að þetta lánakerfi fái staðist.

Ég vil svo, herra forseti, víkja að samkomulagi því sem þetta frv. byggist á, þ.e. samkomulagi Alþýðusambandsins, Vinnuveitendasambandsins og Verkamannasambandsins við ríkið. Hæstv. félmrh. minntist á nokkra liði þessa samkomulags hér áðan, en hann sleppti 4. lið sem ég vil taka hér til umræðu. Ég ætla aðeins að lesa eina setningu úr þeim lið sem hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Fé Byggingarsjóðs verkamanna verði aukið um 200 millj. á árinu 1986.“

Mér vitanlega hefur ekkert enn þá frést af því hvernig eigi að standa við þetta. Því spyr ég hæstv. félmrh. og hefði kannske verið ástæða til að leita eftir svari hæstv. fjmrh. líka en hann virðist ekki vera hér viðstaddur:

Verður þetta leyst með aukafjárveitingu úr ríkissjóði eða með heimild til lántöku?

Nú má raunar vera að hæstv. félmrh. hafi komið að þessu í upphafi máls síns. Það voru einir tveir eða þrír fundir í gangi í kringum sæti mitt þegar hann hóf mál sitt og ég heyrði varla aukatekið orð af því sem hæstv. ráðh. sagði. En ég spyr að þessu ekki síst vegna þess að verði það síðarnefnda ofan á, þ.e. að aukin verði heimild Byggingarsjóðs verkamanna til lántöku á þessu ári, kallar það á frv. til breytinga á lánsfjárlögum og hlýtur að þurfa að ganga frá því fyrir þinglok. Því verður naumast trúað að fulltrúar ríkisins hafi ekki gert sér grein fyrir þessu atriði og tekið ákvörðun um hvernig eigi að standa að lausn þess. Ég óska eindregið eftir svari hæstv. ráðh. við spurningu minni. Hafi hann komið inn á þetta áðan er mér til efs að nokkur hafi heyrt það, slík ókyrrð sem var í salnum þegar hann hóf mál sitt.

Ég vil svo að lokum nota þetta tækifæri til að minna hæstv. félmrh. á fsp. hv. þm. Guðrúnar Agnarsdóttur á þskj. 681 um eignatap íbúðakaupenda og húsbyggjenda vegna misgengis launa og lánskjara. Þessi fsp. var lögð fram 25. mars s.l. og óskað eftir skriflegu svari. Við leggjum mjög mikla áherslu á að þetta svar fáist og ég vil spyrja hæstv. ráðh. hvort ekki sé ætlunin að svara þessari fsp. fyrir þinglok.