18.04.1986
Neðri deild: 87. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 4180 í B-deild Alþingistíðinda. (3841)

442. mál, Húsnæðisstofnun ríkisins

Halldór Blöndal:

Herra forseti. Það frv. sem hér liggur fyrir er tímanna tákn. Það er dæmi um það gagnkvæma traust sem myndast hefur milli aðila vinnumarkaðarins og ríkisstj. og sýnir að aðilar vinnumarkaðarins eru í raun þeirrar skoðunar að þær áherslur sem ríkisstj. hefur lagt í efnahags- og atvinnumálum eru réttar. Að öðrum kosti, ef þetta væri ekki svo, væri auðvitað óhugsandi að frv. af þessu tagi hefði verið lagt fram. Ég vek athygli á því að hér hefur með frjálsum samningum tekist að fá aðila vinnumarkaðarins til að leggja mjög verulegt fé, óhemju mikið fé úr sjóðum sínum til að leysa úr þeim sameiginlegu þörfum sem húsnæðismálin eru.

Ég skal ekki við þetta tækifæri fara mörgum orðum um þann þátt málsins. Ég vil hins vegar vegna síðustu orða hv. 3. þm. Reykv. aðeins segja að í tíð ríkisstjórnar Ólafs Jóhannessonar, 1971-1974, þvarr fé Byggingarsjóðs ríkisins og Byggingarsjóðs verkamanna vegna þeirrar ákvörðunar þáv. húsnæðisráðherra að setja þak á verðbætur eða vexti af hverju láni sem olli því að fé byggingarsjóðanna brann upp í óðaverðbólgu. Af því höfum við síðan sopið seyðið og svo var komið um skeið að gripið var til þess að taka erlend lán til að fjármagna íbúðarhúsabyggingar. Nú hefur til allrar hamingju tekist víðtækt samkomulag, bæði á vinnumarkaðinum og einnig pólitískt vil ég segja, um að sjóðir launþega verði notaðir til þessara þarfa þannig að ekki þurfi til þess að koma að við förum að nota erlent lánsfé í þessu skyni. Ég vil í þessu samhengi einnig minna á að fyrir einu ári tókst samkomulag um það hér á Alþingi að lagður skyldi á sérstakur skattauki vegna húsnæðismálanna til að draga úr nauðsyn þess og komast hjá því að erlent fé yrði tekið að láni til húsnæðismála. Undir slíkum kringumstæðum var meira en réttlætanlegt, það var blátt áfram nauðsynlegt að þyngja skattbyrðina til að ná þessu fram.

Það sem mér finnst jákvæðast í sambandi við þetta samkomulag er að grunntónninn í samkomulaginu er sá að launþegar, sem flestir Íslendingar skuli vera sjálfs sín herrar, skuli gefið tækifæri til þess að eignast sitt eigið húsnæði, sína íbúð. Það er enginn vafi á að það hefur mjög mikla þýðingu, bæði menningarlega þýðingu, það eykur sjálfsbjargarhvöt og er mjög sparandi, veldur miklum sparnaði, ef fólkið býr í sínum eigin íbúðum og ber ábyrgð á því hvernig það gengur um íbúðir sínar og hefur forsjá þeirra að öllu leyti í sínum höndum. Það er sparnaður fyrir þjóðfélagið í heild, það dregur úr sameiginlegum útgjöldum og hvetur einstaklingana til dáða.

Það er auðvitað mjög ánægjulegt að þetta víðtæka samkomulag skyldi hafa tekist á þessum grundvelli og á að geta orðið til þess að úr deilum um húsnæðismál dragi og að umræður um húsnæðismál verði á öðrum grunni á næstu misserum en verið hefur um skeið.

Eins og hér hefur verið rakið er gert ráð fyrir að hámarkslán sé 2,1 millj. og ég held að það sé óhætt að ganga út frá því að þeir sem eru að kaupa eða byggja sína fyrstu íbúð muni njóta þessarar fyrirgreiðslu. Ég held að sá ótti sé algjörlega ástæðulaus að lífeyrissjóðirnir muni ekki kaupa skuldabréf fyrir 55% af ráðstöfunarfé sínu. Ég held að allir lífeyrissjóðirnir muni gera það, einfaldlega vegna þess að þeir sem þeim ráða sækja völd sín til sjóðfélaganna og þeir munu ekki treysta sér til annars.

Ég held á hinn bóginn að þær varúðarreglur sem settar eru í 2. gr. séu mjög skiljanlegar og má vera að þær séu nauðsynlegar til þess að það markmið náist fram, 55% kaup án lagaþvingunar af einum eða öðrum toga.

Þá er það mikilvægt í öðru lagi að upplýsingar um hversu há lánsfjárhæð sé og hvenær greiðsla lánsins liggi fyrir skuli sendar umsækjanda innan tveggja mánaða frá því að hann sótti um lánin. Þetta er auðvitað mjög mikils virði og á að geta nýst viðkomandi með margvíslegum hætti þannig að hann geti hagað framkvæmdum sínum í samræmi við þessar upplýsingar, fengið með þeim hætti staðgreiðsluafslætti bæði á byggingarefni og jafnvel á vinnu. Það styrkir enn fremur þá skoðun að svo muni verða að lánshlutarnir verða verðtryggðir sem ekki hefur verið. Þétta er auðvitað mjög þýðingarmikið ákvæði. Jafnvel þótt verðbólgan hafi rýrnað svo mjög sem raun ber vitni er þetta ákvæði auðvitað mjög þýðingarmikið og breytir mjög miklu um efnahagslegar ástæður þeirra sem eru að eignast íbúð.

Ég vek athygli á því að 8. mgr. 2. gr. hljóðar svo: „Hafi húsnæðismálastjórn gert samning við lánastofnun um afgreiðslu lána skv. 10. gr. skal lántakanda gefinn kostur á að lánssamningur, afgreiðsla og útborgun lánsins verði á vegum viðkomandi lánastofnunar sem þá annast mat kostnaðar- og greiðsluáætlana.“

Þetta ákvæði er mjög þýðingarmikið og á að geta orðið til þess að auðvelda húsbyggjendum og húskaupendum að komast yfir íbúðir.

Ég heyrði á hv. 3. þm. Reykv. Svavari Gestssyni að hann var þeirrar skoðunar að verkamannabústaðir ættu að gera miklu meira af því en verið hefur um hríð að kaupa gamlar íbúðir, notaðar íbúðir. Þetta virðist vera augljóst, en á því er þó sá hængur að það gæti orðið til þess að hækka íbúðarverð mjög verulega og gæti torveldað möguleika annarra til þess að komast yfir notaðar íbúðir á hagstæðu verði. Við megum ekki gleyma því að notaðar íbúðir eiga eðli sínu samkvæmt að vera ódýrari en nýjar og ég held að menn verði að gæta hófs í þessu og verkamannabústaðirnir megi ekki a.m.k. gera of mikið af því heldur verði að halda uppi þeim standard að byggja einnig nýjar íbúðir. Á hinn bóginn er ég ekki í vafa um að nauðsynlegt er að endurskoða verkamannabústaðakerfið frá grunni. Það sést best af því að rúmmetrar í verkamannabústöðum eru mjög misdýrir eftir því hvar byggt er. Mismunandi verð íbúða í verkamannabústöðum er geigvænlegt. Ég man ekki betur um íbúðir í verkamannabústöðum á Húsavík og Akureyri en þar hafi munurinn verið 50% eða þriðjungur eftir því frá hvorum enda reiknað er, en það er náttúrlega allt of mikill munur og nauðsynlegt að aðhaldið í sambandi við verkamannabústaði sé miklu meira en verið hefur. Ég hef raunar oft hreyft þeirri hugmynd hvort ekki sé rétt að stjórnir verkamannabústaða bjóði út hugmyndir að slíkum byggingum, hvernig hægt væri að byggja ódýrar en smekklegar íbúðir sem mundu þjóna að þessu leyti.

Ég skal ekki, herra forseti, hafa miklu fleiri orð. Ég álít þetta frv. vera mikið framfaraspor. Ég álít þetta mjög merkilegt plagg. Það eru að sjálfsögðu ýmis atriði í því sem eru álitamál. Við höfum á þessum fundum, sem við höfum átt í milliþinganefndinni, skipst á skoðunum við aðila vinnumarkaðarins og nefnd forsrh. á þeim samráðsfundum sem við höfum verið á. Þessir fundir hafa verið mjög gagnlegir og þeir hafa skýrt margt það sem hér stendur. Ég held á hinn bóginn að við getum ekki vænst þess að þingið geti breytt grunni þessa frv. eða hlaupið allt aðrar leiðir en hér er gert ráð fyrir og ég held þess vegna að þm. verði að gera það upp við sig hvort þeir geti fallist á þetta frv. eins og það liggur fyrir í grundvallaratriðum.

Ég ætla ekki á þessum kvöldfundi að hefja almennar búsnæðismálaumræður við hv. 3. þm. Reykv. Ég get aðeins sagt að það er ekki undarlegt þótt margir eigi í erfiðleikum sem byggðu á síðustu árum áður en þessi ríkisstj. tók við völdum. Við vitum að óðaverðbólgan var slík að lánshlutarnir, sem menn fengu greidda eftir á, urðu svo sem að engu þannig að um skeið voru lán Byggingarsjóðs ríkisins komin niður í 10 eða 11% af verði staðalíbúðar þegar verðbólga var tekin inn í dæmið. Erfiðleikarnir voru slíkir að strax haustið eftir að þessi ríkisstj. tók við völdum var tekin ákvörðun um að greiða 50% lánsuppbót á öll lán sem Byggingarsjóður ríkisins hafði veitt síðustu 2-3 árin og síðan hefur verið lagt fé til hliðar á hverju ári til að mæta þeim sem eiga í mestum erfiðleikum vegna húsnæðismála.

Þetta frv. gerir ráð fyrir að enn verði 300 millj. varið í þessu skyni þannig að á þessu ári verði 50 millj. kr. varið til að reyna að laga til hjá þeim sem í mestum erfiðleikum eru jafnframt því sem sú breyting var gerð á skattalögum um áramótin að þessi „konverteruðu“ lán, þessi lengri lán var heimilt að taka inn sem kaupalán eða sem byggingarlán vegna þeirra íbúða eða húsa sem höfðu verið keypt eða byggð frá árinu 1979, skammtímalán sem höfðu dottið upp fyrir miðað við vaxtafrádrátt skattalaga. Þetta mun líka laga mjög mikið til hjá mörgum og það var með vilja að miðað var við átta ára lán í tekjuskattslögunum vegna þess að með því er verið að þvinga lánastofnanir til að lengja lánin ekki til skemmri tíma en átta ára. Þetta var auðvitað mjög mikið hagræði, munar kannske ekki miklu enn, en strax og sá aukni vaxtafrádráttur, sem þessi breyting hefur í för með sér, mun fara að skila sér í framtölum og minni sköttum mun það auðvitað lækka greiðslubyrði þessa fólks verulega.

En aðalatriðið er auðvitað að þetta frv. eins og það er byggt upp lækkar greiðslubyrði til húsnæðislánanna til frambúðar þannig að menn með meðaltekjur eiga að geta eignast íbúð án verulegra erfiðleika og þá kemur þar m.a. inn í myndina að lánin eru afborgunarlaus fyrstu tvö árin sem viðkomandi geta þá notað til að greiða skammtímaskuldir og laga til hjá sér.

Ég skal ekki hafa þessi orð fleiri, herra forseti, en vænti þess að þm. muni taka höndum saman um að greiða fyrir því að þetta mál nái fram að ganga.