18.04.1986
Neðri deild: 87. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 4183 í B-deild Alþingistíðinda. (3842)

442. mál, Húsnæðisstofnun ríkisins

Jón Baldvin Hannibalsson:

Herra forseti. Þetta frv., sem hér liggur fyrir og sætir vissulega nokkrum tíðindum, er einn mikilvægasti árangur síðustu kjarasamninga. Þeir kjarasamningar eru nokkuð umdeildir, en kannske ætti þetta frv. að nýrri lausn á húsnæðisvandanum að verða til þess m.a. að sýna þeim sem hvað harðast hafa gagnrýnt kjarasamningana að sú gagnrýni var ekki ýkja rökrétt.

Verkalýðshreyfingin ákvað við erfið skilyrði að láta á það reyna hvort hún gæti náð auknum kaupmætti fyrir sitt fólk í smáum skrefum án kollsteypu, þ.e. að sá takmarkaði ávinningur sem náðist héldist. Þetta var gert með niðurfærsluleið og það hefur m.a. gleymst í þessari umræðu að sá árangur sem þar með náðist til þess að lækka verðbólgu að frumkvæði aðila vinnumarkaðarins er ekki hvað síst þýðingarmikill fyrir þær fjölskyldur í landinu sem höfðu þunga skuldabyrði, ekki hvað síst af húsnæðislánum. Lækkun lánskjaravísitölu, lækkun greiðslubyrði af skuldum sem fyrsta skref fyrir utan þetta frv. í húsnæðismálum var ekki minnsti ávinningurinn. Menn beri það saman hvaða árangur menn gætu gert sér vonir um ef farin hefði verið hefðbundin kollsteypuleið með mun hærri prósentutölu launa yfir alla línuna og þar með gífurlega aukna verðbólgu, þar með gífurlega hækkun lánskjaravísitölu, þar með gífurlega hækkun á greiðslubyrði þeirra fjölskyldna sem verst eru settar vegna þess að þær hafa tekið á sig miklar fjárhagsskuldbindingar vegna þeirra frumþarfa fjölskyldunnar að koma sér upp þaki yfir höfuðið.

Það er óþarfi að setja hér á eldhúsdag út af fyrir sig um það við hvaða aðstæður verkalýðshreyfingin greip til þessara ráða. Ég get tekið undir það með hv. 3. þm. Reykv., sem byrjaði ræðu sína á að þylja upp nýjar upplýsingar um nauðungaruppboð, hvernig hópur fólks hefur lent í þeirri ólýsanlegu ógæfu að missa eigur sínar á uppboðum á spottprís vegna krafna sem voru trúlega komnar langt umfram endursöluverð eigna, alla vega tvisvar til þrisvar sinnum umfram raunverulegt söluverð á uppboðum.

Við þurfum ekki að deila um hvaðan frumkvæðið að þessum málum er komið, hvorki að því er varðar þessa lausn húsnæðisvandans né heldur varðandi þá leið sem farin var í kjarasamningunum og leiddi til þess að ríkisstj., sem þá stóð frammi fyrir 35-40% verðbólgu, gífurlegum viðskiptahalla og gífurlegum halla á ríkisfjármálum ásamt með því ástandi sem við blasti í húsnæðismálum, var neydd til að taka upp nýja stefnu þó að veikleiki málsins sé auðvitað fyrst og fremst byggður á hinum veika grunni sem ríkisfjármálin standa á. Vonir manna um árangur eru hvað veikastar í því efni.

Það sem þetta frv. felur í sér og eru stærstu þættir þess og fagnaðarefni er ósköp einfaldlega þetta: Það er verið að verja meiri fjármunum til húsnæðismálanna, það er verið að hækka lánshlutfallið miðað við byggingarkostnað og þar með er verið að stuðla að lægri greiðslubyrði fyrir utan þann árangur sem náðst hefur í því efni með minnkun verðbólgunnar. Þar með ætti að vera minni þörf fyrir húsbyggjendur eða íbúðakaupendur að leysa vanda sinn með rándýrum skammtímalánum í bankakerfinu þannig að þetta er tvímælalaust helsti ávinningurinn.

Engu að síður er það svo og ég held að þessar umræður hafi leitt það í ljós að þessi lagasmíð er ekki fullkomin. Margir hv. þm., sem hér hafa talað á undan mér, hafa tíundað þau atriði sem þingið í meðferð nefnda þarf að einbeita sér að. Ég vil drepa þar á nokkur meginatriði sem þarf að halda til skila í því efni.

Fyrst er á það að líta að þessi lausn felur í sér að sameina fjármagn lífeyrissjóðanna og ríkisframlag í gegnum Byggingarsjóð ríkisins og Byggingarsjóð verkamanna. Þær brúttótölur sem nefndar hafa verið hér um aukningu á fjármagni til ráðstöfunar til húsnæðislána eru hins vegar ýktar vegna þess að ekki hafa komið fram tölulegar upplýsingar um hve mikill samdráttur verður í beinum fjárveitingum lífeyrissjóðanna til sinna félagsmanna þar á móti. Nefnd hefur verið talan 400- 500 millj. sem þessi nettóaukning gæti orðið við sameiningu á fjármagni lífeyrissjóða og byggingarsjóðanna.

Ég nefndi áðan sem annað meginatriði lægri greiðslubyrði vegna hækkunar lánshlutfalls og lengingar lánstíma. Samt sem áður skulu menn hafa í huga að eftir sem áður verða íbúðakaupendur eða þeir sem byggja að leggja fram eigið fé allt að 30% byggingarkostnaðar, eins og nefnt var t.d. allt að 700 þús. kr. venjulegrar íbúðar með byggingarkostnað upp á 2,3 millj. sem er lágur. Það hefur komið fram í þessum umræðum að svo mikið framlag eigin fjár eða útborgunar er ofviða mörgum hópum í þessu þjóðfélagi. Hér voru t.d. nefnd dæmi um að fólki hefur reynst ofviða að standa undir framlagi jafnvel 20 eða 15% hlutar í verkamannabústöðum, hvað þá heldur þegar hlutfallið er tvisvar sinnum hærra. Þetta þýðir að ef við viljum að þetta aukna fjármagn nýtist sem best þeim sem minnst hafa efnin hljótum við að huga að breytingum til að auðvelda þeim nýtingu á þessum bættu kjörum og þar koma þá fyrst og fremst upp í hugann þær tillögur sem víð Alþýðuflokksmenn höfum flutt í formi kaupleiguíbúða. Reyndar árétta ég það, sem við höfum þegar boðað, að við munum við meðferð málsins flytja brtt. um að tryggja lagaheimildir fyrir kaupleiguforminu, ekki hvað síst vegna þess að þar er verið að tryggja mannsæmandi kjör fyrir þann hóp sem ekki ræður við of hátt útborgunarhlutfall eigin fjár til að byrja með.

Eitt atriði vil ég nefna enn og það varðar greiðsluerfiðleika þeirra sem hafa verið að byggja eða kaupa á undanförnum árum. Í samkomulagi aðila vinnumarkaðarins voru gefin ákveðin fyrirheit um lausn á þeim málum. Það byggðist fyrst og fremst á því að verja ákveðinni upphæð, 300 millj. kr., til þess arna. Þar var gefið fyrirheit um húsnæðisafslátt og þar var gefið fyrirheit um að ríkisstj. beitti sér fyrir skuldbreytingum og lánalengingu í bankakerfinu. Í því efni var talað um að því er varðar ráðgjafarþjónustuna að hún yrði efld þannig að afgreiðslu allra umsókna væri lokið innan tveggja mánaða. Þetta er út af fyrir sig gott og blessað, en ef við lítum á frv. er það í fyrsta lagi að þar skortir á að þessi húsnæðisafsláttur hafi verið skilgreindur og tryggður í lögum. Þar er óunnið starf.

Síðan er spurningin um nýtinguna á þessum fjármunum. Í því efni vil ég ósköp einfaldlega leggja á það áherslu að við teljum að þessi lausn sé ekki nægjanleg. Í þeim efnum vísa ég til till. sem hv. þm. Kjartan Jóhannsson er 1. flm. að og felur í sér aðra og haldbetri lausn að því er varðar vanda þessa fólks. Sú till. byggist á því að viðurkenna ósköp einfaldlega að endurgreiða beri ákveðinn hluta af kostnaði við öflun íbúðarhúsnæðis til þessara aðila sem urðu fyrir mikilli hækkun skulda af íbúðaröflun vegna aðstæðna sem ekki voru á valdi þeirra. Grundvallaratriðið verði að miða við hækkun skulda umfram launaþróun á þessu tímabili og að miðað sé við endurgreiðslu helmings upp að ákveðinni hámarksviðmiðun. Þessu fé verði varið til að greiða upp vanskil, lækka skammtímaskuldir og svo að lokum langtímaskuldir og þá í þessari forgangsröð.

Ég geng út frá því sem gefnu, t.d. miðað við málflutning hv. 3. þm. Reykv. sem nefndi dæmi um uppboð á eignum manna og dæmi um hvernig menn hafa beinlínis misst eigur sínar á þessu tímabili, að í þeim orðum hans felist stuðningur við að hér þurfi að gera betur.

Að því er varðar vaxtamuninn ætla ég ekki að eyða í það mörgum orðum. Ef við gefum okkur gildandi forsendur um hversu gríðarlega mikill hann er, framreiknum hann ósköp einfaldlega, fáum við stjarnfræðilegar tölur. Auðvitað stenst kerfið ekki á þeim forsendum. Þess vegna vil ég aðeins árétta þá fsp. sem hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir beindi til fjmrh. Hún var fyrst og fremst um það hvort fjmrh. væri reiðubúinn að lýsa því yfir við þessar umræður að hann væri reiðubúinn til samninga við lífeyrissjóðina um lægri vexti af hálfu ríkisins með þeim afleiðingum sem það hefur þá einnig á stöðu ríkissjóðs á lánamarkaði. Þetta er fyrst og fremst spurning sem lýtur að því hvað gera megi ráð fyrir að gerist í vaxtamálunum til skamms tíma þegar á þessu ári, burtséð frá því hver verða áhrifin af aukinni sjóðmyndun lífeyrissjóða hugsanlega til lækkunar vaxta þegar til lengri tíma er litið.

Þá vil ég nefna enn eitt atriði sem ég tel þýðingarmikið að fjallað verði um, en það varðar stærðarmörk íbúða. Hér voru nefndar tölur um að í reynd byrji lánsrétturinn ekki að skerðast fyrr en við 270 m2 ef miðað er við þær reglur sem Fasteignamat ríkisins gefur sér um mælingu að utanmáli. Hér var vitnað til upplýsinga vegna skýrslna frá Fasteignamatinu eða nefndar sem félmrn. skipaði áður, hrikalegar tölur um lélega nýtingu á takmörkuðu fé til húsnæðismála sem ég hirði ekki um að endurtaka, en ég legg á það mikla áherslu að í meðförum nefndar leitist menn við að tryggja að húsnýtingarstefna eða nýting á þessu fjármagni verði tryggð með því að sett verði þrengri mörk að því er varðar lán með niðurgreiddum kjörum en hér er um að ræða.

Þá vil ég nefna eitt atriði sem ekki hefur komið fram í þessum umræðum en varðar áform ýmissa sveitarfélaga að því er varðar byggingu þjónustuíbúða aldraðra. Í 3. gr. þessara laga, sem er um breytingar á 13. gr., er ákvæði sem hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Lán skv. þessari grein er einnig heimilt að veita þeim sem byggja sérhannaðar söluíbúðir fyrir aldraða eða leiguíbúðir fyrir almennan markað. Þegar slíkir aðilar eiga í hlut skal lánsfjárhæð miðast við lágmarksrétt.“

Þetta ber að skoða í samhengi við lagaheimildir um Byggingarsjóð verkamanna, hina umdeildu grein um hámarkslánveitingar til félaga sem hyggjast byggja leiguíbúðir. En það sem mig langar til að vekja athygli á af þessu tilefni er þetta: Við skulum segja að sveitarfélög hafi uppi áform um að byggja þjónustuíbúðir fyrir aldraða með tvenns konar móti, annars vegar til leigu og svo hins vegar með nýjum hætti, þ.e. eins konar búseturéttarbúðir sem byggjast á því að aldraðir í eigin húsnæði eygja kannske í þessu nýja kerfi von um að geta selt tiltölulega stórar eignir og dýrar og vilja eða eiga þess kost að leggja við skulum segja andvirði fyrstu útborgunar, ef hún væri að hámarki eins og hér er 2,1 millj., inn á verðtryggða bankareikninga. Ef bankarnir síðan skuldbyndu sig til gagnvart sveitarfélögum að fjármagna byggingu slíkra þjónustuíbúða, sem væru ekki til varanlegrar eignar hinna öldruðu heldur tryggðu þeim búseturétt meðan líf entist eða áhugi er á, væri þetta því aðeins gerlegt í fyrsta lagi að tryggð séu full lánsréttindi til slíkra íbúða hvort heldur það er að frumkvæði sveitarfélaganna beint eða félagasamtaka. Þannig er ekki ljóst við fljótan yfirlestur á þessari grein hvort þessi hugmynd er framkvæmanleg nema með breytingum á þessum lagatexta. Ég vek í þessu efni sérstaklega athygli á tillögum sem eru í meðferð t.d. bæjarstjórnar Kópavogs í þessu efni og fjalla um að byggja slíkar þjónustuíbúðir og gera það með tvennum hætti. Annars vegar er um það að ræða að aldraðir tryggi sér þennan rétt með því að leggja fram upphæð sem gæti samsvarað næstum því, og þó ekki að öllu leyti, byggingarkostnaði slíkrar lítillar íbúðar sem væri ávöxtuð á verðtryggðum reikningum í bankakerfi. Bankar hins vegar efndu til samvinnu við sveitarfélög eða félagasamtök um fjármögnun bygginganna. Þetta er að því leyti óvenjulegt að hér er ekki um að ræða einfaldan eignarrétt heldur umráðarétt á þessu tímabili. En frumforsenda þess að þessi fjármögnunarleið, sem reynd hefur verið í ýmsum öðrum löndum, takist er sú að um fullan lánsrétt sé að ræða.

Herra forseti. Ég ætla ekki að hafa þessi orð miklu fleiri. Þessi atriði, sem varða greiðslubyrðina, tillögugerð um að fá lagaheimild fyrir lánsforminu sem við kennum við kaupleiguíbúðir og við höfum þegar kynnt hér á Alþingi, breyttar lagaheimildir að því er varðar það að koma til móts við þann hóp sem lent hefur í mestum greiðsluerfiðleikum á undanförnum árum, skýrari ákvæði til þess að tryggja góða nýtingu á þessu aukna fjármagni með því að hafa stærðarmörk íbúða takmarkaðri en hér er gert ráð fyrir, sem og þetta atriði sem ég talaði um síðast, sem ætti að tryggja aðilum frekar örari uppbyggingu á þjónustuíbúðum aldraðra, eru atriði sem ég legg áherslu á að fái umfjöllun í meðferð nefndanna.

Að öðru leyti vil ég, herra forseti, vísa til þeirra ítarlegu spurninga sem fram komu í ræðu hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur og hún beindi til fjmrh. að því er varðaði vaxtapólitíkina og síðan til félmrh. varðandi mörg önnur atriði svo sem eins og rétt þeirra sem eru í hlutastarfi á vinnumarkaði, um afleiðingarnar af reglunni um meðaltal lánsréttar þeirra sem eru aðilar í tveimur ólíkum sjóðum, hvaða áhrif það hefur ef menn flytjast milli sjóða og fara úr sjóði, sem hafði kannske full réttindi, í annan lakari. Það væri slæm niðurstaða ef tilviljanir af slíku tagi gætu haft ófyrirséðar afleiðingar fyrir fólk. Þá var einnig spurt þar um stærðarmörkin og ég vil leggja áherslu á spurninguna um hvað hafi verið gert nú þegar til að standa við ákvæði samkomulagsins frá 26. febr., þ.e. samkomulag aðila vinnumarkaðarins um skuldbreytingu í bankakerfinu fyrir þá sem eru í alvarlegum greiðsluerfiðleikum. Sem og væri mjög fróðlegt ef hæstv. félmrh. vildi í ræðu sinni á eftir lýsa nánar afstöðu sinni til þess hvort ekki væri ástæða til að gera sérstakar ráðstafanir nú þegar við endurskoðun húsnæðislaganna til þess að tryggja betur fjárhagsgrundvöll hins félagslega kerfis og þá sér í lagi hver afstaða hans er til þeirra hugmynda sem við höfum kynnt um kaupleigukjör í hinu félagslega kerfi.

Þá er ástæða til þess að spyrjast enn fyrir um fyrirheitið úr samkomulaginu um 200 millj. kr. viðbótarframlag til Byggingarsjóðs verkamanna. Hvernig er fyrir því séð?