06.11.1985
Neðri deild: 13. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 448 í B-deild Alþingistíðinda. (386)

28. mál, skattafrádráttur fyrir fiskvinnslufólk

Flm. (Sighvatur Björgvinsson):

Herra forseti. Ég vil byrja á því að þakka þeim hv. þm. Jóni Baldvini Hannibalssyni og Garðari Sigurðssyni fyrir þann stuðning sem komið hefur fram í þeirra máli við frv. Auðvitað er alveg laukrétt, eins og hv. þm. Jón Baldvin Hannibalsson benti á áðan, að það hefur lengi verið stefna og skoðun okkar Alþýðuflokksmanna og raunar fleiri í þinginu að tekjuskattakerfið gegndi ekki lengur upphaflegum tilgangi sínum sem tæki til tekjujöfnunar, heldur jafnvel þvert á móti, þannig að sú röksemd fyrir tekjuskattakerfinu að nota það til þess að jafna tekjur fólks stenst ekki lengur.

Það er einnig rétt hjá hv. þm. að menn hafa í sívaxandi mæli komist á þá skoðun að tilraunir til þess að lappa upp á þetta kerfi og leiðrétta það og reyna að stoppa í götin hafa ekki skilað árangri svo að æskilegast væri að taka þá ákvörðun að leggja þetta kerfi alfarið niður en nota fjölmörg önnur tækifæri sem bjóðast til þess að jafna lífskjörin í landinu, tækifæri sem eru miklu líklegri til að skila árangri en tekjuskattakerfið.

Það liggur líka fyrir hvert er álit okkar Alþýðuflokksmanna á því hvaða grundvallarkerfisbreytingar við verðum að gera í skattamálunum. En á meðan þær hafa ekki verið gerðar verða menn að sjálfsögðu að lifa við óbreytt kerfi hversu gallað sem mönnum sýnist það svo vera.

Í þessu sambandi rekur mig minni til sögu, sem Jón heitinn Baldvinsson sagði oft á þingum Alþfl., frá því þegar hann vann við það að setja bækur. Þá sagði hann frá því og notaði oft þá sögu að eitt sinn hafi hann verið að setja matreiðslubók sem var fyrir heldri manna húsfreyjur. Þar hefði verið getið sérstaklega um það að taka ætti þetta og þetta margar silfurskeiðar af hveiti eða sykri eða aðskiljanlegum efnum sem átti að nota í baksturinn. Og Jón Baldvinsson sagði: Alþýðan á ekki silfurskeiðar. Hún verður að láta sér nægja sínar teskeiðar. En mér finnst samt ekki ástæða til að hún hætti við að baka.

Þessi röksemd á vissulega við í þessu máli enn. Á meðan við, eins og hæstv. iðnrh. mundi orða það, erum að ná vopnum okkar og meðan við erum að höndla okkar silfurskeiðar held ég að það sé rétt að við brúkum þau áhöld sem við höfum til þess að baka þær kökur sem baka þarf.

Ég verð að taka undir með hv. þm. Jóni Baldvini Hannibalssyni að mér kemur mjög á óvart að þegar lagt er fram á Alþingi frv. um að rétta hlut starfshóps þar sem sennilega flestar konur eru skuli allar þær konur sem til máls hafa tekið til þessa leggjast gegn því, þannig að það sé skráð í þingsögunni að ef þetta frv. um lagfæringu á kjörum fiskvinnslufólks væri samþykkt hefði það verið samþykkt gegn mótmælum þeirra kvenna sem til máls hafa tekið.

Ég vildi gjarnan að þessar konur gerðu grein fyrir máli sínu, ekki bara hér á Alþingi, heldur á fiskvinnslustöðvunum. Og það vekur einnig athygli mína að þær sem komið hafa hingað upp til þess að ræða þetta mál með þessum hætti eru allar héðan úr Reykjavík eða flestar héðan af Reykjavíkursvæðinu a.m.k. (Gripið fram í: Háskólaborgarar.) og háskólaborgarar. Ég held að það væri mjög æskilegt að þessar hv. þingkonur kynntu sér t.d. í viðræðum við lækna úti á landsbyggðinni hvaða reynslu þeir hafa af sínum störfum við að hjálpa fiskverkafólki, konunum sem þar vinna. Ég er sannfærður um að þær kæmust að sömu niðurstöðu og flestir sem það hafa gert, að það vinnuálag sem viðgengst í fiskvinnslunni og sem fyrst og fremst bitnar á konum, sem eru það vinnuafl sem heldur þeirri atvinnugrein uppi, sé þess eðlis að raunar sé ekki verjandi að búa við þetta kerfi óbreytt. Auðvitað kemur þetta fram í því að jafnvel þó sæmilegir tekjumöguleikar séu í fiskvinnslu, ef nægileg atvinna er, ef nægilega hart er lagt að sér og ef unnið er nægilega lengi, samt sem áður, bjóðist konunum sem þarna vinna einhver önnur atvinna koma þær í hópum til þess að fá þá vinnu frekar en vinnuna sem þær stunda, fiskverkun, jafnvel þó að það séu störf sem eru lægra launuð.

Þó kemur mér mest á óvart hvaða rökum er beitt við að andmæla þessu máli. Hv. þm. sem hér talaði, Kristín S. Kvaran, komst þannig að orði að hún skildi ekki þann rökstuðning að Alþingi þyrfti að reyna að lagfæra hlut fiskverkafólks vegna þess að aðrar stéttir í þjóðfélaginu hefðu getað velt af sér öllum þeim byrðum sem þjóðfélagsþegnunum er ætlað að bera og launamunur hafi aukist í samfélaginu. Hún skildi ekki slíka röksemd. Hún skildi ekki, sagði hún, þá röksemd að stórir hópar hafa getað haldið sínu og jafnvel sótt sér kjarabætur á þeim tímum þegar aðrir hafa orðið að taka á sig byrðar, hún skildi það ekki, hv. þingmaðurinn, að það væri röksemd fyrir því að reynt væri að hjálpa láglaunafólkinu sérstaklega af löggjafarvaldinu. Ég verð nú að segja að ef slík röksemd gengur ekki upp í hug og hjarta þess sem kennir sig við jafnaðarstefnu, þá eru menn farnir að þokast ansi langt frá upphaflegum markmiðum þeirrar stefnu.

Í annan stað sagði hún einnig að aðferð eins og þessi, að veita fólki frádrátt frá tekjuskatti, væri leið til þess að kenna fólki að svíkja undan skatti, væri leið til þess að ýta undir skattsvik í þjóðfélaginu. Þetta er einnig ákaflega furðuleg röksemd. Ég þarf nú að gæta að því hvort hv. þm. hefur haft þessi rök uppi þegar, á hennar tíð, slík mál hafa komið fyrir til afgreiðslu á Alþingi.

Hinn 6. júní 1985, á s.l. vori, voru samþykkt á Alþingi lög um breytingu á lögum um tekjuskatt og eignarskatt. Breytingin var nákvæmlega um sömu grein og breytingin sem við hv. þm. Guðmundur J. Guðmundsson leggjum til að breytt verði, um 30. gr. laganna, og var á þá leið, eins og segir í lögunum, sem samþykkt voru að helming greiddra meðlaga með barni sem er innan 18 ára aldurs megi draga frá. Ég hef reynt að kynna mér það í þingtíðindum hvort hv. þm. hafi lýst þeirri skoðun sinni við þetta tækifæri að þetta væri aðferð til þess að ýta undir skattsvik. Ég hef ekki orðið var við það. Ég sé ekki annað í þingtíðindum en að þessi hv. þm. hafi greitt atkvæði sitt með þessari breytingu.

Í þessari sömu grein laganna er fjöldinn allur af undantekningum eins og hv. þm. Jón Baldvin Hannibalsson var að benda á. Þar eru t.d. ákvæði um að það megi draga frá skatti þau hlunnindi sem veitt eru með fatnaði, fæði, húsnæði og öðrum hliðstæðum hætti og eigi eru talin manni til hagsbóta. Er það skoðun þessa hv. þm. að þetta sé aðferð til að kenna mönnum að svíkja undan skatti?

Einnig er í þessari grein heimild til þess að mega draga frá kostnað við stofnun heimilis á því ári sem maður gengur í hjúskap. Er það að áliti hv. þm. inn í lögin sett til þess að ýta undir skattsvik og kenna fólki að stela undan skatti? Í þessu sama ákvæði er líka liður sem heimilar viðkomandi að draga frá þær fjárhæðir sem hann hefur aflað sér á síðustu 12 starfsmánuðum áður en hann lætur af störfum vegna aldurs, en frádráttur þessi megi þó aldrei vera meira en 800 þús. kr. Er þetta að áliti þm. leið til þess að kenna fólki að svíkja undan skatti? Hvernig stendur á því að hv. þm. hefur ekki komið með þessar ábendingar sínar fyrr?

Á síðasta þingi var einnig samþykkt brtt. við tekjuskattafrv. um að hækka leyfilegan sjómannafrádrátt úr 10% í 12%. Nákvæmlega sams konar tillaga var borin fram hér. Ég hef líka flett upp í umræðum um það mál. Hv. þm. Kristínu Kvaran gafst kostur á því að tala við allar þær þrjár umræður sem urðu um málið hér í þingdeildinni. Ég varð ekki var við það þá að hún hefði komið með þær ábendingar að þarna væri verið að kenna fólki að svíkja undan skatti. Það er fyrst núna sem henni dettur það í hug, hv. þm., þegar verið er að ræða um þá atvinnustétt þar sem konur eru hvað fjölmennastar.

Það er auðséð og auðheyrt á öllu að hinn svokallaði kvennaáratugur er liðinn. En látum það nú vera, þessa röksemd þessa eina hv. andmælanda þessa frv. En það var önnur röksemd sem þær áttu allar sameiginlega, þar sem hver hv. þm. át upp eftir öðrum án þess svo mikið sem sá fyrsti, sem byrjaði á staðhæfingunum, reyndi að afla sér upplýsinga um það hvort hún færi nú með rétt mál. Það var þegar verið var að útlista hvers vegna þessi fiskimannafrádráttur væri til kominn. Þá át hver hv. þm. eftir öðrum það upp að það væri vegna þess að þessir menn væru svo mikið fjarverandi frá heimilum sínum. Það væri ástæðan. Fyrst var það hv. þm. Guðrún Helgadóttir sem tók þetta fram í sinni ræðu og síðan át hver hv. andmælandi þetta upp eftir henni án þess að hafa fyrir því að leita að þessu sjálfur.

Nú vill svo til í þessum lögum, gildandi lögum, að það eru ekki aðeins fiskimenn og farmenn sem er veittur þessi frádráttur. Eins og allir vita þá er stór hópur fiskimanna sem ekki er svo mikið fjarverandi frá heimilum sínum eins og t.d. dagróðramenn, menn sem stunda rækjuveiðar o.fl., og eru heima á hverjum sólarhring eins og aðrir launþegar. Það er ekki aðeins til fiskimanna og farmanna, þ.e. til sjómanna, sem þessi frádráttur er heimilaður, heldur einnig til hluta ráðinna landmanna, manna sem fara aldrei um borð, heldur starfa við beitningu og önnur störf í landi. Skyldi þessum mönnum vera heimilaður 12% sjómannafrádráttur vegna þess að þeir séu svo mikið í burtu frá heimilum sínum? Auðvitað ekki. Þetta er bara fullyrðing sem einn hv. þm. étur upp eftir öðrum án þess að láta svo lítið að gá í lögin til þess að kynna sér lagatextann. En látum það nú liggja á milli hluta.

Við skulum kanna það hvernig þessi sjómannafrádráttur í tekjuskattinum er til kominn og hvernig hann var rökstuddur á sínum tíma til þess að ganga úr skugga um það hversu vandaður málatilbúnaður þeirra kvenna er, sem koma hér upp hver á fætur annarri til þess að andmæla frv. á þessum nótum. Það var fyrst í lögum nr. 46/1954 sem sjómönnum er heimilaður frádráttur frá skatti. Þá var það vegna hlífðarfatakostnaðar. Þá var það vegna kostnaðar sem þeir lögðu út til öflunar hlífðarfata. Þeim var heimilað að draga þann kostnað frá. Þremur árum síðar kemur síðan sá frádráttur sem sjómannafrádrátturinn nú er beint framhald af. Það var í lögum nr. 37/1957 sem fram voru lögð í frumvarpsformi á þinginu 1956. Þáv. fjmrh., Eysteinn Jónsson, lagði þá frv. fram um að heimila fiskimönnum, til viðbótar við hlífðarfatafrádrátt fyrir útlagða peninga vegna kaupa á hlífðarfötum, sérstakan fastan sjómannafrádrátt frá tekjuskatti.

Hæstv. þáv. ráðherra, Eysteinn Jónsson, mælti fyrir þessu máli á Alþingi í örstuttri ræðu en rökstuddi tillöguna ekkert frekar sjálfur heldur sagði einungis að það mætti vera hverjum manni auðsætt af hverju þessi tillaga væri lögð fram. En það kom glögglega fram í máli annarra þm. hver var rökstuðningurinn. Með leyfi hæstv. forseta vil ég hér vitna í þingræðu Magnúsar Jónssonar sem tók til máls næstur á eftir ráðherranum:

„Það er auðvitað augljóst hver hugsunin er með þessu frv. og það er að veita sjómönnum nokkur sérfríðindi vegna þeirrar miklu nauðsynjar að fá menn til þess að starfa á fiskiskipaflotanum og hefur sú hugsun sem hér liggur á bak við að sjálfsögðu við full rök að styðjast og mikla nauðsyn.“

Þarna er ekkert verið að tala um fjarvistir frá heimilum eða annað slíkt. Þarna er verið að telja fram rökin fyrir því að þessi frádráttur var fyrst heimilaður. Og rökin voru þau að það væri ekki hægt að manna fiskiskipaflotann. Það var verið að leita leiða af hv. Alþingi til þess að gera einhverjar ráðstafanir til þess að gera sjómannastarfið eftirsóknarverðara. Og það er ekki bara hv. þm. Magnús Jónsson sem ég get leitt hér til vitnis. Hv. þáv. þm., Eðvarð Sigurðsson, framsögumaður þeirrar nefndar í Nd. sem fjallaði um þetta mál, gerði svofellda grein fyrir þessu:

„Í desember s.l., þegar fulltrúar verkalýðshreyfingarinnar áttu í samningum við hæstv. ríkisstjórn um lausn efnahagsmálanna, voru einnig á dagskrá kröfur sjómanna um nýtt skiptaverð þeim til handa og fleira af því tagi, en samningum þeirra hafði þá verið sagt upp. Fulltrúar sjómanna- og verkalýðsfélaganna gerðu þá m.a. kröfu um aukin skattfríðindi til handa fiskimönnum. Frv. það sem hér er til umræðu er einungis staðfesting á því samkomulagi er varð milli samningamanna sjómanna- og verkalýðsfélaganna annars vegar og hæstv. ríkisstjórnar hins vegar, varðandi skattafríðindin.“

Hreint og beint, einfalt kjaramál. Ekkert minnst á fjarvistir eða annað slíkt. Og hv. þm. Björn Ólafsson segir við sama tækifæri:

„Ég tel að þau fríðindi sem þeim eru hér gefin við ákvörðun tekjuskatts, 500 kr. fyrir hvern lögskráningarmánuð, séu ekki nægilega mikil. Þessi fjárhæð, þó að hún út af fyrir sig geri nokkurt gagn, nær ekki þeim tilgangi sínum að binda unga menn við sjómannsstörfin. En eins og sakir standa virðast ungir menn, sem leggja fyrir sig sjómennsku, vera að flosna upp frá störfunum. Sést það best á því að nú eru sex eða sjö hundruð Færeyingar hér á togara- og bátaflotanum.“

Og síðan mælir hv. þáv. alþm., Björn Ólafsson, fyrir tillögu um að hækka þennan frádrátt meira en tillaga var gerð um, alveg eins og hv. þm. Garðar Sigurðsson gerði hér við fyrri umræðu.

Ég ætla að halda áfram að vitna í rökin fyrir því að þetta var gert á sínum tíma. Í framsögu Eggerts G. Þorsteinssonar í Ed. Alþingis um þetta sama mál segir svo orðrétt, með leyfi forseta:

„Það er kunnara en frá þurfi að greina hverjum erfiðleikum það hefur verið bundið að fá menn til þess að stunda hin erfiðu og áhættusömu störf sem unnin eru á íslenska fiskiskipaflotanum. Hjá þjóð eins og okkur Íslendingum, sem byggjum nær alla útflutningsverslun okkar á öflun sjávarafurða, er um geigvænlegt vandamál að ræða. Fjárhagsleg geta þessarar atvinnugreinar virðist hins vegar ekki hafa aðstöðu til þess nú að bæta svo um að ungir og nýir starfskraftar laðist til starfans. Nægir í því sambandi að benda á hina gífurlegu fjárþörf fiskiflotans um hver áramótin á eftir öðrum, ef dæma má eftir því.“

Þessi rök væri hægt að nota óbreytt í dag með því að setja fiskverkafólk í staðinn fyrir fiskimenn. Og þetta eru röksemdirnar sem m.a. hv. þm. Jón Baldvin Hannibalsson rakti hér áðan. Ef við höldum síðan áfram, með leyfi hæstv. forseta, að vitna í framsögu Eggerts G. Þorsteinssonar, þá segir hann:

„Skorturinn á vinnuafli til sjávarstarfa er bersýnilegastur á þeim fjölda Færeyinga og annarra erlendra sjómanna sem ráðnir hafa verið undanfarin ár til starfa á togurum og vélbátum hér við land.“

Gætu menn ekki sagt það sama um ástandið í fiskvinnslunni? Eru menn ekki að tala um það, bæði hér á Alþingi og annars staðar, hvílíkt ástand það sé orðið þegar þurfi að flytja inn erlent vinnuafl til þess að vinna við fiskvinnslu í íslenskum fiskverkunarhúsum vegna þess að íslenskt fólk fæst ekki þar til starfa? Síðan held ég áfram að vitna í hv. þm. Eggert G. Þorsteinsson. Hann segir:

„Vegna yfirstandandi vertíðar hefur Sjómannafélag Reykjavíkur veitt leyfi fyrir 183 Færeyingum. Hér er þó aðeins talinn sá fjöldi sem er á skipum sem skráð eru frá félagssvæði Sjómannafélags Reykjavíkur, en auk þeirra eru fjölmargir erlendir sjómenn á togurum og fiskiskipum úr öðrum verstöðvum í landinu. Þetta gerist á sama tíma og vitað er að fjöldi manna er á biðlista við ýmiss konar önnur störf og þjónustu í landi sem fjarlæg eru sjálfum framleiðslustörfunum.“

Herra forseti, eru þetta ekki sömu rökin og við hv. þm. Guðmundur J. Guðmundsson höfum verið að flytja? Hvar er í þessum rökum minnst á fjarvistir eða sérstöðu í því sambandi? Hvergi. Rökin sem við flytjum nú fyrir tekjuskattsafslætti fyrir fiskverkafólk eru nákvæmlega þau sömu og flutt voru fyrir skattafslætti fyrir sjómenn, sjómannafrádrættinum svokölluðum, þegar hann var tekinn upp. Enda eru aðstæðurnar nú nákvæmlega eins í fiskvinnslunni og voru í sjómannsstörfunum þá.

Síðan segir Eggert G. Þorsteinsson, hv. þm., svo áfram í ræðu sinni, með leyfi forseta:

„Með frv. því sem hér liggur fyrir er ætlað að stíga enn eitt skref í þessa átt (sem fyrst var stigið í lögum nr. 46 frá 1945) og að sá mismunur, sem áður var gerður á þessum efnum á togarasjómönnum og öðrum fiskimönnum, verði nú jafnaður.“

Herra forseti. Það fer ekkert á milli mála að það er rétt sem við hv. þm. Guðmundur J. Guðmundsson höfum bent á og leyft okkur að nota. Það er sami rökstuðningur sem fylgir þessu frv. okkar og fylgdi frv. því sem hæstv. þáv. ríkisstj. lagði fram á sínum tíma á árinu 1956 um skattfríðindi sjómanna. Og það á ekkert skylt við það sem hér hefur verið fullyrt af hverjum hv. þm. á fætur öðrum, og að sjálfsögðu byggt á því að þessir hv. þm. hafa ekki einu sinni hirt um að kynna sér málið áður en þeir fóru að fullyrða, gátu ekkert byggt á því, þeirri sérstöðu sem sjómenn vissulega hafa varðandi langa fjarveru frá heimilum sínum, heldur á þeim rökum að hér er um undirstöðuatvinnuveg að ræða sem hlýtur að varða alla, og ekki síst Alþingi Íslendinga, að sé hægt að starfrækja með eðlilegum hætti.

Síðan var þessi frádráttur, sem var í föst krónutala, hækkaður. 850 kr. var hann árið 1958 og stóð þannig sem hlífðarfatafrádráttur og fastur frádráttur pr. lögskráningarmánuð þangað til árið 1972 að lögunum var breytt og þessi frádráttur felldur niður en í staðinn tekinn upp frádráttur í formi 8% afsláttar af tekjum. Hver var ástæðan fyrir því? Ég ætla ekki að þreyta þingheim með því að fara að vitna í umræðurnar þá. Menn geta flett því upp sjálfir. Ástæðan var sú að þáv. ríkisstjórn gerði þá breytingu á skattvísitölu að hagur sjómanna af föstum krónufrádrætti stórlega minnkaði. Til þess að ganga til móts við þá rýrnun á skattalegri stöðu sjómanna var tekin sú ákvörðun af þáverandi ríkisstjórn að fella niður hinn fasta krónutölufrádrátt en taka upp prósentufrádrátt í staðinn.

Ef þm. mundu nú leggja þá vinnu í sinn málflutning að reyna að kynna sér sögu þessara mála þá ættu þeir að fletta þessu upp sjálfir. Ég hef satt að segja annað við minn tíma að gera en að gera það fyrir þá. En það er guðvelkomið ef hv. þm. hafa ekki tíma til þess. Ég vildi samt sem áður gjarnan geta gert það án þess að þurfa að standa upp í ræðustól og gera það fyrir framan þá. Ég skal hins vegar gjarnan vísa þeim á þau þingtíðindi, hefti, árgang, blaðsíðu o.s.frv. ef þeir kæra sig um. En að standa hér uppi í ræðustól, farandi hver á fætur öðrum með svona rangfærslur sem byggjast ekki bara á misskilningi, ekki bara á vanþekkingu, heldur á því að nenna ekki að kynna sér mál, það er fyrir neðan allar hellur.

Ég veit ekki, herra forseti, hvort ég á að fara nokkuð nánar út í þau orð sem féllu hjá þessum hv. þm. hér þegar málið var áður á dagskrá vegna þess að því miður verður að segja um flest það sem þar var sagt að eitt rekur sig þar á annars horn, eins og hefur komið fram í þessu.

Hv. þm. Kristín Halldórsdóttir sagði að andstaða Kvennalistakvenna byggðist á því að það væri óeðlilegt að leysa vandamál launþega og atvinnurekenda á þennan hátt. Jæja, var það afstaða Kvennalistakvenna við hækkunina á sjómannafrádrættinum í fyrra? Eða er þetta afstaða sem allt í einu er fædd nú í dag? Hver er þá ástæðan fyrir því? Hversu oft hefur Alþingi ekki þurft - m.a.s. á þeim tíma sem liðið hefur af þessu kjörtímabili þegar þær Kvennalistakonur hafa átt fulltrúa á Alþingi - að grípa inn í mál með þessum hætti? Halda menn að það sé ekki hægt að segja slíkt og hið sama um allar félagslegar aðgerðir sem Alþingi gerir, sem eru í því fólgnar að reyna að rétta hlut hins smáa? Halda menn að það sé ekki hægt að fullyrða um allar slíkar aðgerðir að verið sé að hafa afskipti af málum launþega og atvinnurekenda og leysa þeirra vandamál? Hvar eru mjúku gildin hjá Kvennalistanum? Hurfu þau kannske líka þegar kvennaáratugurinn rann í aldanna skaut? Er það ekki einmitt þetta sem segja má að Alþingi sé að gera með annarri eða þriðju hverri löggjöf sem það setur? Að reyna að rétta hlut hins smáa? Reyna að hafa afskipti af málum, sem frjálshyggjumenn segja að eigi ekki að koma löggjafanum við heldur sé einkamál atvinnurekandans og launþegans, hvað hann ber úr býtum, hvernig hann lifir í þessu landi? Hvað er Alþingi annað að gera meginhlutann af sínum starfstíma en að hafa afskipti af þessu? Hvers konar röksemd er það frá þingmannahópi, sem kennir sig við hin mjúku gildi, að segja að löggjafarsamkomu eigi ekki að koma slík mál við? Þetta getur Thatcher sagt, Reagan, Hannes Hólmsteinn, jafnvel Þorsteinn Pálsson. En að hv. þm. Kristín Halldórsdóttir skuli segja að þetta sé mál sem eigi ekki að koma Alþingi við, það verð ég að segja að kom mér á óvart.

Ég er alveg sannfærður um það, til allrar hamingju, að fjölmörg mál þeirra Kvennalistakvenna, sem þær flytja á Alþingi, eru einmitt um þessi efni. Einmitt um það að reyna að bæta kjör þeirra sem verst eru settir í þjóðfélaginu umfram það sem aðilar vinnumarkaðarins ráða við og hafa gert. Öll félagsmálalöggjöf Alþingis, jafnvel hin mislukkaða skattalöggjöf, hefur þetta að takmarki sínu.

Hv. þm. Guðrún Helgadóttir sagði: „Mér er ekki kunnugt um að neinn hafi beðið um þetta.“ Það er algerlega rangt. Ég skal útvega henni lista með nöfnum fleiri tuga fiskverkunarkvenna, og karla líka, sem hafa skrifað undir áskorun til Alþingis um nákvæmlega þetta sem við hv. þm. Guðmundur J. Guðmundsson erum að leggja fram. (Gripið fram í.) Þær gerðu það í fyrra og afhentu forseta Sþ., Þorv. Garðari Kristjánssyni, þann lista. (GHelg: Eftir að frumvarpið kom fram.) Það er ósatt. Ég get líka afhent (Gripið fram í.) - enn kemur fullyrðing sem byggist á því að annaðhvort nennir hv. þm. ekki að kynna sér mál eða hann vill það ekki. Og ég hef það álit á hv. þm. að hið fyrra sé rétt. Ég hef það álit á hv. þm. að hún vilji gjarnan kynna sér málin, þannig að eina skýringin hlýtur að vera sú að hún gefur sér ekki tíma til þess. (Gripið fram í.) Í bréfasafni þingsins er bréf t.d. frá Verkakvennafélaginu Snót í Vestmannaeyjum, sem er, að ég held, þriggja ára gamalt - löngu áður en þessum frv. var hreyft - þar sem Verkakvennafélagið Snót fer fram á að svona aðgerðum verði beitt af hálfu ríkisvaldsins. Þannig að það er líka röng fullyrðing hjá hv. þm., eins og allar fullyrðingar hennar í þessu máli, að þessar óskir hafi ekki komið fram fyrr en eftir að við hv. þm. Guðmundur J. Guðmundsson fluttum frv. okkar í fyrra. Það er líka rangt. Ég ætla að leiðrétta það strax til þess að þær komi nú ekki í röð hér konurnar hver á fætur annarri og éti þessa sömu röngu fullyrðingu upp. (HBI: Er þetta ekki gamalt mál hér í deildinni?) Sjálfsagt er þetta líka gamalt mál hér í deildinni, eins og glöggur maður, Halldór Blöndal, kallar hér fram í.

Ég veit ekki við hvað hv. þm. Guðrún Helgadóttir miðar þegar hún gefur þær upplýsingar að fiskverkamanni með 400 þús. kr. árstekjur muni þetta frv. færa 28 940 kr. í aðra hönd. Og hv. þm. segir síðan: Ja, hvað er það? Þetta er svo lítið að það tekur því ekki að tala um það. Ég verð nú að segja eins og er að flest það verkafólk sem ég þekki til telur tæplega 29 þús. kr. vera talsverða peninga. Ég held að það vildi gjarnan frekar hafa þá á milli handanna heldur en hafa þá ekki. Þetta er hvorki meira né minna fyrir fólkið á hinu lága kaupi, sem fiskverkafólk þarf að lifa af, en ígildi þess að greiða því 13. mánuðinn, að greiða því 13. mánuðinn! Og ég held að því muni ekki finnast það vera svo lítið og óverulegt að það taki því ekki einu sinni að taka við því. Það er háskólaborgarasjónarmiðið. En það er ekki sjónarmið fólksins sem vinnur við fiskverkunina.

Menn skulu gæta þess (Gripið fram í.) að þessi peningur sem þarna er um að ræða eru fjármunir sem verðbólgan getur ekki af þessu verkafólki tekið. Það eru fjármunir sem ávallt munu halda gildi sínu. Þetta er verðtryggð kjarabót. Þetta er kjarabót sem enginn annar þrýstihópur - eða enginn þrýstihópur í þjóðfélaginu vegna þess að það er ekki hægt að segja annar þrýstihópur í þessu sambandi því að fiskverkafólkið er ekki þrýstihópur - en þetta er fjárhæð og kjarabót sem enginn þrýstihópur í þjóðfélaginu gæti af því tekið með því að koma eftir á, eins og þessir hópar gera gjarnan, og taka í sinn hlut í almennum kjarasamningum margfaldar kauphækkanir á við þá lægst launuðu, það sem þeir fá.

Hv. þm. Kristín Halldórsdóttir spurði mig hvort ég gæti ekki lagt fram útreikninga um það hvað þetta mundi þýða fyrir einhverja ákveðna tekjuhópa í fiskvinnslu. Það get ég að sjálfsögðu ekki gert. Ég hef engar aðstæður til þess. Ég get komið með fjölmörg dæmi, eins og hv. þm. Guðrún Helgadóttir nefndi, ef um væri að ræða einhvern Jón Jónsson sem hefði þetta mikið í kaup og hefði svona og svona stóra fjölskyldu og hefði þetta og þetta mikið í vaxtafrádrátt og þetta og þetta mikið í skuldir o.s.frv., o.s.frv. þá mundi það gefa þessa og þessa niðurstöðu. Slík dæmi eru bara gersamlega merkingarlaus eins og allir vita sem hafa eitthvað um skattamál fjallað vegna þess að þegar menn eru að búa til svona hugmyndir þá eru menn að tala um kannske einn, tvo eða þrjá menn sem falla undir þá skilmála sem svona eru settir upp. Réttasta dæmið er auðvitað að fá það áætlað hjá skattyfirvöldum hvað hér er um að ræða mikið tekjutjón fyrir ríkissjóð og hvað um er að ræða stóran hóp skattgreiðenda sem líklegt er að fái og njóti þessarar ívilnunar. Að reyna að reikna út einstök dæmi í þessu sambandi er algerlega misvísandi og út í hött.

Að sjálfsögðu geri ég ráð fyrir því, og við flm. báðir, að sú nefnd sem fær þetta mál til umfjöllunar vinni þetta verk. Það er hennar hlutverk að vinna þetta verk í samráði við hv. fjmrn. (GJG: Og skili áliti.) og skili að sjálfsögðu áliti og taki afstöðu til þess, hvort hún vill að þetta frv. verði samþykkt, hvort hún vill að því verði breytt, og þá hvernig, eða hvort hún vill að málinu verði alfarið vísað frá.

Ég vil benda á það, herra forseti, og láta það verða mín lokaorð í þessu máli, a.m.k. að sinni, að þeir sem hafa komið hingað upp til þess að gagnrýna þetta frv., ýmist á þeim forsendum að það mismuni fólki, eins og sumir segja, eða á þeim forsendum að það mismuni ekki nógu mikið, eins og sömu aðilar segja, vegna þess að í öðru orðinu eru þeir sem andmæla þessu frv. að tala um að verið sé að mismuna stéttum, í hinu orðinu er verið að tala um að þetta sé svo lítilvægt, sem þarna sé um að ræða, að það skipti engu máli. M.ö.o. eru það orðin rök í málinu, bæði að hér sé verið að mismuna stéttum og að stéttunum sé ekki mismunað nógu mikið. Hvernig á einhver vitglóra að fást út úr svona röksemdafærslu?

Nei, gott og vel. Þeir sem hafa komið hingað upp til þess að gagnrýna þetta frv. en engu að síður lýst sig samþykka mati okkar hv. meðflm. míns, Guðmundar J. Guðmundssonar, á því að eitthvað þurfi að gera fyrir þetta fólk, hafa menn tekið eftir því að það hefur ekki ein einasta tillaga komið frá þessum gagnrýnendum (Gripið fram í.) um það hvað þeir vilja þá láta gera í staðinn. Hv. þm. Guðrún Helgadóttir er að kalla hér fram í úr hliðarherbergi milli þess sem hún er vonandi að fletta upp frásögnum í Alþingistíðindum um hvernig þessi mál hafi áður verið afgreidd, eins og ég hef ráðlagt henni að gera áður en hún tekur aftur til máls. Það er alveg rétt hjá hv. þm. að það er ekki hlutverk Alþingis að ákvarða kaup eða hafa afskipti af kaupi. Það eru atriði sem eiga að ákvarðast í kjarasamningum aðila vinnumarkaðarins. En við erum bara ekkert að fjalla um það hér. Það er ekkert verið að létta neinni kaupgreiðslu af atvinnurekendum í þessu sambandi. Frv. fjallar ekkert um það að í staðinn fyrir þær kjarabætur, sem veittar eru með frv., verði t.d. kaup lækkað í fiskiðnaði eða verði komið í veg fyrir að kaup hækki. Við erum bara ekkert að fjalla um þau mál.

Staðreyndin, sem Alþingi stendur frammi fyrir, er þessi: Í sívaxandi mæli þurfum við að flytja okkar fisk út óunninn vegna þess að ekki fæst fólk í fiskvinnsluna til að vinna þennan fisk. Þetta ástand hefur orðið til þess að söluaðilar okkar á erlendum mörkuðum hafa orðið uppiskroppa með afurðir sem við Íslendingar höfum hingað til getað útvegað þeim. Þjóðarbúið hefur þar af leiðandi orðið af stórum tekjum. Þetta er staðreynd sem við horfumst í augu við.

Við horfumst líka í augu við þá staðreynd að fólkið, sem eftir er í fiskvinnslunni, hópast til að sækja um önnur störf ef slík störf eru í boði, eins og hv. þm. Guðmundur J. Guðmundsson nefndi dæmi um þegar málið var hér til umræðu fyrir helgi. Þetta fólk sækir út úr fiskvinnslunni, hver sem betur getur, til annarra starfa. Samdrátturinn í fiskvinnslu, sem hafinn er, heldur því áfram. Alþingi þarf náttúrlega sem stjórnvald að svara þeirri spurningu: Er þetta æskilegt? Viljum við reyna að sporna við þessari þróun eða viljum við láta hana ganga fram? Alþingi hlýtur nú, eins og 1956, þegar fiskimennirnir áttu í hlut en ekki fiskverkafólkið, að komast að sömu niðurstöðu og menn komust að árið 1956 í, herra forseti, vinstri stjórn. Hv. þm. Guðrún Helgadóttir, í vinstri stjórn. (Gripið fram í: 1956?) Já, 1956.

Herra forseti. Á ég að trúa því að hv. þm. viti ekki hvaða ríkisstjórn var í landinu árið 1956? Viti ekki að frsm. meiri hl. árið 1956 í Ed. var Alþýðuflokksmaður? (Gripið fram í: Ég var bara 15 ára.) Hún var bara 15 ára, hv. þm. Í fyrsta lagi held ég að það geti varla verið og jafnvel þó svo geti verið trúi ég því ekki að nokkur þm. á Alþingi Íslendinga viti ekki hvaða ríkisstjórnir sátu í landinu fyrir þrjátíu árum. (Gripið fram í.) Auðvitað skiptir það máli með hvaða hugarfari svona tillaga er gerð. Ég verð að segja eins og er, að fá svona frammíkall: Hvaða ríkisstjórn sat í landinu árið 1956? af alþm. á löggjafarsamkomu Íslendinga - (Gripið fram í.) '56 sat engin ríkisstjórn á Íslandi vegna þess að þá var landið ekki numið. Það hlaut því að vera 1956 sem ég talaði um, ekki '56.

Herra forseti. Ég veit satt að segja ekki hvort við eigum að standa í svona umræðum mikið lengur. Því að þetta er svo gjörsamlega fjarri því sem hér er til umræðu og þeim tillögum sem hér eru fluttar að það væri að æra óstöðugan að halda því áfram að eiga að ræða málin á þessum grundvelli, við þessar aðstæður og við svona frammíköll.

Niðurstaða mín, sem ég ætlaði að reyna að koma að áðan, er þessi: Aðstæðurnar núna og þegar fiskimannafrádrátturinn var veittur árið 1956 eru nákvæmlega þær sömu. Þá fékkst ekki fólk á fiskiskipaflotann og varð að reyna að afla sjómanna erlendis frá, þannig að ekki var hægt að stunda þær veiðar sem þurfti að stunda. Núna fæst ekki verkafólk í fiskvinnslu, það verður að reyna að afla þess erlendis frá og jafnvel þó að það sé gert dugar það fólk, sem til starfa fæst, ekki til þess að hægt sé að vinna þann þó takmarkaða afla sem kemur að landi.

Nú eins og þá á okkur að vera það ljóst að hér er um að ræða þá undirstöðuatvinnugrein sem allt efnahagslíf á Íslandi byggist á. Ef sjósókn og fiskvinnsla getur ekki gengið er alveg tilgangslaust að vera að tala um önnur atvinnutækifæri á Íslandi. Það er alveg fráleitt í þessu sambandi að vera að tala um að það sé einhver röksemd fyrir því að ekki sé komið sérstaklega til aðstoðar við konur í fiskverkun að það hafi ekki verið gert við konurnar sem passa börnin þeirra. Þetta er út í hött.

Alþingi hlýtur að svara sömu spurningu og við blasti árið 1956: Hvað vill löggjafinn gera í þessu ástandi, löggjafinn sem ekki á að hafa afskipti af beinum kaupákvörðunum, sem eru samningsatriði vinnumarkaðarins, en hefur auðvitað afskipti, bæði bein og óbein, af fjölmörgum öðrum kjaralegum atriðum? Niðurstaða Alþingis árið 1956, vinstri stjórnarinnar sem þá sat, var sú að rétt væri að ganga til móts við hagsmuni fiskimanna með skattalegum ívilnunum og leggja þannig sitt af mörkum til að gera fiskimannsstarfið meira aðlaðandi en það hafði verið og reyna með þeim hætti að fá fleiri til starfa á þeim vettvangi.

Nákvæmlega sömu niðurstöðu höfum við hv. þm. Guðmundur J. Guðmundsson komist að, að Alþingi verði að leggja eitthvað af mörkum, verði að sýna hvernig það vill svara þeim aðstæðum sem hafa skapast í fiskiðnaðinum, sambærilegum aðstæðum og sköpuðust hjá fiskimönnum árið 1956. Það er ekkert óeðlilegt þó að við höfum komist að sömu niðurstöðu nú, við hv. þm., og flokksbræður okkar komust að árið 1956 og var þá studd af þm. allra flokka. Því ég vil taka það fram að allir flokkar, sem þátt tóku í þeim umræðum, lögðu með því að þessi leið yrði farin. Og allir flokkar, sem þátt tóku í umræðunum í fyrra, þegar til stóð að hækka fiskimannafrádráttinn úr 10% í 12%, lögðu sitt lóð á sömu vogarskál. Það kemur mér því mjög á óvart að þegar verið er að tala um fiskverkafólkið nú skuli fólk hér vera búið að breyta afstöðu sinni. Mest kemur mér þó á óvart að það skuli vera fólk sem telur sig vera málsvara hinna mjúku gilda.