19.04.1986
Efri deild: 82. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 4207 í B-deild Alþingistíðinda. (3871)

387. mál, þjónustu- og endurhæfingastöð sjónskertra

Heilbr.- og trmrh. (Ragnhildur Helgadóttir):

Frú forseti. Hér er flutt frv. sem felur í sér lítils háttar breytingu á núgildandi lögum um þjónustu- og endurhæfingarstöð sjónskertra sem venjulega gengur undir nafninu Sjónstöð Íslands.

Skv. núgildandi lögum er heimildin til samstarfs við augndeild sjúkrahúss bundin því að yfirlæknir augndeildar sé einnig yfirlæknir sjónstöðvarinnar. Það að binda í lögum að ákveðinn maður skuli vera yfirlæknir í heilbrigðisstofnun eða í slíkri heilbrigðisþjónustu þykir óeðlilegt og þess vegna er þetta frv. flutt. Breytingin sem það felur í sér er fólgin í því að skyldan um að yfirlæknir augndeildar skuli einnig vera yfirlæknir sjónstöðvar er felld brott.

Athygli mín var vakin á því í vetur að nú hagaði þannig til t.d. að annar læknir en sá sem hefur verið yfirlæknir augndeildar hefur sinnt hinum faglega þætti í Sjónstöð Íslands og þess vegna er starfsemin ekki að öllu leyti í samræmi við gildandi lög þó að hér sé um mjög þarfa og góða starfsemi að ræða. Það segir sig auðvitað sjálft að við verðum að ganga svo frá lögum að unnt sé að auglýsa þetta starf með eðlilegum hætti eins og önnur störf. Þess hefur sérstaklega verið óskað bæði af hálfu Augnlæknafélagsins og af hálfu Læknafélags Íslands. Ég sé ekki annað en þær óskir séu réttmætar og þess vegna er það að heilbrrn. bíður eftir því að Alþingi samþykki þetta frv. eða það er von mín þannig að unnt sé að auglýsa stöðuna strax þegar lögin taka gildi. Það liggur fyrir að það verður gert ef Alþingi þóknast að samþykkja þetta frv.

Ég varð vör við það við meðferð málsins í Nd. að nokkurs misskilnings gætti í sambandi við þá breytingu sem hér er verið að ræða um. Menn höfðu sumir hverjir einhvern veginn skilið það svo að ekki væri ætlunin að auglýsa þetta starf og frv. fæli einungis í sér að fyrirkomulagið eins og það nú er væri staðfest með lögum, en ég lít svo á að það sé eðlilegt og sjálfsagt og í samræmi við lögin þegar, er þau hafa verið samþykkt, að auglýsa starfið.

Ég vildi einungis skýra frá þessu til að girða fyrir þann misskilning sem ég varð vör við að upp hafði komið hjá einhverjum nefndarmanna í Nd.

Ég legg til, frú forseti, að þessu frv. verði að lokinni umræðunni vísað til 2. umr. og hv. heilbr.- og trn. og vonast til þess að afgreiðslan gangi mjög fljótt.