19.04.1986
Efri deild: 82. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 4213 í B-deild Alþingistíðinda. (3878)

423. mál, áfengislög

Frsm. meiri hl. (Eiður Guðnason):

Virðulegi forseti. Allshn. þessarar hv. deildar hefur fjallað um frv. til l. um breytingu á áfengislögum og hefur skilað nál. á þskj. 968 þar sem segir:

„Nefndin hefur fjallað um frv. og mæla undirritaðir nefndarmenn með því að frv. verði samþykkt með breytingum sem fluttar eru á sérstöku þskj.

Helgi Seljan leggur til að frv. verði samþykkt óbreytt.“

Undir þetta skrifa Jón Kristjánsson, Eyjólfur Konráð Jónsson, Stefán Benediktsson, Sturla Böðvarsson og Eiður Guðnason.

Brtt. sem nefndin leggur til að verði samþykktar er að finna á þskj. 969 og eru þar lagðar til breytingar í fimm liðum. Til þess að gera langt mál stutt, vegna þess að langt er liðið á dag og mörg mál enn á dagskrá, er sú breyting sem meiri hl. nefndarinnar leggur til sú að í stað þess að í frv. er gert ráð fyrir að lögreglustjóri veiti leyfi til áfengisveitinga á veitingastað skuli það vera sveitarstjórnir sem veita leyfi til áfengisveitinga á veitingastað. Það er sem sagt sú meginbreyting sem nefndin leggur til.

Ég sé ekki ástæðu, virðulegi forseti, til að hafa um þetta fleiri orð. Það mætti auðvitað tala um þetta miklu lengra mál en í ljósi þess hve miklar annir eru sé ég ekki ástæðu til að tefja tímann en meiri hluti nefndarmanna taldi eðlilegt að þetta vald, um að ákveða hvort skyldi leyfa vínveitingar á tilteknum stöðum, sé í höndum sveitarstjórnar á hverjum stað en ekki hjá lögreglustjóra eins og hið upphaflega frv. gerði ráð fyrir.