19.04.1986
Efri deild: 82. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 4215 í B-deild Alþingistíðinda. (3884)

444. mál, forgangsréttur kandídata til embætta

Frsm. (Haraldur Ólafsson):

Hæstv. forseti. Frv. það er menntmn. Ed. leyfir sér að flytja um forgangsrétt kandídata til embætta er til komið vegna þeirrar stöðu er upp kom þegar ljóst var að einn umsækjandi um prestakall hér á landi reyndist ekki hafa embættisgengi. Umsækjandi hefur lokið háskólaprófi í guðfræði við háskólann í Lundi í Svíþjóð og gegnt prestsembætti þar í landi. Samkvæmt lögum verða prestar þjóðkirkjunnar að hafa fullgilt próf frá guðfræðideild Háskóla Íslands. Hugsanlega gæti guðfræðideildin viðurkennt guðfræðipróf frá öðrum háskólum ef viðkomandi lyki einhverjum tilskildum prófum frá deildinni, til dæmis í kirkjurétti, sem er mismunandi eftir löndum. Ætla má að ekki sé um verulegan kenningamun háskólanna í Lundi og Reykjavík að ræða og ætti það ekki að valda neinum vandræðum.

Í frv. um starfsmenn þjóðkirkjunnar eru ný ákvæði um embættisgengi presta sem rýmka heimildir frá því sem nú er. Það frv. verður ekki rætt á því þingi sem nú situr og því enginn möguleiki á að leiðrétting fáist í þessum efnum fyrr en á næsta þingi, en hins vegar óeðlilegt að ekki ríki allmikið frjálsræði í þessum efnum sem öðrum hvað varðar atvinnumarkaðinn á Norðurlöndum. Í frv. er tekið fram að hér er um heimildarákvæði að ræða og verður guðfræðideild Háskólans að mæla með því að undanþága verði veitt.

Þetta frv. er flutt að frumkvæði fulltrúa allra flokka í þinginu og hefur ekki komið annað fram en að fullkomin samstaða sé um það. Nefndin gerir ekki till. um að málinu verði vísað til nefndar, en til 2. umr. hins vegar.