19.04.1986
Efri deild: 82. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 4220 í B-deild Alþingistíðinda. (3892)

341. mál, sala jarðarinnar Streitis

Frsm. minni hl. (Eiður Guðnason):

Virðulegi forseti. Hvað sem öðru líður held ég að sé rík ástæða til að athuga þetta mál svolítið nánar. Eins og fram hefur komið hér eru uppi óskir frá aðilum í hreppnum um að fá jörðina keypta. Ég hygg að það muni vera einsdæmi á Alþingi ef frv. verður samþykkt um að selja jörð og flytja eignarhaldið á henni suður á Reykjavíkursvæðið meðan fyrir liggja óskir úr sveitarfélaginu um að fá jörðina keypta. Ég hygg að það muni vera einsdæmi. Það kemur þá í ljós. (StB: Það er nýja byggðastefnan.) Það er sjálfsagt hin nýja byggðastefna, eins og hv. 8. þm. Reykv. segir. Það má vel vera.

Varðandi það sem hv. 5. þm. Vesturl. sagði og þær óskir hans, sem hann bar fram hér í ræðustól, að ég mætti sem fyrst flytja úr Vesturlandskjördæmi og sem lengst án þess að fara af landi brott, því lengra er ekki hægt að komast en austur að Streiti, held ég, verð ég að hryggja hann með því... (EgJ: Þú verður boðinn velkominn til Austurlands.) Ég veit allt um gestrisni Austfirðinga og kvíði engu í þeim efnum. En ég verð að hryggja hann með því að ég hef aldrei flust í Vesturlandskjördæmi. Ég átti lögheimili í Reykjavík þegar ég fór í framboð 1978 og ég á það enn vegna þess að ég hef ekki kosið að taka þátt í þeim leik sem er fólginn í því að flytja án þess að flytja.