19.04.1986
Neðri deild: 89. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 4221 í B-deild Alþingistíðinda. (3897)

238. mál, Siglingamálastofnun ríkisins

Frsm. (Stefán Valgeirsson):

Herra forseti. Ég verð að játa að ég hef ekki séð þessa breytingu fyrr en núna, þ.e. fyrri breytinguna á þskj. 918. Ég hef verið annars staðar á nefndarfundi síðan kl. 9 í morgun. Eins og nefndin í Nd. gekk frá frv. stóð í 5. gr.:

„Siglingamálastofnun ríkisins skal skipt í deildir samkvæmt nánari ákvæðum í reglugerð. Heimilt er siglingamálastjóra að ráða trúnaðarmenn Siglingamálastofnunar utan höfuðborgarsvæðisins og ákveður ráðherra þeim þóknun að fengnum tillögum siglingamálastjóra.“

Breytingin sem hefur orðið á þessu er sú að ráðherra ræður annað starfsfólk stofnunarinnar að fengnum tillögum siglingamálastjóra. Það er að vísu ekki stórvægileg breyting, en ég hef ekki getað borið mig saman við aðra nefndarmenn.

Síðari brtt. er við 6. gr. 5. málsgr. orðist svo: „Siglingamálastjóri situr fundi siglingamálaráðs ásamt þeim embættismönnum stofnunarinnar, sem hann telur ástæðu til eða ráðið óskar eftir, með málfrelsi og tillögurétti.“

Það verður að segjast eins og er að það var búið að ganga frá þessari till. í nefndinni en hún féll niður af einhverri ástæðu í vélritun og er þetta þess vegna raunar till. nefndarinnar. (Forseti: Ég vil spyrja formann samgn. hvort hann hyggist kveðja nefndina saman til fundar nú.)

Herra forseti. Ef enginn gerir athugasemd af þeim nefndarmönnum sem hér eru inni tel ég ekki ástæðu til þess. (Forseti: Forseti lítur þá svo á að samgn. hafi ekkert við þessa breytingu að athuga sem gerð hefur verið í Ed.)