17.10.1985
Sameinað þing: 4. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 64 í B-deild Alþingistíðinda. (39)

Stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana

Kristín Halldórsdóttir:

Herra forseti. Góðir hlustendur. Vandi ríkisstjórnarinnar er mikill nú í upphafi þings. Sá vandi er tvíþættur. Annars vegar er sá innanbúðarvandi sem þjóðin hefur fylgst með í vaxandi undrun síðustu vikur og mánuði. Vandi sem á rætur í píramídakerfi gömlu flokkanna, og einkennist af brjóstumkennanlegu eiginhagsmunapoti og valdabrölti. Í slíku kerfi fer lítið fyrir bræðralagi og systurþeli. Þar gildir réttur hins sterkari og þar er grunnt á hefnigirnina ef einhverjum finnst við sér stjakað. Þá hika skapstórir menn og siðblindir ekki við að misnota aðstöðu sína til að ná sér niðri á samflokksmönnum. Það skelfir mig hvað slíkur leikur getur gengið langt án þess að nokkur virðist geta rönd við reist. Og það skelfir mig hvað margir virðast njóta þessa leiks. Fyrir slíkum mönnum eru stjórnmál íþróttagrein. Fyrir slíkum mönnum er stjörnuleikur meira virði en samvinna að settu marki.

Fjarri er mér að vilja spá illa, en mig grunar og ég óttast að við eigum eftir að sjá fleiri ljótar leikfléttur áður en blásið verður til leiksloka. Fyrrverandi fjmrh. lætur tæplega skáka sér í óhægari stöðu á vellinum til þess að gleymast þar úti á kanti. Stjörnuleikur er hans fag hvað sem það kostar, jafnvel nokkur hundruð milljónir af sameiginlegu fé landsmanna. Innanbúðarvandinn er því engu minni en áður og með þann vanda á herðunum er lítil von að þessari ríkisstj. takist að ráða við þann vanda sem hún var kjörin til að glíma við. Vanda sem hún hefur magnað fremur en minnkað.

Lækkun erlendra skulda er orðin eitt mikilvægasta markmiðið í efnahagsmálum þjóðarinnar, sagði forsætisráðherra í ræðu sinni hér fyrr í kvöld, og skyldi engan undra þegar vaxtagreiðslur af erlendum skuldum nema hærri upphæðum en ætlaðar eru til fjárfestingar í landinu. Það er hins vegar hálf kyndugt að tala um þetta eins og nýuppgötvaðan vanda. Sívaxandi skuldabyrði þjóðarinnar hefur verið helsta áhyggjuefni allra hugsandi manna mjög lengi, m.a.s. Kvennalistakvenna eins og menn segja stundum þegar þeir eru að reyna að gera lítið úr Kvennalistanum og gefa í skyn að konur hafi ekkert vit á efnahagsmálum, þar dugi aðeins stórhugur karla og fjármálavit, eins og þar sé um líffærafræðilegan eiginleika að ræða. Sannanirnar sjáum við gleggst í ríkisbúskapnum. Var annars nokkur að tala un rekstrarhalla ríkissjóðs umfram áætlun, óskynsamlegar fjárfestingar, lækkandi kaupmátt, svimandi viðskiptahalla, kreppu í sjávarútvegi, öngþveiti í húsnæðiskerfinu? Jú, á þetta hefur sannarlega verið minnst, því allt eru þetta staðreyndir og enginn hugarburður svartsýnna stjórnarandstæðinga þrátt fyrir að þjóðin hafi verið svo lánsöm að njóta starfskrafta og fjármálasnilli jakkafatakynsins. Kannske hefur fjármálavitið ekkert með líffærafræði að gera þegar allt kemur til alls.

Aukning útflutningstekna er meginviðfangsefnið nú og framvegis, auk sparnaðar og skynsamlegra fjárfestinga. Kvennalistinn hefur ekki verið sammála þeim leiðum sem farnar hafa verið í sparnaðarskyni og þaðan af síður fjárfestingarstefnu núverandi ríkisstj., enda eru nú smám saman að opinberast þær ógöngur sem leiða af röngum áherslum. Vandi heimilanna og einstaklinganna er margumtalaður enda þungbærastur. En minna hefur verið fjallað um þann hrikalega vanda sem er að skapast víða um landið vegna skulda ríkissjóðs við mörg sveitarfélög, Í hádegisfréttum útvarpsins í dag var rætt við bæjarfulltrúa á Akureyri þar sem hann lýsti því yfir að vangreidd framlög ríkissjóðs vegna framkvæmda sem þegar er lokið næmu nálægt 50 millj. kr. Þetta er því miður ekki einsdæmi þótt víðast sé um lægri tölur að ræða. Sú staðreynd blasir við að þær upphæðir sem ætlaðar eru til byggingar grunnskóla, sjúkrahúsa, dagvistarheimila, hafna og flugvalla á næsta ári, duga ekki einu sinni fyrir vangoldnum lögbundnum framlögum ríkissjóðs. Þetta minnir á hve áríðandi er orðið að gjörbreyta stjórnkerfinu í þá átt að gera sveitarfélögin ábyrgari og sjálfráðari um sín mál. Við göngum nú í gegnum tímabil erfiðleika og breytinga í atvinnuháttum. Fá orð hafa líklega heyrst oftar nefnd í opinberri umræðu undanfarin tvö til þrjú ár en „nýsköpun“ og „uppbygging í atvinnulífinu“. Í þeirri umræðu hafa konur verið allt of hljóðar. Þátttaka kvenna í atvinnulífinu hefur vaxið gífurlega síðustu tvo áratugi og þær bera nú uppi að miklu eða öllu leyti fjölmargar starfsgreinar. Þar er fyrst og fremst um að ræða hin hefðbundnu kvennastörf, sem lúta að umönnun, uppeldi og fræðslu, svo og fiskvinnsluna. Konur hafa þó haslað sér völl á nánast öllum sviðum atvinnulífsins en þær hafa hins vegar lítinn þátt átt í mótun þess, enda aldrei spurðar. Þetta þarf að breytast. Konur mega ekki sætta sig við áhrifaleysi sitt og bíða þess eins sem verða vill. Það er áríðandi að þær séu virkar í mótun og uppbyggingu atvinnulífsins en láti ekki karlana eina um það. Þær mega ekki líta á forræði og frumkvæði karla sem óhagganlegt náttúrulögmál.

Hvað vilja þá konur í þessum efnum? Hvernig vilja konur að atvinnulíf þróist á næstu árum og áratugum? Eru þær sáttar við þá áherslu sem lögð hefur verið á byggingu orkuvera og aukinn þungaiðnað eða vilja þær efla smáiðnað af ýmsu tagi? Eru konur sammála því að atvinnuþróuninni sé stýrt með mismunun í lánakjörum, niðurfellingu gjalda eða á annan hátt? Er staðið rétt að eflingu loðdýraræktar og fiskeldis sem nú njóta mestrar hylli stjórnvalda? Vilja konur stuðla að eflingu ferðaþjónustu og þá á hvern hátt? Óttast konur samdrátt í fiskvinnslu og hvernig er rétt að mæta þeim vanda? Á hvað ber okkur að leggja áherslu við eflingu útflutningsgreina, vörur úr innlendu eða innfluttu hráefni, matvæli, ullarvörur, húsgögn, hugbúnað, þekkingu, t.d. í sjávarútvegi?

Þetta er aðeins brot af þeim spurningum sem konur verða að spyrja sjálfar sig og hver aðra. Þær verða að koma skoðunum sínum á framfæri. Annars geta þær ekki vænst þess að hafa áhrif á mótun og uppbyggingu atvinnulífsins.

Við Kvennalistakonur höfum spurt okkur þessara spurninga og margra annarra. Í svörum okkar leggjum við áherslu á þrjú meginatriði:

1. Við teljum Íslendinga fyrst og fremst matvælaframleiðendur og að okkur beri að leggja áherslu á framleiðslu úr innlendu hráefni.

2. Við viljum varðveita landið okkar fyrir mengun og náttúruspjöllum og erum sannfærðar um að einmitt sú stefna sé arðvænlegri til langframa en stóriðjustefna.

3. Við viljum að mannlegi þátturinn sé ekki minna metinn við mótun atvinnulífsins en fjárhagslegur hagnaður.

Það er einnig bjargföst skoðun okkar að menntun og þekking sé grundvöllurinn að uppbyggingu atvinnulífsins og því beri að leggja megináherslu á menntun og rannsóknastarfsemi. Góð menntun uppvaxandi kynslóðar er öllu öðru mikilvægari og raunverulega það sem við getum síst sparað við okkur.

Herra forseti. Góðir hlustendur. Kvennalistinn heitir á allar konur að hugsa um þessi mál, ræða þau og láta til sín taka. Við megum ekki gleyma að við erum að leggja grunninn að framtíð barna okkar, framtíð þar sem konur eiga að vera jafnvirtir þátttakendur í atvinnulífinu og karlar.

- Ég þakka þeim sem hlýddu. Góða nótt.