06.11.1985
Neðri deild: 13. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 460 í B-deild Alþingistíðinda. (390)

28. mál, skattafrádráttur fyrir fiskvinnslufólk

Guðmundur J. Guðmundsson:

Herra forseti. Ég skal reyna að halda mig við reglur hér, þ.e. að vera ekki mjög langorður þótt ærin ástæða væri til eftir þann málflutning sem hér hefur verið við hafður og olli mér ákaflega miklum vonbrigðum. Hér hafa verið settar fram alls konar fullyrðingar. Þær hafa verið hraktar vel og skilmerkilega af hv. þm. Sighvati Björgvinssyni. Ég get ekki álasað hv. þm. þótt hann hafi verið nokkuð langorður vegna þess að ekki hefur verið hrakið eitt einasta orð sem hann setti fram. Ég held að hann hafi tætt í sundur þennan málflutning og þær fullyrðingar sem settar voru fram.

Ég vil þó bæta einu við og það er í sambandi við skattafrádrátt sjómanna. Það mundi vera hægt að mistúlka það ef einhver væri á þeirri skoðun að þetta ógnaði eitthvað þeirra skattafrádrætti. Því hef ég vissu fyrir að sjómenn og m.a.s. er einn af þeirra fulltrúum, hv. þm. Pétur Sigurðsson, einn af fjölda forustumanna úr sjómannastétt sem hafa lýst því yfir að þeir styðji algerlega skattafrádrátt fiskvinnslufólks því að það komi engum verr en þeim ef ekki sé hægt að vinna aflann og það sé á engan hátt frá þeirra hendi tekið sem aðför að sér. Ég vil þess vegna ítreka að skattafrádráttur sjómanna stendur fyrir sínu. Hann á sér ákaflega djúpan rétt, eins og sést á því að gripið hefur verið til þess að hækka hann, sem betur fer, þing eftir þing, síðast í fyrravetur ef ég man rétt, af hæstv. þáv. fjmrh.

Eins og hv. þm. Sighvatur Björgvinsson tók fram hét þetta upphaflega hlífðarfatakostnaður. Það kostaði ákaflega langa baráttu fyrir sjómannasamtökin að fá þetta fyrir farmenn líka. Það var ekki fyrr en þó nokkru síðar að þetta náðist fyrir farmenn. Upphaflega var þetta fiskimannafrádráttur sem styður það enn betur að höfuðröksemdin hafi ekki verið fjarvera frá heimili. Að vísu eru það ákaflega sterk rök fyrir kröfum sjómanna og skilyrði allra góðra hluta í þessu þjóðfélagi að góðir menn fáist til þeirra starfa.

Það er ákaflega furðulegt að heyra því mótmælt að hér hafi komið undirskriftir og ályktanir í þessum efnum. Það er sennilega fyrir æsku sakir. En hér hafa verið samþykktar í hverju verkalýðsfélaginu á fætur öðru um árabil áskoranir til Alþingis um að yfirvinna í fiskvinnslu væri skattfrjáls. Ég álít það nokkuð hæpna leið. Ekki nóg með það, heldur hefur þetta verið samþykkt á þingum Alþýðusambandsins sem áskorun til Alþingis, á þingum Verkamannasambandsins og, eins og ég segi, fjölmargra verkalýðsfélaga.

Hér hafa verið flutt frv. - og þau meira að segja verið samþykkt þó að þau hafi verið síðan afnumin áður en að þau komu til framkvæmda - um að yfirvinna hjá fiskverkunarfólki væri frádráttarbær frá skatti. Ég man ekki betur en þessi till. hafi verið samþykkt og flm. hafi verið m.a. Karl heitinn Guðjónsson og Gunnar heitinn Jóhannsson. Málið er ekkert að koma hér inn í þingsali. Það er allt of mikið haft við okkur Sighvat Björgvinsson að þetta sé einhver frumsmíð okkar og ríkt hugmyndaflug okkar. Þetta er krafa úr tugum verkalýðsfélaga, samþykktir aðalfunda, samþykktir fjórðungssambanda verkalýðsfélaga, samþykktir þinga verkalýðsfélaga sem hlut eiga að máli.

Svo er verið að tala um að við höfum ríkt hugmyndaflug þegar við tökum upp þessar kröfur sem hafa verið uppi um árabil og hér hafa áður verið flutt hliðstæð frv. um sem eru efnislega þau sömu, að vísu meira í því formi að yfirvinna yrði skattfrjáls. Sjómenn háðu ákaflega harða baráttu fyrir þessu. Ég þekki töluvert til sjómanna og er af þeim kominn. Ég minnist þess að fjölmargir sjómenn, sem ég hef rætt við, töldu það bestu samninga, sem gerðir hefðu verið, þegar sjómannasamtökin - og þá ekki síst Sjómannafélag Reykjavíkur - náðu fram þessum skattafrádrætti. Undir öllum kringumstæðum var þetta lausn sem þeir mátu til kjarabóta. Ef ætti að afnema þennan frádrátt mundi verða alger mannekla á fiskiskipa- og farmannaflotanum, þetta þykja það sjálfsagðir hlutir.

Um skattkerfið yfirleitt skal ég vera fáorður. Hv. þm. Jón Baldvin Hannibalsson gerði því góð skil. Það þarf ekki að hafa um það mörg lýsingarorð. Allt sem sagt hefur verið um þetta, mismunun í því, frádráttarliði, bót ofan á bót, mismunun þegna, virðist ekki snerta fólk nema mjög takmarkað fyrr en komið er að þessu fiskverkunarfólki. Vitanlega þarf að taka öll skattalögin og endurskoða þau með það fyrir augum að almennt launafólk væri ekki með tekjuskatt nema þá að bæði kæmu ný skattalög og skattaeftirlit sem væri virkt. Vitanlega yrðu þá að vera viðurlög við skattsvikum.

Ég get ekki stillt mig um að skjóta því hér inn í ræðu mína að ég hef löngum verið undrandi á vinnubrögðum bæði skattstofu Reykjavíkur og annarra skattstofa á landinu. Það henti mig um daginn að ég þurfti að biðja um skattaframtal hjá ungum verkamanni sem hafði unnið sem daglaunamaður og hafði átt við veikindi að stríða. Skattaframtal hans fannst ekki. Hvernig má á því standa? Jú, ég fékk svörin. Það er í rannsókn. Það voru einhverjir kontóristar á skattstofunni að rannsaka skattaframtöl. Er orlof rétt framtalið hjá þessum manni? Ég held að hann hafi varla náð 200 000 kr. í tekjum vegna veikinda. Er orlof rétt fram talið? Yfir þessu sitja skrifstofumenn. Hér var verið að upplýsa okurmál nýlega sem skiptir hundruðum milljóna og hefur verið almannarómur í þessum bæ að það sé búið að vera gegnumgangandi í fjármálakerfinu í lengri tíma. Ég held aldrei hafi verið litið á þessa aðila. Ég er ákaflega hræddur um að skattstofur í landinu þyrfti hreinlega að taka fyrir og rannsaka þeirra vinnubrögð, ekki vegna þess að það sé ásetningur starfsmanna að hlífa einhverjum einstaklingum. Að hverju er þessum vinnukrafti beint? Er honum beint að því að rannsaka þar sem verulega er von á skattsvikum eða er verið að elta uppi einhverja einstaka verkamenn af því að þeir hafa haft frekar litlar tekjur? Ég leyfi mér að draga mjög í efa stjórn á þessum stofnunum og vinnubrögðum öllum. Mér sýnist allt þetta, ekki einungis skattalögin, heldur framkvæmd öll og eftirlit algjört hneyksli. attstofa á landinu. Það henti mig um daginn að ég þurfti að biðja um skattaframtal hjá ungum verkamanni sem hafði unnið sem daglaunamaður og hafði átt við veikindi að stríða. Skattaframtal hans fannst ekki. Hvernig má á því standa? Jú, ég a. Jú, ég

Snúum okkur aftur að fiskverkunarfólki. Það var verið að tala um Færeyinga á sínum tíma sem björguðu okkur í sjómannsstörfum. Það er fyrirsjáanlegt að nákvæmlega sama þróun er að ganga yfir hér. Hér er verið að sækja um vaxandi fjölda starfa fyrir erlent vinnuafl og það er hægt að greiða því ferðakostnað frá London (SighB: Sem gert var fyrir Færeyinga líka á sínum tíma.) og það var gert fyrir Færeyinga líka. Það er frá Nýja-Sjálandi og Ástralíu. Það er vitað mál líka að hluti af þessu fólki - hluti af því, það er dálítið misjafnt - fær greiddan hluta af fæðiskostnaði og í mörgum tilfellum ókeypis húsnæði. Ég man eftir að ein fiskverkunarkona sagði við mig að það sem hún ætlaði sér að gera væri bara að fara til London og ráða sig þar í frystihús á Íslandi. Þá mundi hún stórhækka í kaupi.

Svona vinnubrögð og að geta ekki horft á hvernig ástandið er, að þetta fólk vinnur, það er rétt og satt að kaup þess er allt of lágt, en það ræður ekki sínum vinnutíma eins og ég var að segja í fyrri ræðu minni. Það leggur oft á sig nótt og dag og óhemju langan vinnutíma. Tillit verður að taka til þeirra hluta ef borin eru saman mánaðarlaun hjá kennurum og þessu fólki; sé ég þó engum ofsjónum yfir launum kennara. Hvað skyldu margar vinnustundir liggja á bak við það að ná 400 000 í fiskvinnslu? Ef þessu fólki heldur áfram að fækka höfum við ekki efni á að hafa hér neinn kennara, ekki nokkurn, og það er rétt sem hv. þm. Garðar Sigurðsson sagði: Haldi þessi þróun áfram með vaxandi hraða er annaðhvort að verða bara fylki í Bandaríkjunum eða flytja til Ástralíu. Átta þm. sig ekki á því, þó ungir séu, að ekki verður lifað í þessu landi án vinnu þessa fólks? Það er tekið undir það; sjálfur stend ég í samningum um kjarabætur fyrir þetta fólk og ég skal segja ykkur það að það er ekki jafnerfitt að semja fyrir neina aðila og þetta fólk. Vegna hvers? Það er mun auðveldara að semja við t.d. iðnmeistara sem selja út vinnu viðkomandi sveina, viðkomandi verkamanna. Við skulum segja að kaupið sé 150 krónur. Þeir leggja 35% ofan á það eða einhverja ákveðna prósentutölu. Af hverju skyldu þeir ekki alveg eins samþykkja að kaupið væri 200 krónur og að þeir fengju að leggja sín 35% ofan á það?

Gagnvart sjávarútveginum hljóta menn að átta sig á að er sú staða að ekki er hægt að velta þessu út í verðlagið. Ég tók fram í fyrri ræðu minni að ég teldi að það væri skammsýni ríkjandi að ganga ekki betur á móti kröfum þessa fólks, en engu að síður verður að viðurkenna einföldustu staðreyndir eins og þær að útflutningsatvinnuvegir geta ekki velt þessu jafnlétt út í verðlagið og þeir sem selja vinnu.

Ég skal ljúka máli mínu. Ég fór yfir þetta í fyrri ræðu og ekkert nýtt hefur komið fram sem meðflutningsmaður minn hefur ekki þegar hrakið.

Ég vil vara við því að menn komi með einstök dæmi eins og hv. 10. landsk. kemur með. Ég gæti komi með dæmi sem eru allt öðruvísi. Það er rétt sem hv. þm. Sighvatur Björgvinsson segir. Um þetta á þingnefnd að fá nákvæma umsögn frá viðkomandi skattayfirvöldum. Ég get svo af heilum hug tekið undir það, ítrekað afstöðu mína til þess, að tekjuskattur er orðinn launamannaskattur. Ég held að þetta yrði m.a. til þess að velta því skrímsli úr sessi.

Ef sjómenn hafa metið skattafrádrátt sem einar þær bestu kjarabætur sem þeir hafi fengið þegar atvinnulíf á Íslandi var hreinlega að lognast út af vegna þess að engir fengust til sjómannsstarfa, hví skyldi það þá ekki líka vera með fiskverkunarfólk þar sem fiskiðnaður í landinu er að hrynja niður vegna þess að fólk fæst ekki til þessara starfa? Þeir hv. þm. sem tala á móti þessu eru þá ósammála verkakvennafélögum hvar sem er á landinu sem leggja gífurlegt kapp á þessar kröfur. Mér kæmi það ekki á óvart, vegna þess að samstaða fiskvinnslufólks er að batna, að það ættu eftir að koma, þó ég ætli mér ekki að skipuleggja það, undirskriftir frá hundruðum og þúsundum fiskverkunarfólks. Þar mun ábyggilega kveða við annan tón en kemur fram hjá virðulegum konum hér á Alþingi, kveða þar við annan tón!