19.04.1986
Neðri deild: 89. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 4222 í B-deild Alþingistíðinda. (3902)

401. mál, söluskattur

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Ég er sammála því að nauðsynlegt er að eyða óvissu við innheimtu söluskatts í framhaldi af úrskurði ríkisskattanefndar 17. okt. 1985 sem eru aðalrökin fyrir flutningi frv. þessa. Hins vegar er ljóst að frv. þetta getur haft það í för með sér að fjmrh. ákveði að leggja söluskatt á innri þjónustu ríkisfyrirtækja, t.d. fyrirtækis eins og ríkisspítalanna svo að dæmi sé nefnt, en á vegum þeirra er um að ræða ýmsa starfsemi, þvottahús, mötuneyti o.fl., sem skv. orðanna hljóðan í þessum texta gæti orðið söluskattsskyld ef ákvæði 1. gr. frv. væru útfærð út í hörgul.

Af þessum síðarnefndu ástæðum treysti ég mér ekki til að mæla með samþykkt frv. en mun ekki leggjast gegn því við meðferð málsins hér þar sem nauðsyn ber til að koma til móts við þau sjónarmið sem eru aðallega talin fram í grg. þess varðandi úrskurð ríkisskattanefndar frá 17. okt. 1985.

En í tilefni af þessu, herra forseti, vil ég vekja athygli á því að í greininni er mjög rúm heimild fyrir fjmrh. til að setja reglur í þessu efni. Hún er satt að segja ótrúlega rúm. Þar stendur:

„Ráðherra setur nánari reglur um hvaða eigin þjónusta og starfsemi falli hér undir og á hvaða verði hún skuli reiknuð.“

Það mun vera þannig samkvæmt lögum að ráðherra gæti eftir þessum texta ákveðið að hv. 2. þm. Norðurl. v. skuli borga söluskatt þegar hann gerir við dráttarvélar sínar. (HBI: Sem rétt er líka og sanngjarnt.) Það er kannske hugsanlegt að hv. þm. geri þetta aldrei sjálfur, en ég nefni þetta nú, herra forseti, til að skýra mál mitt og til að færa það sem næst þingdeildarmönnum.

Ég vil þess vegna í tilefni af þessu leyfa mér að spyrja hæstv. fjmrh, hvaða áform hann hefur uppi varðandi efnisatriði þeirrar reglugerðar sem gert er ráð fyrir í 1. gr. þessa frv. að hann setji.

Fjmrh. (Þorsteinn Pálsson): Herra forseti. Vegna fsp. hv. 3. þm. Reykv. vil ég taka fram að það hafa engar ákvarðanir verið teknar sem lúta sérstaklega að skattlagningu á hv. 2. þm. Norðurl. v.