19.04.1986
Neðri deild: 89. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 4224 í B-deild Alþingistíðinda. (3905)

401. mál, söluskattur

Friðrik Sophusson:

Herra forseti. Ég er einn þeirra sem standa að því nál. sem hér er til umræðu ásamt frv. til l. sem er að finna á þskj. 742. Það hefur þegar verið rakinn aðdragandi þessa máls sem er fyrst og fremst sá að ríkisskattanefnd hefur viðurkennt að viðgerðarþjónusta ýmis annars vegar og starfsemi með lyftara hjá Eimskipafélagi Íslands sé ekki söluskattsskyld þjónusta innan fyrirtækisins. Til að koma í veg fyrir mikið tekjutap ríkissjóðs, sem mundi hljótast að því ef Hæstiréttur kæmist að sömu niðurstöðu og ríkisskattanefnd, er þetta frv. flutt.

Ég held að það sé fyllilega tímabært að löggjafinn skýri betur þær reglur sem menn hafa talið að væru hér í gildi í söluskattslögunum. Sem dæmi má nefna að þegar annað skipafélag, Hafskip hf., hafði starfsemi í Reykjavíkurhöfn leigði Hafskip krana og varð að borga söluskatt af þeirri þjónustu, en Eimskipafélagið samkvæmt þessum úrskurði þarf ekki að greiða söluskatt af nákvæmlega sams konar þjónustu því að lyftarinn eða kraninn er í eigu Eimskipafélags Íslands.

Mér er líka kunnugt um það sem atvinnurekanda í tómstundum að t.d. hjá frystihúsum þar sem starfandi eru bílaviðgerðarmenn þarf að telja fram til söluskatts þá vinnu sem þar fer fram við bílaviðgerðir. Það er að sjálfsögðu gert hjá þeim fyrirtækjum þar sem ég þekki til, en ég efast ekki um að það er ekki alls staðar sem slíkt gerist. Ég er viss um að í landbúnaði mun ekki vera tíundað þegar bændur gera við sínar vélar, stórar og smár, enda erum við þar kannske komin á mörk hins óframkvæmanlega. Ég tel að þetta frv., þótt samþykkt verði, leiði ekki til þess að lagður verði söluskattur á vinnu bænda, hvorki hv. 2. þm. Norðurl. v. né annarra, þegar þeir af sinni miklu kunnáttu í vélaviðgerðum leggjast undir sínar dráttarvélar og heybindivélar og gera við. Hérna er fyrst og fremst verið að ná til miklu stærri aðila sem hafa meiri þýðingu fyrir ríkissjóð.

En ég stend hér upp aðallega vegna orða hv. 3. þm. Reykv. sem skoraði á hæstv. ráðh. að útbúa reglugerð á grundvelli þess lagaákvæðis sem hér er verið að fjalla um á þann veg að söluskattsskyldan næði ekki til ýmissa ríkisfyrirtækja, þar á meðal ríkisspítala. Sá sem hér stendur í ræðustól er formaður stjórnarnefndar ríkisspítala og hann skrifaði undir nál. m.a. í fullvissu þess að söluskattur verði lagður á starfsemi ríkisspítala, einkum og sér í lagi mötuneyti og þvottahús, vegna þess að aðeins með þeim hætti er hægt að ná fram jafnræði á milli þeirrar starfsemi sem fer fram innan stórfyrirtækjanna og hinna sem starfa utan við stórfyrirtækin.

Ég vil nefna dæmi: Við sem störfum við ríkisspítala ákváðum á sínum tíma vegna bréfs sem við fengum frá heilbrrn. að bjóða út ákveðið mötuneyti innan ríkisspítalanna. Það var gert. Nú kemur í ljós að sá sem sér um þessa þjónustu fyrir ákveðinn þátt ríkisspítalastarfseminnar er krafinn söluskatts. Þá bresta forsendur fyrir frekari útboðum því að hjá þessu stórfyrirtæki er augljóslega hagkvæmara að bjóða ekki út. Betra er að ráða til sín starfsfólk og byggja húsnæði fremur en að versla við aðra aðila úti í bæ sem þó má telja og sýna fram á að selji sína þjónustu ódýrar en spítali mundi vera fær um að gera með sínu starfsfólki, einfaldlega vegna þess að ýmis sérhæfð fyrirtæki í þessum rekstri, þ.e. í framleiðslu á unnum matvörum, geta gert þetta betur, hafa til þess betri aðstöðu og kannske meiri leikni.

Ég treysti því að með reglugerðarvaldið verði þannig farið að það komi í veg fyrir að ýmis fyrirtæki, bæði ríkisfyrirtæki og önnur fyrirtæki, ráði til sín menn til að stunda vinnu sem er söluskattsskyld annars staðar. Það er til dæmi um að eitt fyrirtæki sem er í opinberri eigu og rekur bíó í Reykjavík hafi ráðið til sín bólstrara til að bólstra sæti í bíóinu til að koma í veg fyrir að bíóið þurfi að greiða söluskatt. Þannig myndast auðvitað ójafnræði á milli starfsemi sem á sér stað í því kvikmyndahúsi og hjá öðrum sem þurfa að kaupa þjónustu annars staðar að.

Það er líka nauðsynlegt að hafa í huga að ef Alþingi Íslendinga eða hæstv. fjmrh., sem hefur til þess heimild í lögunum, hver sem það verður í framtíðinni, vill fækka undanþágum sem nú eru, t.d. hjá ýmsum þjónustugreinum hjá háskólamenntuðum mönnum, t.d. hjá lögfræðingum, endurskoðendum eða verkfræðingum, þá hefur hæstv. fjmrh. heimild til að hverfa frá undanþágunum hvað varðar verkfræðinga og endurskoðendur. Reyndar er þetta lögbundið um lögfræðinga og lækna. Þetta er því aðeins hægt að gera ef það er sleginn sá varnagli, hafður sá fyrirvari, að sú starfsemi sem þá verður stunduð innan stórfyrirtækjanna, þegar þau ráða til sín lögfræðinga, endurskoðendur og verkfræðinga, verði söluskattsskyld á sama hátt og hjá þeim sem starfa úti í bæ, annars staðar en hjá þessum stóru fyrirtækjum.

Það er af þessum ástæðum, herra forseti, og vegna orða hv. 3. þm. Reykv. sem ég tel nauðsynlegt að það komi fram að a.m.k. ég, sem skrifa undir þetta nál., ætlast til þess að hæstv. ráðh. fylgi eftir þeirri heimild til setningar á reglugerð sem kemur fram í þessu frv. til þess að jafnræði verði og sérhæfing geti aukist hjá íslenskum fyrirtækjum.

Auðvitað er það rétt, sem fram hefur komið oft þegar þessi mál eru rædd, að ríkið ætti ekki að leggja söluskatt á sjálft sig því að það sé verið að borga þá á milli sömu vasa. Það hefur þó þá þýðingu að þegar niðurstöðutölur sjást er aðeins um samanburðargrundvöll að ræða, ef söluskattur er lagður á opinberu þjónustuna jafnt og einkaþjónustuna, og það verður enn fremur til þess að opinberir aðilar geta í ríkari mæli en hingað til sóst eftir þjónustu frá aðilum sem eru sérfræðingar á sínu sviði úti í bæ og kunna til verka og framkvæma verk oft með minni tilkostnaði en þegar ráða þarf sérstaka starfsmenn sem kannske hafa ekki nema tímabundin verkefni hjá opinberum fyrirtækjum.

Þetta, herra forseti, tel ég nauðsynlegt að komi fram af minni hálfu.