19.04.1986
Neðri deild: 89. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 4227 í B-deild Alþingistíðinda. (3907)

401. mál, söluskattur

Fjmrh. (Þorsteinn Pálsson):

Herra forseti. Svo sem fram kemur í frv. sjálfu og í framsögu með því þá var tilefni þess að þetta frv. var flutt úrskurður ríkisskattanefndar sem féll á síðasta ári og leiddi til þess að þeirri framkvæmd, sem verið hefur á skattlagningu eigin þjónustu, var stefnt í verulega tvísýnu. Og það hafa komið fram af hálfu hagsmunasamtaka í atvinnulífinu mjög ákveðnar kröfur þess efnis að skattaleg aðstaða fyrirtækja verði jöfnuð með ótvíræðri lagasetningu. Auðvitað gengur ekki að setja lög sem einungis lúta að Eimskipafélagi Íslands þó að úrskurðurinn, sem var tilefni þess að flytja þetta frv. hér inn á Alþingi, gengi um söluskatt á eigin þjónustu innan þess fyrirtækis. Lög verða að kveða á um almennar reglur og hér er það gert með mjög ótvíræðum hætti og fyrst og fremst til þess að koma í veg fyrir mismunun. Það getur verið á fleiri sviðum en varðandi vélavinnu þó að úrskurður ríkisskattanefndar hafi verið um þess konar vinnu. Heimildin verður að vera almenn og taka til fleiri atvinnugreina en þeirrar einnar sem varða beint tilefni lagasetningarinnar.

Það er rétt, sem kom fram hjá hv. 2. þm. Reykv., að það er ekki unnt að bera saman kostnað við rekstur innan fyrirtækja, hvort heldur það eru einkafyrirtæki eða ríkisfyrirtæki, nema að skattlagningin sé sú hin sama. Þess vegna eru þau sjónarmið mjög skýr og þetta frv. miðar að því einu að tryggja að eins sé farið með skattlagningu, hvort heldur hún er hluti af starfsemi stærra fyrirtækis, einkafyrirtækis, eða ríkisfyrirtækis, eða innan fyrirtækis sem hefur sérhæft sig í ákveðinni þjónustu.

Að því er varðar þær vangaveltur, sem hér hafa komið fram, um valdframsal að því er varðar skattlagningu, þá skal ég fyllilega taka undir það að ástæða er til að gæta þess. En í þeim tilvikum þar sem dómar hafa fallið um að Alþingi hafi framselt vald í andstöðu við stjórnarskrána, þá hefur það lotið að því að um hefur verið að ræða framsal á skattlagningunni sjálfri. Það sem hér er lagt í vald ráðherra er að takmarka skattlagninguna í þeim tilvikum þar sem vafi getur leikið á. Og í grg. frv. er greinilega skýrt út hvað við er átt í þessu efni. Hér er tekið dæmi af því að skrifstofuþjónusta yrði ekki talin tilefni til skattlagningar þó að hún sé ekki nema hluti af þeirri starfsemi sem fram fer innan stærra fyrirtækis. Það er í tilvikum sem þessum, sem auðvitað geta verið fjölmörg og af ýmsu tagi, sem ráðherra er gefið vald til þess að takmarka skattlagninguna en ekki að færa hana út. Á þessu er reginmunur og ég geri ekki ráð fyrir því að Hæstiréttur kæmist að þeirri niðurstöðu að þess konar framsal valds til ráðherra yrði talið stangast á við ákvæði stjórnarskrárinnar.