19.04.1986
Neðri deild: 89. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 4228 í B-deild Alþingistíðinda. (3908)

401. mál, söluskattur

Frsm. (Páll Pétursson):

Herra forseti. Ég held að það sé óþarfi að vera að gera því skóna að hæstv. fjmrh. fari að setja reglugerð sem óbúandi sé við. Ég er t.d. ekki til viðtals um að fara að borga söluskatt af viðgerðum sem ég eða mínir starfsmenn framkvæma á búvélum mínum heima á Höllustöðum. Fjmrh. setur að sjálfsögðu ekki reglugerðarákvæði sem gera þjóðarbúskapinn óskynsamlegan. Ég vil a.m.k. ekki að óreyndu ætla honum það.

Ég er ekki sammála hv. 2. þm. Reykv. um það að veitingamenn úti í bæ búi til heppilegra fæði fyrir sjúklinga en gert er á sjúkrahúsunum og mér þykir nokkuð skjóta skökku við. Það hefur illa skipt um hv. 2. þm. Reykv. sem gengur nú upp í sérfræðingahagsmunagæslu en í gær var hann akkúrat að tala á móti einkarétti sérfræðinganna í umræðum um frv. um lögverndun á starfsheiti kennara. Það er víst ekki sama hver sérfræðingurinn er. Sérfræðingar, menntaðir kennarar eru að sjálfsögðu sérfróðir í að kenna eins og sérfróðir veitingamenn í að búa til mat.

Ég tel eðlilegt að gera ríkisfyrirtækjum kleift að starfa með eðlilegum hætti. Ég tel eðlilegt að reynt sé að skapa þeim grundvöll til þess að starfa með hagkvæmum hætti og ég lít svo á að nefndin hafi alls ekki verið að krefja ráðherra um það að skattleggja eldhús ríkisspítalanna. Þvert á móti. Og það er ekki krafa mín né að ég held annarra nefndarmanna að fjmrn. sé að íþyngja ríkisfyrirtækjum sérstaklega. Ég held að það hljóti að vera einfalt að reikna út og bera saman hagkvæmni einstakra útboða, hvort heldur er með eða án söluskatts. Þetta hlýtur að vera reikningsdæmi sem unnt er að leysa.

Ég held að það þýði ekki heldur að lögbjóða innheimtu skatta sem ómögulegt er að fylgjast með. Í mörgum tilfellum er mjög torvelt að fylgjast með hvort staðin eru skil á skatti. Það eru gildrur, sem hæstv. fjmrh. gæti fallið í við þessa reglugerðarsetningu, en ég sé ekki ástæðu til þess að vera á þessu stigi málsins sérstaklega að búast við því að hann falli í einhverja slíka.