19.04.1986
Neðri deild: 89. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 4231 í B-deild Alþingistíðinda. (3920)

400. mál, verslun ríkisins með áfengi

Stefán Valgeirsson:

Herra forseti. Ég vil vekja athygli á því að í þessu frv. felst alger stefnubreyting í þessum málum, þ.e. að Áfengisverslun ríkisins hefur einkaleyfi til að framleiða áfenga drykki.

Þau rök, sem hæstv. fjmrh. hafði fyrir flutningi þessa frv., held ég að standist ekki vegna þess að ég held að ég muni það rétt að mér var tjáð það fyrir nokkrum vikum síðan að það hefði ekki verið farið fram á það við Áfengisverslun ríkisins að hún framleiddi fyrir þá aðila sem láta framleiða þetta úti í Bretlandi. Ég held að það væru mjög eðlileg vinnubrögð í þessu efni því að hér er verið að opna fyrir fjmrh. á hverjum tíma að veita ekki einungis þetta, heldur að veita slík leyfi eftir geðþótta.

Hæstv. fjmrh. gat um það að þetta mundi auka atvinnu í landinu. Mundi það ekki gera það alveg nákvæmlega eins ef Áfengisverslunin tæki þetta að sér sem væri eðlilegast í þessu máli? Ég held að þessi rök falli alveg um sjálf sig.

Það er líka rætt um það í grg. að þetta mundi skapa útflutningstekjur um 300 millj. Ég hef ekki trú á því að forstjóri Áfengisverslunar ríkisins, hinn ágæti maður Höskuldur Jónsson, geti ekki fengið jafngóða menn til þessara starfa eins og hver annar og að af þeim ástæðum ætti að rýra útflutningstekjur þjóðarinnar að það væri framleitt þar.

En þetta er fyrst og fremst grundvallaratriði. Er Alþingi Íslendinga á árinu 1986 á þeirri skoðun að nauðsynlegt sé að gefa hæstv. fjmrh. heimild fyrir því að leyfa framleiðslu á áfengi eftir sínum geðþótta? Þetta er spurningin sem menn verða að velta fyrir sér og svara. Önnur rök fyrir þessu get ég ekki séð að séu tiltæk, þau falla um sjálf sig.

Á síðustu dögum þessa þings hefur mér heyrst það á ráðamönnum hér að það væri annað þarfara að gera en að pexa um svona mál sem hafa enga þýðingu því að möguleikarnir eru fyrir hendi í núgildandi löggjöf ef mönnum sýnist svo.

Allur málatilbúningur í kringum þetta frv. stenst ekki. Af þeim ástæðum held ég að við þurfum ekki að eyða tíma þingsins í að pexa um þetta mál.

Ef þetta kemur til 2. umr. mun ég ræða þetta frv. frekar.