19.04.1986
Neðri deild: 89. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 4232 í B-deild Alþingistíðinda. (3923)

413. mál, þjóðarátak til byggingar þjóðarbókhlöðu

Menntmrh. (Sverrir Hermannsson):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir 413. máli Ed. á þskj. 762, um þjóðarátak til byggingar þjóðarbókhlöðu. Þrátt fyrir góðan vilja og heitstrengingar um byggingu þjóðarbókhlöðu hafa mál staðið þannig að ekki var séð hvenær byggingu hennar lyki. Nú síðast við undirbúning fjárlaga fyrir árið 1986 var fjárveiting til bókhlöðunnar skert verulega svo að ekki þótti ástæða til annars en að fella hana alveg niður og leita nýrra leiða til að ljúka byggingunni á sem skemmstum tíma.

Frv. það, sem liggur hér fyrir, gerir ráð fyrir því að byggingu þjóðarbókhlöðunnar ljúki á þremur næstu árum með tekjum af sérstökum eignarskatti sem rennur óskertur til byggingarsjóðs þjóðarbókhlöðu. Eignarskattsviðauki þessi er aðeins lítið brot af eignarskatti, sbr. 2. gr. þessa frv.

Allt frá því á vordögum 1968 hefur bygging þjóðarbókhlöðu verið á dagskrá, en í bréfi dagsettu í mars 1969 til dr. Bjarna Benediktssonar forsrh. frá þjóðhátíðarnefnd 1974, segir að á fundum með þingflokkunum vorið 1968 hafi nefndarmenn orðið varir við mikinn stuðning þm. við byggingu þjóðarbókasafns. Ítrekaði nefndin síðar að þjóðarbókhlaða yrði væntanlega helsta gjöfin sem þjóðin færði sjálfri sér á 1100 ára afmæli byggðarinnar í landinu. Hinn 30. apríl 1970 samþykkti Alþingi síðan þáltill. um byggingu þjóðarbókhlöðu, svohljóðandi: „Alþingi ályktar að í tilefni af 1100 ára afmæli Íslandsbyggðar skuli reist þjóðarbókhlaða er rúmi Landsbókasafn Íslands og Háskólabókasafn.“

Laugardaginn 28. jan. 1978 var fyrsta skóflustungan tekin að þjóðarbókhlöðunni. Vilhjálmur Hjálmarsson menntmrh. tók skóflustunguna að viðstöddum Geir Hallgrímssyni forsrh., byggingarnefnd bókhlöðunnar og fleiri gestum. Við þetta tækifæri og oftar var nefnd dagsetning þegar byggingu hússins átti að ljúka. Nefnt var árið 1982.

Árið 1978 voru 340 þúsund bindi í Landsbókasafni og á annað hundrað þúsund bindi í Háskólabókasafni. Í hinni nýju bókhlöðu uppkominni er hægt að geyma eina milljón bóka.

Frá upphafi þessa máls hefur verið litið svo á að þjóðarbókhlaða væri helsta gjöfin sem þjóðin gæti fært sjálfri sér á 1100 ára afmæli mannlífs og menningar í landinu. Þjóðarbókhlaðan er enn þjóðargjöf þótt komið sé fram yfir afmælið. Af þeim ástæðum er leitað til þjóðarinnar um lausn bókhlöðumálsins svo að það dragist ekki um ófyrirsjáanlegan tíma að þjóðin geti nýtt sér þessa gjöf.

Ástæða þykir til að viðurkenna það sérstaka framlag sem frv. gerir ráð fyrir með því að láta fylgja hverju framlagi sérstaka viðurkenningu. Þar verður tekið fram um greitt fé hvers einstaklings til þjóðarbókhlöðunnar með það fyrir augum að hið góða framtak og handtak hvers og eins megi geymast innan fjölskyldna og ætta um ókomnar tíðir.

Ég vil taka það sérstaklega fram að þessi hugmynd hefur mætt gagnrýni og andstöðu og í samstarfsflokki Sjálfstfl., Framsfl., er dregið mjög í efa að rétt sé að málum staðið með þessum hætti. Ég hlýt því að skjóta þessu fram sem hugmynd því að hún er eingöngu bundin við það að enginn verði afskiptur í þessu átaki.

Auðvitað getum við ekki lagt skatta á öryrkja og ellilífeyrisþega, aldrað fólk eða ungmenni. En hugmynd okkar og mín var einvörðungu sú að allir gætu átt þess kost að taka þátt í þessu átaki þannig að enginn yrði afskiptur og með því móti að skattlagning, eins og þetta er, næði ekki til allra, þá gætu hinir, sem vildu rétta hönd fram til stuðnings þessu mikilsverða málefni, keypt sér skuldabréf eða viðurkenningarbréf upp á 1000 kr. t.a.m., eins og hugmyndin var, til þess að enginn þyrfti þess vegna að sitja auðum höndum þegar þetta mikilsverða málefni verður á dagskrá.

En ég ítreka, og beini orðum mínum sérstaklega til formanns þingflokks Framsfl., honum hefur ekki þótt þetta skapfellileg aðferð, að mér er þetta ekki fast í hendi í framkvæmd ef frekari andmæli koma fram við hugmyndina.

Frv. til að ljúka byggingu þjóðarbókhlöðu með sæmd og með samhentu átaki landsmanna er í samræmi við hugmyndir ágætra manna á Alþingi sem hrundu þessu máli af stað fyrir margt löngu og munu ekki hafa talið að tvo áratugi þyrfti til að Íslendingar gætu eignast sína þjóðargjöf.

Þjóðarbókhlaðan er engin tildurbygging. Okkur er mikil nauðsyn á að sameina Landsbókasafn og Háskólabókasafn og koma að auki fyrir sérsöfnum vegna fræða okkar, menntunar og vísinda. Húsnæðismál tveggja fyrrgreindra bókasafna standa okkur fyrir þrifum, enda takmarkað hvað hægt er að auka bókakost þessara safna við núverandi aðstæður. Það er því komið að þeirri stund að ekki verður lengur unað því sinnuleysi sem ríkt hefur um byggingu þjóðarbókhlöðu. Með þjóðargjöf landsmanna tekst að ljúka á næstu þremur árum þessari byggingu, sem svo mjög er miðuð við brýnar þarfir okkar, og er að auki verðugt og sjálfsagt húsrými fyrir stóran hluta af þeirri menningu sem bundin er við bækur.

Fjáröflun sú, sem frv. þetta gerir ráð fyrir, felst í álagningu sérstaks eignarskatts í þrjú ár. Heildarfjárhæðin, sem tekur mið af kostnaðaráætlun um þær framkvæmdir sem eftir eru við byggingu þjóðarbókhlöðu, er áætluð 360 millj. kr.

Ég legg til, herra forseti, að að lokinni þessari umræðu verði þessu máli vísað til fjh.- og viðskn. enda þótt að sínu leyti ætti þetta erindi til menntmn. En þar sem þetta er að verulegu leyti skattlagning legg ég eigi að síður til að málinu verði vísað til fjh.- og viðskn. í hendur Páls Péturssonar hv. 2. þm. Norðurl. v., þar sem því verður vel fyrir komið, og að það verði einnig samþykkt að þessu máli verði vísað til 2. umr.