21.04.1986
Efri deild: 83. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 4249 í B-deild Alþingistíðinda. (3954)

414. mál, Viðey í Kollafirði

Frsm. (Haraldur Ólafsson):

Hæstv. forseti. Menntmn. hefur rætt þetta frv. á nokkrum fundum og átt ítarlegar viðræður við þjóðminjavörð um málið, en það snertir hann að verulegu leyti þar sem hér er m.a. um minjar að ræða sem eru á fornleifaskrá.

Í frv. er lagt til að hlutur ríkisins í Viðey ásamt þeim minjum þar sem eru á fornleifaskrá verði afhentur Reykjavíkurborg til eignar með skilyrðum sem skýrt eru tekin fram í texta frv.

Það hefur vissulega verið rætt að það skyti nokkuð skökku við að ríkið gæti ekki varðveitt minjar þær sem því er falið með lögum á þann hátt að sómi sé að. Nefndarmenn voru sammála um að æskilegast hefði verið að ríkið hefði lokið endurreisn Viðeyjar, en það virðist ekki hafa náðst pólitískt samkomulag um það efni þrátt fyrir þál. Alþingis frá því í fyrravor um að lagt skyldi fé til þess á fjárlögum fyrir árið 1986.

Nú hefur hæstv. menntmrh. fundið leið til þess að þessari endurreisn Viðeyjar mætti ljúka með sómasamlegum hætti og þótt ýmsir nefndarmanna hafi nokkuð við það að athuga er það sameiginleg niðurstaða þeirra sem standa að afgreiðslu málsins að hér sé þó væntanlega gengið tryggilega frá því að Viðey hljóti þann búning og þær minjar sem þar eru sem sómasamlegur er og okkur landsmönnum ekki til algerrar skammar.

Ég get ekki fallist á að Viðey sé fyrst og fremst eign Reykjavíkur. Þetta er eign alls landsins. Og Viðey tengist Íslandssögunni miklu lengur en Skúli Magnússon. Skúli Magnússon bjó reyndar aldrei í Reykjavík. Hann bjó í Viðey og þótt hann sé með nokkrum rétti kallaður faðir Reykjavíkur er hann ekki síður merkilegur í þjóðarsögunni fyrir ýmislegt annað sem hann gerði en að setja upp Innréttingarnar.

En að öllu athuguðu var nefndin sammála um að styðja þetta frv. Einn nefndarmanna skrifaði að vísu undir með fyrirvara og annar nefndarmaður tók ekki þátt í afgreiðslu málsins. Ég heyri að þeir hv. nefndarmenn hafa báðir kvatt sér hljóðs og munu væntanlega gera grein fyrir afstöðu sinni. En nefndin mælir með að frv. verði samþykkt og að það sem gert verður í Viðey fari fram í fullu samráði við þjóðminjavörð og álits hans leitað um allt sem máli skiptir í því sambandi.