21.04.1986
Efri deild: 83. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 4251 í B-deild Alþingistíðinda. (3956)

414. mál, Viðey í Kollafirði

Sigríður Dúna Kristmundsdóttir:

Virðulegi forseti. Eins og fram kemur í nál. hv. menntmn. tók ég ekki þátt í afgreiðslu málsins í nefndinni og vil ég nú skýra nokkuð af hvaða sökum það er.

Eins og fram kom í máli síðasta hv. ræðumanns var ekki haft samráð við stjórnarandstöðuflokkana áður en ákvörðun var tekin um þetta mál sem hefði þó verið hæfilegt því að þm. Reykjavíkur eru í öllum þingflokkum og eðlilegt hefði verið að þm. Reykjavíkur og þingið allt hefðu sameinast um það hvernig staðið væri að hátíðaliöldum af hálfu þingsins á þessu merkisafmæli Reykjavíkurborgar.

Það sem ég hef þó einkum að athuga við þá till. sem hér liggur fyrir er það að með henni er verið að leggja til að gefnar séu þjóðminjar. Viðeyjarstofa og Viðeyjarkirkja eru á þjóðminjaskrá. Ég tel óeðlilegt að þjóðminjar séu á annarra hendi en þjóðarinnar allrar og því er ég mótsnúin því að sveitarfélagi, sem að vísu er mannmargt og telur nær þriðjung þjóðarinnar en er engu að síður aðeins hluti hennar, séu afhentar þjóðminjar.

Ég vil einnig til taka að hér kann að vera varhugavert fordæmi á ferðinni og spurning hvenær mönnum finnst við hæfi að endurtaka þessa aðferð við að heiðra sveitarfélög eða kaupstaði á afmælishátíðum og eins og hv. 8. þm. Reykv. kallaði fram í áðan mundi Hafliði dýr allur ef út í það yrði farið. (Iðnrh.: En Guðrún?) Og Guðrún sjálfsagt enn þá dýrari, iðnrh.

Það er líka spurning hvort menn gætu þá hugsað sér, fyrst út á þessa braut er farið, að afhenda t.d. dýrgripi úr þjóðminjasafni í heiðursgjafir. Það kann að vera að slíkt hafi ekki hvarflað að neinum sem að þessu máli hefur staðið, en þetta er fordæmi sem hægt væri að vísa til dytti einhverjum slíkt í hug einhvern tíma.

Fram kom í hv. menntmn. að ekki var leitað álits þjóðminjavarðar á þessu máli fyrir fram og fram kom að hann var allósáttur við að þjóðminjar væru afhentar með þessum hætti. Þjóðminjavörður nefndi tvær tillögur sem hefðu getað orðið samkomulagstillögur til breytinga á þessu frv. Annars vegar að stofa og kirkja væru undanskilin. Ef ekki, þá að húsin yrðu friðuð og féllu undir húsfriðunarnefnd. Um þessar tillögur varð ekki samkomulag og hlýt ég að harma það.

Á það er einnig að benda, eins og síðasti hv. ræðumaður kom inn á, að þær fornminjar sem hér um ræðir eru ekki eingöngu tengdar sögu Reykjavíkur heldur eru þær tengdar þjóðarsögunni allri. Í Viðey stóð klaustur í kaþólskri tíð og var ríkasta klaustur hér á landi. Þar var prentverk mikið á sinni tíð og þar barðist Jón biskup Arason við danskinn. Þar hafa því fleiri merkisatburðir í þjóðarsögunni og merkisstarfsemi átt sér stað en snertir Skúla fógeta og Innréttingarnar.

Þetta kemur m.a. fram í grg. með till. til þál. sem þm. Reykjavíkur fluttu á síðasta þingi og samþykkt var hér í fyrravor. Sú till. hljóðaði upp á að „Alþingi ályktaði að fela ríkisstj. að láta gera áætlun um endurreisn Viðeyjarstofu og lendingarbætur á eynni í samráði við borgarstjórn Reykjavíkur“, eins og þar segir. „Áætlunin verði við það miðuð að verkinu verði að fullu lokið fyrir 18. ágúst 1986. Kostnaðaráætlun verksins verði lögð fram í tæka tíð fyrir afgreiðslu fjárlaga fyrir árið 1986.“

Þessi þáltill. var samþykkt hér s.l. vor. Engar spurnir hafa hins vegar verið af kostnaðaráætlun vegna þessa verks og engu fé hefur verið veitt til þess sérstaklega þannig að það er ljóst að framkvæmdavaldið hefur í þessu efni hundsað ályktun og vilja Alþingis.

Ég hefði talið að þetta hefði verið bæði eðlilegri og höfðinglegri gjöf af hálfu ríkisins til Reykjavíkurborgar á þessu merkisafmæli hennar og hlýt að lýsa vonbrigðum mínum með að ekki skuli hafa verið staðið að málum eins og þessi þál. kveður á um.

Hins vegar tek ég að fullu undir þau sjónarmið að mikilvægt er að hraða viðgerð Viðeyjarstofu og slæmt er hversu það hefur dregist, en ég tel það vera ríkinu til vansæmdar að geta ekki sjálft staðið að þessu verki og gera þetta á þann hátt að gefa í raun og veru Reykjavíkurborg það í afmælisgjöf að kosta verkið sjálf.

Það er illt að vera á móti því að gefa gjafir og mér mikið á móti skapi að vera á móti slíku. Ég hefði gjarnan viljað standa að höfðinglegri gjöf til Reykjavíkurborgar á 200 ára afmæli hennar. Frv. get ég hins vegar ekki samþykkt eins og það liggur fyrir og þess vegna er mér nauðugur sá kostur að taka ekki þátt í afgreiðslu málsins heldur sitja hjá við atkvæðagreiðslu um það.