21.04.1986
Efri deild: 83. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 4253 í B-deild Alþingistíðinda. (3958)

414. mál, Viðey í Kollafirði

Karl Steinar Guðnason:

Virðulegi forseti. Ég undrast mjög þá umræðu, sem hér er komin af stað, þar sem menn lýsa því yfir að þeir séu komnir í fýlu vegna þess að ekki var rætt við þá út af þessari gjöf. Ég kem hingað til að lýsa yfir fyllsta stuðningi mínum við að Viðey skuli vera gefin Reykjavíkurborg. Ég minni á að á sínum tíma var Viðey í Reykjaneskjördæmi, það breyttist nú fyrir 2-3 árum, en tilheyrði Seltjarnarnesi.

Ég tel að fyrst Reykjavík vill þiggja þessa gjöf, sem vafalaust verður henni mjög dýr, verði það til góðs og ég hygg að framkvæmdum við endurreisn Viðeyjarstofu fleyti fram um ca. 100 ár við það að Reykjavíkurborg tekur þetta að sér, ef skoðaðar eru fjárveitingar ríkisins til svona mála í ljósi reynslunnar.

Ég endurtek að ég tel það vel við hæfi að gefa þessa gjöf og treysti Reykjavíkurborg fyllilega til að fara svo með gjöfina að til sóma verði og Viðey verði í framtíðinni sá staður sem ekki aðeins Reykvíkingar heldur allir Íslendingar geti horft á með nokkru stolti.