17.10.1985
Sameinað þing: 4. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 67 í B-deild Alþingistíðinda. (40)

Stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana

Kolbrún Jónsdóttir:

Herra forseti. Góðir áheyrendur. Hæstv. forsrh. hefur nú dengt yfir þjóðina þessum venjulega skammti af hagfræðihugtökum og þjóðhagstölum sem eiga að færa fólki heim sanninn um ágæti þessarar róttæku ríkisstj. Nú eru það að sjálfsögðu engin ný sannindi að verðbólga á ekki að vera mikil þrátt fyrir viðskiptahallann. Um það deila menn ekki. Hins vegar er það því miður einkenni á ráðherrum og hagfræðingum þeirra að þegar þeir eru spurðir um efnahagsvandann dettur þeim ekki annað í hug en að þylja upp nýjustu fréttirnar úr þjóðhagsspá og öðrum viðlíka pappírum. Þegar spurt er um efnahagsvandann dettur þessum spekingum aldrei í hug að nefna misskiptingu veraldlegra gæða, þá staðreynd að með þessari litlu þjóð ríkir óþolandi lífskjaramunur. Slík greining á efnahagsvanda þætti hápólitísk og ósamboðin okkar vammlausu ráðherrum sem með möppudýrshætti sínum hafa hjálpast að við að líta fram hjá allri misskiptingu þegar efnahagsmál eru til umræðu. Ef þeim verður á að nefna lífskjör er það helst til að segja fólki að hætta að bruðla með þessar örfáu krónur sem það fær í laun.

Ég vek athygli á að þegar þessir menn komast að sínum niðurstöðum og segja að þjóðarkakan sé ekki nógu stór eru þeir ekki að komast að neinni fræðilegri niðurstöðu, þeir eru að komast að hápólitískum niðurstöðum sem eru síst merkilegri en eðlisávísun hinna óbreyttu launamanna. Svo kemur hæstv. forsrh. hér og flytur stefnuræðu sína sem inniheldur engan nýjan boðskap. Í nafni fræðanna reynir hann að slá ryki í augu þess fólks sem þrælar myrkranna á milli fyrir launum sem eru fyrir neðan allt velsæmi. Ég er að tala um þær þúsundir sem mest leggja af mörkum en minnst bera úr býtum, þann fjölda sem erfiðar mest en fær minnst þrátt fyrir lengstan vinnudaginn.

Við skulum hafa hugfast að þegar forusta Sjálfstfl. talar um þjóðarsátt er hún að reyna að skapa frið um þetta óbreytta ástand, þetta óþolandi óréttlæti. Með þessu þjóðarkökutali reyna þeir aftur og aftur að eyða allri umræðu um breytta verðmætaskiptingu, þann möguleika að skipta öðruvísi og réttlátar þeim verðmætum sem nú þegar eru til skiptanna. Hagvaxtarviðbótin á auðvitað að skiptast niður með nákvæmlega sama hætti, í nákvæmlega sömu hlutföllum og þau verðmæti sem við nú þegar höfum til skiptanna.

Nú má enginn skilja orð mín svo að við í BJ séum á móti auknum hagvexti. Nei, það sem við einfaldlega erum að vekja athygli á er að við núverandi verðmætaskiptingu útilokum við stóran hluta þjóðarinnar frá eðlilegri þátttöku í þeim samfélagsháttum sem hér hafa þróast á liðnum áratugum. Hækkun þjóðartekna leiðir til breyttra samfélagshátta og á meðan efnahagslegu misrétti er viðhaldið verður alltaf sami hópurinn út undan. Þessum þjóðfélagshópi er ætlað að vera nánast óvirkur í því þjóðlífi sem ekki snertir beint sjálft brauðstritið. Hver heilvita maður sér að enginn framfleytir fjölskyldu á 20 þús. kr. á mánuði eða minna eins og þúsundum launamanna er boðið upp á. Menn mega þakka fyrir að eiga til hnífs og skeiðar.

Á meðan þessu fer fram, sem hér hefur verið lýst, blómstra braskararnir. Ríkisstj. heldur hlífiskildi yfir þeim. Ár eftir ár komast eigendur fyrirtækja upp með að skrá einkaneyslu sína á kostnað fyrirtækjanna og greiða þannig lágmarksskatt til sameiginlegra þarfa okkar allra. Þessi skattsvik eru þjóðfélaginu dýr auk þess sem þau draga úr hagkvæmni og ala á skattsvikum annarra sem ella mundu telja rétt fram, einkum þeirra sem eiga í samkeppni við skattsvikarana. Fyrir bragðið borgar heiðarlegt fólk meira en annars þyrfti ef þessi mál væru í lagi. Það er kominn tími til að tekið sé í hnakkadrambið á þeim sem árum saman hafa lifað lúxuslífi á kostnað heiðarlegra skattborgara.

Bandalag jafnaðarmanna krefst þess að skattaeftirlit verði eflt stórlega og viðurlög við skattsvikum hert til mikilla muna. Við jafnaðarmenn lítum á skattsvik eins og hvern annan þjófnað. Þess vegna svíður okkur hvernig réttarfarið í landinu meðhöndlar þessi mál. Meginregla dómskerfisins hefur alltaf verið að hundelta smáþjófana og láta stórlaxana sleppa, þá hvítflibba sem skaða samfélagið miklu meira hvort sem litið er á málin siðferðislega eða fjárhagslega. Íslenskt réttarfar er réttarfar þeirra afbrotamanna sem ganga um og leggja gildru fyrir grandalaust fólk, oft í skjóli viðskipta eða lögfræðimenntunar. Andspænis þessu standa óbreyttir borgarar nánast varnarlausir. Réttarfar sér um sína en úthýsir þeim sem ekki kunna á kerfið og ekki hafa efni á rándýrri lögfræðiþjónustu. Sú stjórn, sem nú situr, mun ekki hrófla við þessum málum. Umfjöllun hennar um rétt og rangt snýst um það eitt hvort hyggilegt sé að leyfa eða banna svokallað bjórlíki sem varla nokkur sála hefur lyst á að leggja sér til munns lengur. Þetta er þeirra réttarfarsheimspeki, lengra nær hún ekki.

Herra forseti. Eftir að núv. ríkisstj. tók við völdum hefur óréttlætið í þjóðfélaginu aukist til muna, bilið milli ríkra og fátækra hefur farið vaxandi. Ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar hefur fært milljónir og aftur milljónir frá launafólki til fyrirtækjaeigenda, frá þeim efnaminni til þeirra efnameiri. Ef miðað er við stöðu láglaunafólks á þessum haustdögum er ótrúlegt fjármagn nú í höndum efnaðra forréttindahópa. Lífsstíll þeirra og lúxus segja okkur miklu meira en opinberar tölur í skattskrám. Ríkisstjórn framsóknar- og sjálfstæðismanna er ekki ríkisstjórn réttlætis og framfara. Hún er ríkisstjórn stöðnunar og misréttis. Dagar hennar eru taldir og starfsþrekið í lágmarki. Því fyrr sem hún gerir sér grein fyrir þessu, því betra. Framtíðarheill okkar allra er í veði.

- Ég þakka áheyrnina. Góðar stundir.