21.04.1986
Efri deild: 86. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 4276 í B-deild Alþingistíðinda. (4004)

368. mál, selveiðar við Ísland

Frsm. minni hl. (Björn Dagbjartsson):

Virðulegi forseti. Hæstv. ráðherra sjávarútvegsmála gat þess hér um daginn í framsögu sinni við 1. umr. þessa máls að málið hefði fengið ítarlega umræðu en honum láðist að geta þess að þó að mikið hafi verið rætt um málið í hv. Nd. og oft af lítilli þekkingu, þá hefur það ekki fengið neina umfjöllun hér. Örlög þess virðast hafa verið þau á undanförnum árum að það hefur staldrað við hér nokkra síðustu klukkutíma þingstarfanna og svo virðist eiga að vera nú líka.

Ég tel nauðsynlegt að koma á framfæri hér í hv. deild ýmsum þeim upplýsingum sem ég tel að ekki hafi komist á framfæri í umræðu um málið til þessa. Ég geri mér grein fyrir því, hæstv. forseti, að það getur tekið nokkurn tíma en ég tel það samt sem áður nauðsynlegt. Ég tel að hv. deildarmenn eigi það skilið að fá um þetta sem bestar upplýsingar.

Ég vil þá fyrst skýra frá því að þeim brtt., sem ég hef lagt hér fram ásamt hv. þm. Karli Steinari Guðnasyni, fylgir nokkuð ítarlegt nál. og skýringar á í hverju brtt. eru fólgnar svo að ég mun ekki eyða löngum tíma í að fylgja þeim úr hlaði.

Ég vil þá aðeins byrja á því að rekja aðdraganda þess að þetta frv. var samið á sínum tíma, árið 1982. (SkA: Hvers lags vinnubrögð eru þetta eiginlega?) - Ég mun nú gera hlé á máli mínu meðan menn ræðast við hér. (Forseti: Það heyrðist hér athugasemd frá hv. 4. þm. Vesturl. að nál. væri ekki komið frá honum. Forseti vissi ekki að það væri von á fleiri nál. varðandi þetta mál. Honum var ekki gerð grein fyrir því og þar af leiðandi var málið tekið á dagskrá og til umræðu. Og þá held ég að forseti verði að fá upplýsingar um það hjá hv. þm. hvort þetta nál. er væntanlegt þannig að hv. 5. þm. Norðurl. e. sé óhætt að halda áfram með sína ræðu og nál. hv. 4. þm. Vesturl. verði komið þegar röðin kemur að honum að mæla fyrir því. Annars mun þá málinu verða frestað ef svo verður ekki.) (SkA: Það er kannske rétt að ég fengi að koma í ræðustól til að upplýsa þetta?)

Virðulegur forseti. Ég skal með ánægju gera hlé á máli mínu.