21.04.1986
Efri deild: 86. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 4277 í B-deild Alþingistíðinda. (4006)

368. mál, selveiðar við Ísland

Skúli Alexandersson:

Virðulegi forseti. Það var haldinn fundur í sjútvn. hér í hliðarherbergi um fimm-leytið í dag, eða milli kl. fimm og sex, og þá var fjallað um það mál sem hér var tekið fyrir á dagskrá. Nefndarmenn voru að kanna hvort þetta mál hefði meirihlutafylgi hér í hv. deild þannig að líkur væru fyrir því að hægt væri að ganga frá þessu frv. sem lögum. Ég tók þátt í þessum umræðum og lýsti afstöðu minni þar nokkuð og gekk í það með öðrum nefndarmönnum að leita eftir fylgi manna við frv. Síðan þurfti ég að fara frá. Það vissi formaður nefndarinnar. Ég þurfti að fara á framkvæmdastjórnarfund í mínum flokki og ég gekk út frá því að ekki yrði gengið frá þessu máli frekar fyrr en að ég hefði tíma til að sinna þar nefndarstörfum og ganga frá afgreiðslu nefndarinnar og hvort ég yrði þar einn á báti eða í meiri hl. Ég taldi líklegt að ég mundi fylla þann hópinn, ef um það væri að ræða að meiri hl. væri í deildinni fyrir málinu, sem mælti með samþykkt frv., eða alla vega eiga aðild að meirihlutanefndaráliti. Einhverra hluta vegna taldi síðan sjútvn. ástæðu til þess að ganga frá nál. án þess að ég kæmi þar neitt nálægt og lýsir því beinlínis yfir í sínu nál. að aðrir nefndarmenn muni skila séráliti. Ég kem síðan hér á fund í hv. deild - reyndar heldur seint, það skal viðurkennt, um níuleytið - og er þá búið að dreifa á borð þm. nál. Ég fór beint í það, þegar ég sá að mér var ætlað að gefa út sérstakt nál., að safna í það nál. gögnum. Ég er kominn með svolítinn bunka en það er langt frá því, því miður, fyrst ætlast er til þess að ég leggi fram sérstakt nál., að ég sé búinn að ná þeim gögnum saman sem ég þarf að hafa í því nál., það er langt frá því. Og ég fer fram á það við virðulegan forseta að þessari umræðu verði frestað, þar til ég, sem hef verið dæmdur til þess af meiri hl. sjútvn. að flytja hér sérstakt nál., hef haft tíma til þess að semja það nál. og leggja það fyrir hv. deild.