21.04.1986
Neðri deild: 92. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 4301 í B-deild Alþingistíðinda. (4034)

413. mál, þjóðarátak til byggingar þjóðarbókhlöðu

Heilbr.- og trmrh. (Ragnhildur Helgadóttir):

Herra forseti. Ég sé sérstaka ástæðu til að fagna því að samkomulag verður á Alþingi um að gera ráðstafanir til að fjármagna byggingu þjóðarbókhlöðu. Það hefur verið langt frá því að vera vansalaust hvernig hefur verið staðið að fjárveitingum til þessa verkefnis í mörg ár.

Fyrir liggur hver viljayfirlýsingin af annarri af hálfu Alþingis allt frá því er undirbúningur þessa verkefnis hófst á 7. áratugnum og margsinnis ályktaði Alþingi að standa saman um það að gefa þjóðinni þessa gjöf sem væri samboðin okkar menningararfi.

Það þekkjum við vel að það hefur kostað mikla baráttu að fá fjárveitingar til þessa verkefnis og vissulega hefur það verið fjarri því að ganga með þeim hraða sem þurft hefur. Sérstaklega hafa upphæðir, sem samþykktar hafa verið á fjárlögum, verið of litlar. Svo var á fjárlögum fyrir árið 1985, en þó nokkuð í áttina. En aukafjárveiting fékkst á s.l. ári til viðbótar því sem samþykkt var á fjárlögum að upphæð 10 millj. kr.

Að gefnu tilefni um almenna afstöðu sjálfstæðismanna til eignarskatts vil ég geta þess að það er skattform - og sérstaklega hækkun skatta af því tagi - sem mér er ákaflega þvert um geð. Hitt er svo annað mál að hér er um að ræða skattauka sem staðið hefur um nokkurt skeið og ef við samþykkjum það að framlengja hann sé ég ekki betur en að þetta mikilvæga mál sé í höfn. Og svo mikið hef ég reynt á þeim tíma sem ég var menntmrh. að koma þessu máli í höfn, eða á þann rekspöl að sjáanlegt væri að hraðinn gæti orðið viðunandi, að mér er mætavel ljóst að ekki duga aðrar ráðstafanir en einhverjar þær sem eru annars konar en þær sem við venjulega grípum til með því að samþykkja fjárveitingar á fjárlögum.

Þess vegna lýsi ég mig eindregið fylgjandi þessu frv. og fagna því að Alþingi sýni áhuga sinn í verki með því að samþykkja þetta frv. sem ég vona að verði.