21.04.1986
Neðri deild: 92. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 4302 í B-deild Alþingistíðinda. (4036)

413. mál, þjóðarátak til byggingar þjóðarbókhlöðu

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Ég þarf út af fyrir sig ekki að hafa langt mál um þetta mál sem hér er á dagskrá. Ég lýsti afstöðu minni til þess á fundi á laugardag. Ég er andvígur málinu og mun greiða atkvæði gegn því.

Hv. þm. eru hver á fætur öðrum að vitna til fráhvarfs Sjálfstfl. frá eignarskattstökunni. Hæstv. iðnrh. nikkaði á laugardaginn var þegar formaður Alþfl. var að vitna til þess að Sjálfstfl. væri fallinn frá fyrri ákvörðunum sínum varðandi eignarskatta. (Iðnrh.: Ég var í París á laugardaginn.) Það vita allir að hæstv. iðnrh. er búinn að vera lengi í París, það var ekki bara á laugardaginn, það er langt síðan. - En ekki hvarflar að mér að halda að Sjálfstfl. sem heild sé horfinn frá því sjónarmiði sem hann hefur haft fyrir stefnu að því er varðar eignarskattinn. Ég vildi gjarnan biðja hæstv. fjmrh., formann flokksins, að koma hér í ræðustól og segja hver stefna Sjálfstfl. er nú varðandi eignarskattstöku, álagningu eignarskattsauka. Ég vil heyra það frá formanni flokksins ef flokkurinn sem heild er horfinn frá fyrri stefnu í þessum málum.

Ég er hins vegar á því að hæstv. menntmrh. hafi nánast þröngvað þessu liði inn á að samþykkja þetta nú, líklega fyrst og fremst vegna þess að hann varð að falla frá lánasjóðsmálinu á sínum tíma. Hann hefur fengið þetta í skiptum fyrir það að falla frá lánasjóðsmálinu og fengið þetta í gegn með þeim hætti sem það nú birtist hér á Alþingi. Út af fyrir sig má kannske hæla hæstv. menntmrh. fyrir það, enda er hann duglegur á mörgum sviðum. En ég óska sérstaklega eftir því að hæstv. fjmrh. komi hér í ræðustól og lýsi yfir hver stefna Sjálfstfl. er nú varðandi álagningu eignarskatta eins og hefur verið um að ræða í þessu tilfelli.

Hv. þm. Stefán Valgeirsson var undrandi á því að frsm. fyrir nefndinni áðan skyldi ekki nefna á nafn tillögu sem hann flytur. Aldrei hvarflaði það að mér að neinn af þm. Framsfl. ætlaði að fyrra bragði að taka undir slíka tillögu í þessum efnum. Það má meira gerast en það að þeir ætli að fara að lofa fyrir fram að leggja á sérstaka skatta til þess að láta í hafnarframkvæmdir í landinu. Það þarf að segja mér það tvisvar til þess að ég trúi því.

Já, það er langt frá því að vera vansalaust, segir hæstv. heilbr.- og trmrh., hvernig farið hefur verið með blessaða þjóðarbókhlöðuna. Ætli það séu ekki mörg fyrirtækin, ætli það séu ekki margar hafnirnar í landinu sem eru að molna niður undan sjávargangi og ekki verður við neitt ráðið? Ætli það séu ekki mörg skólahúsnæðin í landinu sem eru að drabbast niður vegna þess að það vantar fjármagn til þess að framkvæma fyrir þau? Ætli það séu ekki svo og svo mörg framkvæmdamál sem er langt frá að sé vansalaust að láta halda áfram eins og þau hafa verið rekin undangengin ár? Ég hef út af fyrir sig ekkert á móti þjóðarbókhlöðunni. En Ísland lifir ekki á þjóðarbókhlöðunni einni saman. (Gripið fram í.) Það má vel vera að hv. þm. Guðrún Helgadóttir lifi á henni en þeir verða ekki margir henni til fylgdar sem lífa eingöngu á þjóðarbókhlöðu. Ætli það þurfi ekki undirstöðuna fyrst? Ætli það þurfi ekki fiskinn, hv. þm. Guðrún Helgadóttir, til þess að þetta land byggist eðlilega og þeir sem eftir verða hér á skaganum geti lifað eðlilegu lífi ef þeim fer ekki svo mjög ört fækkandi miðað við það hvernig ástand hefur verið hér undangengin ár?

Nei. Ég er út af fyrir sig ekki að hafa sérstaklega á móti framkvæmdum við þjóðarbókhlöðu. En að taka það mál út úr með þeim hætti sem hér er gert tel ég af og frá, ekki síst vegna þess að það liggur ekki svo á því. Það verða engar framkvæmdir fyrr en á næsta ári og þá er hægt að hafa það inni í fjárlögum. Ég á a.m.k. eftir að sjá það að við afgreiðslu næstu fjárlaga, að óbreyttu þingliði, verði verulega auknar fjárveitingar til hafnaframkvæmda í landinu, til flugvallagerðar í landinu, til skólabygginga í landinu og svo mætti lengi halda áfram að telja. Það þarf eitthvað meira að ske heldur en það sem nú er um talað til þess að hér verði hugarfarsbreyting hjá þeim sem ráða ferðinni til þess að auka framkvæmdafé til þessara mikilvægu málaflokka. Það mætti ábyggilega telja í tugum þau hafnarmannvirki sem ekki bara liggja undir skemmdum heldur eru þegar orðin skemmd vegna fjársveltis undanfarin ár. Og við getum ekki unað því öllu lengur að við slíkt verði látið halda. Það verður að grípa til hendinni og ég tel það verkefni framar því verkefni sem er verið að tala um, þjóðarbókhlöðunni. Það er mikilvægara að sinna þeim verkefnum sem eru undirstaða þess að fólk geti lifað í þessu landi, sem er sjávarútvegurinn, hafnaraðstaðan.

Ég ítreka spurningu mína til hæstv. fjmrh., formanns Sjálfstfl. Hefur orðið stefnubreyting hjá Sjálfstfl. að því er varðar eignarskattsálagninguna með tilkomu þess frv. sem er verið að ræða?