21.04.1986
Neðri deild: 92. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 4305 í B-deild Alþingistíðinda. (4039)

413. mál, þjóðarátak til byggingar þjóðarbókhlöðu

Guðmundur Bjarnason:

Herra forseti. Ég vil í upphafi segja það að ég er ekki andvígur álagningu eignarskatts. Ég er hins vegar andvígur því sem kemur fram í 1. gr. frv. sem er til umræðu, að þessum sérstaka eignarskatti sé varið til byggingar þjóðarbókhlöðunnar. Ég er almennt talað andvígur mörkun tekjustofna. Ég held að það sé ekki skynsamleg leið í uppbyggingu okkar skattakerfis og varðandi okkar ríkisfjármál og varðandi okkar framkvæmdir að við stöndum þannig að málum og hvar endar það þá?

Þess vegna verð ég líka að lýsa því yfir að ég er andvígur brtt. hv. alþm. Stefáns Valgeirssonar um það að hækka þennan eignarskatt í 0,5% og verja honum að hálfu til hafnamála, m.a. vegna þess að það mundi gefa um það bil 120 millj. kr. til hafnaframkvæmda á næsta ári. Slíkur markaður tekjustofn mundi örugglega leiða til þess að mönnum dytti ekki í hug að þar kæmi til greina að hafa hærri upphæð heldur en sem honum næmi og 120 millj. kr. er allt of lítil upphæð til þessa verkefnis á næsta ári.

Ég get ekki ímyndað mér neitt um það á þessu stigi eða haft um það hugmyndir hver kann að verða niðurstaða við frumvarpsgerð í sumar og við afgreiðslu Alþingis á fjárlögum fyrir næsta ár hvaða upphæðum verður varið til einstakra framkvæmdamálaflokka eins og t.d. hafna. En það er ljóst að 120 millj. kr. er of lítil fjárveiting til þeirra framkvæmda sem þar eru margar og brýnar fyrirliggjandi og þyrfti enn hærri upphæð til.

Varðandi þjóðarbókhlöðuna sem slíka er það auðvitað rétt, sem hefur komið fram í máli ýmissa hv. þm., að það er ekki til neins sóma fyrir Alþingi hvernig að því hefur verið staðið. En það er heldur ekki til neins sóma fyrir Alþingi hvernig staðið hefur verið að ýmsum öðrum opinberum framkvæmdum á seinustu árum. Við höfum hins vegar orðið að horfast í augu við þær staðreyndir hvernig ríkisfjármálum hefur verið háttað og við höfum sætt okkur við það að ýmsar nauðsynlegar framkvæmdir hafa verið skornar niður og þær orðið að bíða betri tíma. Svo á einnig við með þjóðarbókhlöðuna. Við ákváðum í sambandi við samþykkt fjárlaga fyrir síðustu áramót að fresta þeirri framkvæmd. Við hefðum ekki efni til þess á þessu stigi að leggja í átak þar. Það yrði að bíða. Og ég ítreka það að mér sýnist að við verðum að horfa til framtíðar með það eins og ýmis önnur verkefni og takast á við það þegar við stöndum næst að gerð fjárlaga hversu mikið við treystum okkur til að leggja til þessarar byggingar svo sem til ýmissa annarra. Það eru margar þarfar framkvæmdir sem verða að bíða. Eins og öllum þm. er kunnugt tekur ríkissjóður lögum samkvæmt þátt í ýmiss konar framkvæmdum með sveitarfélögunum, svo sem hafnagerð, skólabyggingum, sjúkrahúsauppbyggingu, heilsugæslustöðvum, dagvistunarheimilum, svo að eitthvað sé upp talið. Þessi framlög hafa farið minnkandi að raungildi undanfarin ár og telja mörg sveitarfélög nú þegar að þau eigi miklar kröfur á hendur ríkissjóði af þessum sökum þó að þær skuldbindingar séu ekki samkvæmt skriflegum bindandi samningum. En þetta þekkjum við mjög vel, þeir sem hafa setið í fjvn. að undanförnu, og þar eru stórar kröfur uppi.

Mér telst svo til að á fjárlögum ársins 1986 sé veitt einhver fjárhæð til u.þ.b. 240 skólamannvirkja, ýmist til byggingarframkvæmda eða undirbúningsframkvæmda. Það eru fjárveitingar til 36 sjúkrahúsa, heilsugæslustöðva og læknisbústaða og um 70 dagvistunarstofnana. Og allar þessar upphæðir eru of litlar miðað við það sem þyrfti að gera og miðað við þær framkvæmdir sem í gangi eru.

Ég get tekið undir margt, kannske flest, af því sem kemur fram á þskj. 956, nál. frá minni hl. fjh.- og viðskn. sem lagt var fram í Ed., og ég verð að segja það að ef niðurstaðan verður sú og menn verða sammála um það að leggja á eignarskatt eða eignarskattsauka, eins og reyndar er í gildi í dag, sé ekki óeðlilegt að þeim eignarskattsauka sé varið til þess að létta undir með þeim húsbyggjendum sem eiga í erfiðleikum nú og hafa orðið að sitja við allt aðrar, verri og ólíkari aðstæður heldur en kynslóðin sem var að byggja á undan þeim eins og segir í þessu nál. Undir það get ég tekið.

Hitt vil ég ítreka að almennt talað er ég á móti því að við samþykkjum markaða tekjustofna eins og hér er lagt til. Ég sé ekki hvert mundi stefna ef það ætti að vera svo áfram. Þess vegna finnst mér það ómaklegt þegar hv. þm. Guðrún Helgadóttir kallar það „innihaldslaust raus“ þegar menn lýsa skoðunum sínum á slíkum grundvallaratriðum eins og hér eru á ferðinni og ég vísa því algerlega á bug, þó ég láti þetta álit mitt í ljós, að það geti flokkast sem slíkt.

Ég verð því miður, herra forseti, að lýsa því yfir að ég get ekki samþykkt þetta frv. eins og það liggur fyrir.