21.04.1986
Neðri deild: 92. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 4307 í B-deild Alþingistíðinda. (4041)

413. mál, þjóðarátak til byggingar þjóðarbókhlöðu

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Menn koma hér upp í hópum og lýsa afstöðu sinni. Ég skal leitast við að gera það í sem allra fæstum orðum til að hefja megi þingflokksfundi á eðlilegum tíma.

Ég er efnislega hlynntur því að reynt verði að ljúka byggingu þjóðarbókhlöðu sem allra fyrst og tek undir þau orð sem hafa fallið um það. En ég tel hér vera mjög óeðlilega málsmeðferð á ferðinni og ég vísa í fyrirvara á nál. Ragnars Arnalds í Ed. um það efni. Auðvitað er mjög sérkennilegt að vera að binda ráðstöfun þessa tekjustofns nú á vordögum á Alþingi þegar fyrir liggur að samþykkt verða fjárlög fyrir þann tíma sem viðkomandi ráðstöfun tekur síðan gildi um næstu áramót.

Af sama toga eru athugasemdir mínar við brtt. hv. þm. Stefáns Valgeirssonar. Það liggur auðvitað fyrir að í fjárlögum á Alþingi næsta vetur verður ákveðið heildarfjármagn látið renna til hafnamála og þar með yrði væntanlega þessi markaði tekjustofn einungis dreginn frá því sem ella væri. Ég sé því engan tilgang í því að styðja þá brtt. þó að ég sé henni sammála, þ.e. þeirri hugsun hennar að nauðsynlegt sé auka verulega fjárveitingar til hafnamála. En við stöndum hér, herra forseti, frammi fyrir því að einstakir þm. stjórnarliðsins og einstakir hæstv. ráðherrar treysta sér ekki til að búa við fjárlög hæstv. ríkisstj. og grípa þess vegna til slíkra örþrifaráða, eins og ég vil kalla þennan málatilbúnað, að draga út úr einstaka málaflokka og reyna að koma þeim með sérstökum framhjáhlaupum í gegnum Alþingi til að þurfa ekki að búa við þá smán og þá skömm sem fjárveitingar hæstv. ríkisstj. eru til einstakra málaflokka eins og til að mynda þjóðarbókhlöðu og hafnamála. Niðurstaðan af þessu er því fyrst og fremst algert stefnuleysi í ríkisfjármálum. Hæstv. ríkisstj. hefur enga stefnu. Nokkrum mánuðum eftir að fjárlögum er lokað koma slíkar flugeldasýningar upp hjá einstökum hæstv. ráðherrum og einstökum þm.

Ég vil líka segja, herra forseti, og skal svo ljúka máli mínu, að jafnnauðsynlegt og ég tel að drífa þessa þjóðarbókhlöðu áfram vil ég og minna á að margar mjög þýðingarmiklar framkvæmdir í landinu voru skornar niður svo að algjörlega óviðunandi er í síðustu fjárlögum og hafa verið það í tíð þessarar ríkisstj. Ég vil nefna aðeins eitt dæmi, K-bygginguna á Landspítalalóðinni. Ég vil spyrja hv. þm., til að mynda hv. þm. Reykv. og hv. þm. í fjvn.: Eru þeir alveg sannfærðir um að það sé rétt forgangsröðun verkefna að verja ekki nema fáeinum tugum milljóna í þetta helsta stórvirki okkar á sviði heilsugæslunnar nú um stundir, K-byggingu Landspítalans eða ríkisspítalanna, á sama tíma og á að fara að verja kannske á annað hundrað milljóna á hverju ári á næstu árum í þjóðarbókhlöðuna? Ég er ekki viss um, herra forseti, að ég geti borið ábyrgð á slíkri forgangsröðun verka og treysti mér því ekki til að styðja þetta frv. En sé það vilji hæstv. ríkisstj. að láta það fram ganga mun það ekki mæta mótatkvæði mínu.