21.04.1986
Neðri deild: 92. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 4314 í B-deild Alþingistíðinda. (4060)

400. mál, verslun ríkisins með áfengi

Frsm. minni hl. (Svavar Gestsson):

Herra forseti. Á þskj. 1000 hef ég gefið út nál. sem minni hl. fjh.- og viðskn. um frv. til l. um breytingu á lögum um verslun ríkisins með áfengi, tóbak og lyf. Nál. er á þessa leið:

„Nefndin hefur fjallað um málið. Fram kom við meðferð nefndarinnar að í næsta mánuði mun nefnd, sem fjallar um opinbera stefnumörkun í áfengismálum, skila áliti. Fulltrúar áfengisvarnaráðs mæltust til þess að þingið frestaði meðferð málsins til næsta þings þar sem þá mætti athuga það betur í heildarsamhengi, en nefndin hafði aðeins einn fund til þess að fjalla um málið.

Af þessum ástæðum leggur minni hl. til að málið verði afgreitt með svofelldri rökstuddri dagskrá:

Þar sem þingið hefur haft nauman tíma til að fjalla um mál þetta, auk þess sem nefnd um opinbera stefnumótun í áfengismálum skilar af sér í næsta mánuði, telur deildin ekki ástæðu til þess að afgreiða málið á þessu þingi og tekur fyrir næsta mál á dagskrá.“